England Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Elín Metta Jensen eru í 23 manna hópnum sem valinn var fyrir Evrópumótið í sumar.
England Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Elín Metta Jensen eru í 23 manna hópnum sem valinn var fyrir Evrópumótið í sumar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2022 Víðir Sigurðsson vs@mbl.

EM 2022

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Elín Metta Jensen kræktu í tvö síðustu sætin í 23 manna EM-hópi Þorsteins Halldórssonar sem landsliðsþjálfarinn tilkynnti á laugardaginn, miðað við hvernig liði Þorsteinn hefur teflt fram á undanförnum mánuðum.

Áslaug Munda hefur ekki spilað landsleik síðan í júní 2021 og því ekki komið við sögu í síðustu ellefu leikjum íslenska liðsins.

Elín Metta spilaði sinn fyrsta og eina leik frá því í júní 2021 þegar Ísland vann Tékkland í síðasta leik liðsins, í undankeppni HM í apríl.

Fjórir leikmenn sem hafa spilað tvo til þrjá leiki hver af síðustu sjö leikjum Íslands þurfa hinsvegar að sitja heima. Það eru Ásta Eir Árnadóttir, Karitas Tómasdóttir, Natasha Anasi og Ída Marín Hermannsdóttir.

Þá fær Hlín Eiríksdóttir ekki tækifæri. Hún missti af nær öllu síðasta ári með landsliðinu og hefur ekki verið valin í ár en hefur náð sér vel á strik á ný með Piteå í sænsku úrvalsdeildinni.

Þær Hlín og Ída Marín eru hinsvegar í U23 ára liðinu sem valið var í gær fyrir vináttuleik gegn A-landsliði Eistlands 24. júní en þann hóp má sjá á mbl.is/sport/fotbolti.

EM-farar Íslands eru eftirtaldir:

Markverðir: Sandra Sigurðardóttir (Val), Cecilía Rán Rúnarsdóttir (Bayern), Telma Ívarsdóttir (Breiðabliki).

Varnarmenn: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Breiðabliki), Elísa Viðarsdóttir (Val), Glódís Perla Viggósdóttir (Bayern), Guðný Árnadóttir (AC Milan), Guðrún Arnardóttir (Rosengård), Hallbera Guðný Gísladóttir (Kalmar), Ingibjörg Sigurðardóttir (Vålerenga), Sif Atladóttir (Selfossi).

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir (Breiðabliki), Dagný Brynjarsdóttir (West Ham), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Orlando Pride), Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Bayern), Sara Björk Gunnarsdóttir (Lyon), Selma Sól Magnúsdóttir (Rosenborg).

Sóknarmenn: Agla María Albertsdóttir (Häcken), Amanda Andradóttir (Kristianstad), Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Brann), Elín Metta Jensen (Val), Svava Rós Guðmundsdóttir (Brann), Sveindís Jane Jónsdóttir (Kristianstad).