Þóra Þorgrímsdóttir fæddist á Presthólum í Núpasveit 16. maí 1938 og ólst þar upp. Hún lést á Lækjarbrekku, Hrafnistu í Reykjavík, 26. maí 2022.

Foreldrar Þóru voru Guðrún Guðmundsdóttir frá Garði í Núpasveit, f. 16. febrúar 1905, d. 24. desember 1989, og Þorgrímur Ármannsson frá Hraunkoti í Aðaldal, f. 13. apríl 1898, d. 30. janúar 1978.

Þóra var næstyngst sjö systkina en hin eru: Guðmundur, f. 23. maí 1926, d. 24. október 2016, Hálfdán, f. 24. desember 1927, Þorbjörg, f. 3. september 1929, Ármann, f. 10. janúar 1932, Jónas, f. 21. júní 1934, d. 4. nóvember 2014, og Halldór, f. 12. desember 1939.

Þóra giftist 26. október 1968 Gesti Jónssyni loftskeytamanni, f. 25. ágúst 1943, d. 8. nóvember 2002. Foreldrar Gests voru Inga Sigríður Gestsdóttir, f. 14. ágúst 1918, og Jón G.S. Jónsson, f. 30. ágúst 1909, d. 7. júlí 1992.

Dóttir Þóru og Gests er Heiða Sigurrós, f. 18. október 1976. Börn Heiðu eru Svanur Þór, f. 25. október 1999, Gestur Magnús, f. 14. desember 2000, og Selma Rós, f. 9. janúar 2006.

Eftir hefðbundna skólagöngu fór Þóra í húsmæðraskóla á Varmalandi í Borgarfirði. Hún stundaði ýmsa vinnu, svo sem síldarvinnu á Raufarhöfn og fiskvinnu í Vestmannaeyjum. Þóra starfaði í Húsgagnahöllinni á Laugavegi í 20 ár og sem deildarstjóri hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna í rúm 25 ár áður en hún fór á eftirlaun.

Þóra og Gestur hófu búskap á Hraunteigi 13 í Reykjavík en fluttu svo í Ljósheima 18a, þar sem Þóra bjó allt til ársins 2018 þegar heilsa hennar leyfði það ekki lengur.

Útför Þóru fer fram frá Langholtskirkju í dag, 13. júní 2022, klukkan 13.

Amma okkar mun halda áfram að skína eins og gull í minningum okkar allra.

Mamma var kletturinn okkar, stoð og stytta og við vorum hennar á móti. Hún var skapandi hvað varðar alla matargerð og bakstur. Meistaraverk komu frá heklunálinni og margt var henni annað til lista lagt.

Henni fannst gaman að prófa nýjar mataruppskriftir og gera þær að sínum og urðu þær hver annarri betri í hennar höndum. Allt sem hún tók sér fyrir hendur kom ótrúlega vel út eins og allar veislur og matarboð sem voru hennar ástríða. Hún var glæsileg í öllu sem hún klæddist og gaf svo mikinn kærleika til þeirra sem hún kynntist og svo deildi hún líka sögum, vitneskju, þekkingu.

Við leituðum til hennar með alls konar og hún var alltaf með lausnir, hugmyndir og ráð. Hún gaf svo mikið af sér, algjör sólargeisli sem við vorum svo heppin að eiga að.

Hennar verður sárt saknað.

Heiða, Svanur Þór, Gestur Magnús og Selma Rós.

Þóra mágkona kvaddi þennan heim á Hrafnistu, 26. maí sl., eftir erfið veikindi síðustu fjögur ár. Æðruleysið sem Þóra sýndi var aðdáunarvert og alltaf fagnaði hún okkur með sínu fallega brosi og hlýju þrátt fyrir alvarleg veikindi.

Þóra og Gestur bróðir okkar kynntust á Raufarhöfn sumarið 1963 en Gestur var þá nýútskrifaður loftskeytamaður og hafði ráðið sig í afleysingar á Raufarhafnarradíói um sumarið. Í framhaldinu flutti Þóra til Reykjavíkur og við fjölskyldan kynntumst henni og hennar miklu mannkostum. Þóra var eldklár, fjörug og létt í lund, söngelsk og skapandi. Hún saumaði iðulega föt sín sjálf, prjónaði og heklaði og var mjög góður kokkur. Hún var alltaf boðin og búin að hjálpa til og nutum við öll í fjölskyldunni góðs af saumahæfileikum hennar.

