Ómar G. Jónsson
Ómar G. Jónsson
Eftir Ómar G. Jónsson: "Samkvæmt annálum var Þingvallavatn ísilagt 1752-53 frá jólaföstu og fram á 5. viku sumars."

Þeir sem þekkja til á svæðinu umhverfis Þingvallavatn vita hversu snjóþungt getur verið þar og tíðar frostnætur langt fram á vor og gróður því lengur að ná sér á strik við slíkar aðstæður en neðar á vatnasvæðinu.

Samkvæmt annálum var Þingvallavatn ísilagt 1752-53 frá jólaföstu og fram á 5. viku sumars, en algengt var fyrrum að vatnið legði um áramótin og væri ísilagt fram í maí.

Þetta hefur breyst í seinni tíð, ef vatnið leggur í dag þá er það yfirleitt ísskæni víða um vatnið sem engu heldur og því ætti enginn að fara um ísinn á vatninu þótt frostakafla geri á veturna.

Aftur á móti getur veðurblíða verið mikil á svæðinu á góðum vor- og sumardögum og gróður og heyfengur þá góður og voru bændur þá gjarnan aflögufærir til þeirra sem minna höfðu t.d. vegna kalskemmda í túnum.

Eftir köld vor gat aftur á móti verið minna um heyfeng og því þurfti stundum að bregðast við því með aðstoð á milli bæja ef voraði seint vorið eftir með heyflutningum á sleðum eða með öðrum hætti.

Við nefndar aðstæður í maí vorið 1949, þegar snjór lá yfir öllu Þingvallasvæðinu og vatnið ísilagt, nýttu leikkonurnar, þá eigendur Nesja, Gunnþórunn og Guðrún, sem og Jónas Jónasson, kaupmaður og síðan einnig bóndi á Nesjum, sér tæknina og létu fljúga með hey austur hinn 5. maí.

Vél frá Loftleiðum, Helgafellið, flaug þá að Nesjum með hey frá Reykjavíkurflugvelli og kom vélin svífandi með miklum vélagný yfir Hátind með sveig yfir Krumma og renndi sér síðan í lágflugi yfir Nesjahraunið og út Nesjavíkina og varpaði áhöfnin samsíða úttroðnum heybölum úr vélinni sem í voru jafnframt mjölpokar og fleira og náðu heybalarnir allt út fyrir Klumbu utan Nesjavíkur.

Jóhann Jónsson, nú bóndi í Mjóanesi, þá vinnumaður á Nesjum, tíndi síðan saman heybalana með hestasleða og var heyfarmurinn vel þeginn sem viðbótarhey til gjafa.

Hinn 28. maí sama vor fór Jóhann ásamt föður sínum með tvo hesta að sækja sendingu/vistir sem komið höfðu með snjóbíl að Nesjavöllum.

Í bakaleiðinni skall á norðanbylur og áttu þeir fullt í fangi með að rata heim að Nesjum, urðu að þræða sig áfram í kófinu með Skógarhlíðinni.

Svo mikill var veðurhamurinn að heiðlóa fauk á Jóhann, hún réð ekkert við flugið í veðurofsanum.

Hann minnist þess jafnframt að hafa verið að slóðadraga túnin á Nesjum 17. júní þá um vorið/sumarið og þá voru skaflar enn í lægðum á túnunum og frost á næturnar svo vorfuglinn hnipraði sig saman með angurvæli í kuldanum og styggir refir sóttu í lömb á túnum við bæi.

Viku seinna gerði góða tíð og í framhaldi af því ágætt sumar.

Ég minnist þess að hafa farið fyrir Jónas á Nesjum ásamt félaga mínum gangandi á ís út í Nesey í byrjun maí eitt frostavorið til að kanna með aðstæður í eynni.

Þá var reyndar komin vök í ísinn milli lands og eyja sem við reyndum að fara fjarri, því grængolandi djúpið við sprungur og vakir í ís á Þingvallavatni er ekki árennilegt til nærveru, það hafa margir fengið að reyna gegnum aldirnar.

Refaskytturnar og óðalsbændurnir Jón á Nesjavöllum og Þorvaldur á Bíldsfelli sögðu að það hefði verið mikil bylting þegar Álafossúlpurnar komu til sögunnar þegar þeir lágu á grenjum snemma á vorin og þá oft í hörkufrosti um nætur, jafnvel fram í júní, og því oft kaldsamt að eiga við slóttuga dýrbíta, stundum jafnvel með viku yfirlegu á sama greninu.

En víðar voru köld vor og harðir vetur um landið.

Sigurður Jónsson afi, þá drengur á Núpi í Berufirði, síðar hreppstjóri, oddviti og fræðimaður á Torfastöðum í Grafningi til fjölda ára, fékk einnig að kynnast köldum vetrum og vorum eystra, t.d. þegar tveir ísbirnir börðu hrömmum sínum í gaflinn á baðstofunni á Núpi veturinn 1882, en þá lá ís með öllum Austfjörðum.

Faðir hans var þá úti við gegningar og hafði lokað féð inni vegna frosthörku.

Hann hafði verið með síld í fötu til gjafa og skilið fötuna eftir á milli fjárhúsa og bæjar með smá síld í þegar hann fór til annarra húsa ofar í túninu og vakti fatan áhuga ísbjarnanna sem gerði það að verkum að hann slapp heim á bæ og þar með undan björnunum.

Þegar birnirnir höfðu nært sig á síldinni ráfuðu þeir til fjárhúsanna og síðan að næstu bæjum utar í firðinum og börðu hrömmum sínum þar á bæi og útihús.

Þá hafði boðum verið komið á milli bæja í firðinum með vissum táknum og bændur hraðað sér við að hýsa bústofna og skálka aftur húsin.

Daginn eftir voru birnirnir felldir innst í firðinum af ráðsmanni prestsins og munu þeir þá hafa fellt kind og étið.

Faðir afa lenti jafnframt í svokölluðum Knútsbyl 1883 og varð að hafast við í skjóli með fjárhóp í tvo til þrjá sólarhringa vegna veðurofsans.

Í svipuðu veðri veturinn 1884 strandaði frönsk skúta á svæðinu og varð mannbjörg þar með aðstoð heimamanna á 18 skipbrotsmönnum.

Þeim var síðan komið til skips í nærleggjandi firði nokkru síðar og voru heimamenn því fegnir eftir giftusamlega björgun.

Þannig að ýmislegt hefur gerst á köldum vetrum/vorum hér syðra sem víðar.

Í lokin, þá hef ég haft áhuga á að koma upp sögusetri með heimildum/munum af vatnasvæðinu við Þingvallavatn og Sog, heimildum sem ella er hætt við að falli í gleymsku fyrir komandi kynslóðir.

Höfundur er fulltrúi og talsmaður ÞVS söguseturs.