Ella Kristín Karlsdóttir
Ella Kristín Karlsdóttir
Eftir Ellu Kristínu Karlsdóttur: "Handleiðsla er leið til að sporna við streitu og kulnun en jafnframt tækifæri til að efla fagvitund fagmannsins og eigin áhrifamátt."

Á þessu ári á Handís, Handleiðslufélag Íslands, 22 ára afmæli. Félagið var stofnað árið 2000 en að því standa einstaklingar sem veita faghandleiðslu. Félagsmenn Handís hafa lokið námi í faghandleiðslu og handleiðslutækni og koma þeir úr ýmsum starfsstéttum, meðal annars menntakerfinu, heilbrigðis-og félagsþjónustu. Handís er ætlað háskólamenntuðu fólki sem býr yfir menntun, reynslu og þjálfun í að veita öðrum handleiðslu. Heimasíða Handís er www.handleidsla.is.

Handleiðslufræði eiga rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Fyrsta bókin um handleiðslu, bók Mary Ricmond, Social Diagnosis , kom út árið 1917 en þá voru önnur hugtök notuð yfir handleiðslu. Á Norðurlöndum var þróunin ör í handleiðslufræðum og þar er í dag víða skipulegt handleiðslukerfi innbyggt í stjórnun viðurkenndra meðferðarstofnana.

Handleiðsla hefur verið skilgreind sem aðferð til að þess að efla fagmennsku, vernda fagmanninn og tryggja gæði þjónustunnar. Handleiðsla nýtist því vel í tengslum við dagleg störf fagfólks, þar sem miklar kröfur eru gerðar til sérfræðiþekkingar og starfsleikni, þar sem viðfangsefni og skjólstæðingar eru krefjandi og úrræði takmörkuð.

Hvers vegna sækir fólk handleiðslu?

Handleiðsla er yfir 100 ára gamalt fyrirbæri en hvaða erindi á hún til okkar í dag?

Í nútímasamfélagi er mikið rætt um streitu og kulnun í starfi og lífi. Hægt er að skilgreina vinnustreitu sem skaðleg líkamleg og tilfinningaleg viðbrögð starfsmanns við miklu vinnuálagi, sem getur leitt til andlegs og líkamlegs heilsubrests ef hún er langvarandi. Kulnun er afleiðing langvarandi vinnustreitu og einkennist af m.a. algerri örmögnun, áhugaleysi og minnkaðri starfsgetu. Handleiðsla er leið til að sporna við streitu og kulnun en í leiðinni tækifæri til að efla fagvitund fagmannsins og eigin áhrifamátt. Handleiðslu er hægt að nota til að byggja upp góð starfsskilyrði og jákvæða vinnustaðamenningu og í því samhengi er handleiðsla forvörn gegn kulnun í stað þess að vera viðbragð við starfsþreytu og leiða.

Oft er rætt um að starfsfólk í umönnunarstörfum sé útsett fyrir vinnustreitu og annars stigs áföllum. Ástæðurnar geta verið tengslin við skjólstæðingana, miklar kröfur til starfsfólks, fáliðaður starfshópur, óljósar væntingar um starfshlutverk og takmarkað fjármagn til þjónustu.

Fundist hafa tengsl á milli stuðnings á vinnustað og starfsánægju ásamt því að stuðningur á vinnustað dregur úr líkum á streitu.

Handleiðsla byggist á ákveðnum samningi milli tveggja aðila um að samþætta fræðilega þekkingu, faglegt vinnulag og persónulega eiginleika. Áherslan er á lærdóms- og þroskaferli fagmannsins og að aðgreina fagsjálf og einkasjálf. Kostir þess að veita handleiðslu eru að hún getur verið stjórntæki til þróunar í starfi, aukið upplýsingaflæði og dregið úr streitu í starfi. Markmið handleiðslunnar er að hæfileikar hins handleidda njóti sín til fulls í starfi. Fagímynd allra hjálparstétta byggist m.a. á hæfni til að ná sambandi við skjólstæðinginn og gerir kröfur til persónulegs hugrekkis auk faglegrar færni. Handleiðsla er þannig aðferð til þess að efla fagmennsku, vernda fagmanninn og tryggja gæði þjónustunnar.

Því er óhætt að segja að vel skipulögð handleiðsla, sem bæði er fagstuðningur og tilfinningalegur stuðningur tengdur starfinu, stuðli að betri líðan starfsfólks, betri þjónustu og hagstæðari útkomu fyrir bæði starfsfólk og þjónustuþega.

Þann 23. júní 2022, á sjálfan afmælisdaginn, mun Handleiðslufélag Íslands halda afmælisráðstefnu sem frestað hefur verið ítrekað vegna heimsfaraldurs. Aðalfyrirlesarar eru Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðumaður Streiturannsóknarstofnunar í Gautaborg og Miriam Ullrich, frá stjórn Evrópusamtaka handleiðara. Þá verður Gerian Dijkhuizen, fulltrúi landssamtaka handleiðara og markþjálfa í Hollandi (LVSC), með vinnustofu. Skráning og frekari upplýsingar eru á heimasíðu félagsins www.handleidsla.is og á facebook-síðunni Handís.

Höfundur er formaður Handís.