Eftir að Þóra og Gestur stofnuðu heimili vorum við alltaf velkomin og fastur liður var fjölskylduboðið á jóladag. Þar bauð Þóra upp á landsins besta hangikjöt sem kom frá heimaslóðum hennar að norðan, Þingeyjarsýslunni, með dýrindis meðlæti og heimagerðum ís. Faðir okkar og Þóra voru miklir vinir og var hann oft í heimsókn hjá Þóru sinni, á Hraunteignum og síðar í Ljósheimunum. Hann naut góðs af gestrisni hennar og umhyggju og leið ávallt vel í návist hennar. Hann var mikill sælkeri og fékk alltaf eitthvað gott með kaffinu hjá Þóru.

Norska fjölskyldan fékk líka vel að njóta gestrisni Þóru, fengu að búa hjá henni í fríum heima á Íslandi og var kjötsúpan hennar Þóru í miklu uppáhaldi. Þeir eru líka ófáir jólapakkarnir með heimagerðu gjöfunum sem yljuðu, hlýjar og góðar tátiljur, falleg prjónuð sjöl og litrík hekluð teppi.

Þóra var Þingeyingur og kenndi okkur borgarfjölskyldunni að steikja laufabrauð. Fjölskyldan kom saman fyrsta laugardag í desember á ári hverju. Þóra bjó til deigið og öll skárum við út og skreyttum af mikilli list. Alltaf voru nokkur laufabrauð með KR-merkinu sem sýndi vel að fjölskyldan var úr Vesturbænum.

Þóra vann lengi hjá Húsgagnahöllinni á Laugaveginum. Eftir það hóf hún störf hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og starfaði sem deildarstjóri hjá lífeyrissjóðnum þar til hún fór á eftirlaun. Hún var alla tíð vel metin af samstarfsfólki sínu, enda góður vinnukraftur, létt í lund, samviskusöm og klár.

Þóra var bróður okkar mjög kær og elskuð eiginkona. Þau voru náin hjón og miklir vinir. Gestur var mikill bridgespilari og átti sterkan „makker“ í Þóru sinni alla tíð, bæði í spilamennskunni og í lífinu sjálfu. Hún var honum sterk stoð og stytta alla þeirra sambúð.

Heiða og ömmubörnin, Svanur Þór, Gestur Magnús og Selma Rós, voru Þóru afar kær. Hún var mikil amma og tók virkan þátt í lífi þeirra og studdi þau á allan hátt.

Við kveðjum Þóru okkar með söknuð í hjarta og erum þakklátar fyrir allar dýrmætu samverustundirnar sem við áttum gegnum árin.

Megi Guð gefa fjölskyldu Þóru styrk til að takast á við sorgina.

Hvíl í friði.

Gerða, Sigríður og Guðbjörg.

Í dag kveðjum við Þóru, sem hefur verið hluti af lífi okkar alla tíð. Þóra var ótrúlega gjafmild og falleg kona. Það var alltaf yndislegt að heimsækja hana og gott að vera nálægt henni.

Við minnumst konu sem alltaf tók á móti okkur með opnum faðmi og bros á vör. Jafnvel þegar annað hafði verið frá henni tekið, þá var brosið og hlýjan alltaf á sínum stað.

Við minnumst konu sem elskaði að baka og halda dýrindis veislur. Kræsingarnar í jólaboðum og afmælum voru engu líkar.

Við minnumst konu sem allt lék í höndunum á, hvort sem það var að prjóna sokka, vettlinga, hekla teppi, gera dúkkur eða flóknari handavinnu.

Við minnumst konu sem kunni öll lög og söng dátt, hvort sem þetta voru rokklög, barnavísur eða íslensk þjóðlög. Aldrei kom maður að tómum kofunum þar.

Við minnumst konu sem leiddi laufabrauðsbaksturinn fyrir jólin. Hún kom með þennan skemmtilega norðlenska sið inn í fjölskylduna og þegar búið var að steikja laufabrauðin þá átti hún alltaf nokkrar kleinur sem hún steikti við mikla kátínu okkar hinna.

Við minnumst konu sem elskaði að spila og var alltaf tilbúin að taka slag.

Við systkinin viljum kveðja Þóru með kvæði sem minnir okkur á hana:

Lækur tifar létt um máða steina,

lítil fjóla grær við skriðufót.

Bláskel liggur brotin milli hleina,

í bænum hvílir íturvaxin snót.

Ef ég væri orðin lítil fluga

ég inn um gluggann þreytti flugið mitt,

og þó ég ei til annars mætti duga,

ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

(Sigfús Halldórsson/Sigurður Elíasson)

Hvíl í friði elsku Þóra. Minning þín mun lifa í hjarta okkar.

Jón Ari og Inga Sif.