Jónína Hulda Ásmundsdóttir fæddist 20. mars 1942. Hún lést 21. maí 2022.

Útför Jónínu fór fram 31. maí 2022.

Jónína 35 ára tveggja barna móðir, við um tvítugt, þegar við hittumst fyrst haustið 1977 í Fósturskóla Íslands.

Strax á fyrsta ári kynntumst við vel í gegnum hópa- og verkefnavinnu og allar götur síðan höfum við haldið góðu sambandi. Þegar þessi orð eru skrifuð rifjast upp ferð í Þrastaskóg til að vinna verkefni. Lítið varð um skrif fyrr en rétt áður en lagt var af stað heim sökum gleði og fíflagangs. Á gulnuðum myndum frá þessari ferð sjáum við að vinátta og væntumþykja einkenndi hópinn alla tíð. Nína kallaði okkur „fíflahópinn“, þar sem við tókum okkur ekki mjög alvarlega og höfðum gaman af náminu og félagsskap hver annarrar.

Nína var höfðingi heim að sækja og nutum við þess oft ásamt bekkjarsystrum okkar enda var hún snillingur í eldhúsinu.

Þegar börnin okkar fæddust kom Nína færandi hendi með eitthvað úr prjónakistunni sinni. Hún spurði alltaf um fjölskyldur okkar og hafði einlægan áhuga á að vita hvernig þeim vegnaði. Var það einnig í síðustu heimsókn okkar til hennar þegar hún var orðin mikið veik. Þetta lýsir væntumþykju hennar í okkar garð.

Á kveðjustund eru það hlýjar, skemmtilegar og góðar minningar sem við eigum um kæra vinkonu.

Við vottum fjölskyldu hennar dýpstu samúð.

Regína, Hildur og

Aðalheiður (Addý).

Fallin er frá góð vinkona okkar Jónína Ásmundsdóttir. Við kynntumst Nínu, eins og hún var alltaf kölluð, þegar við hjónin komum heim úr námi frá Danmörku haustið 1993 og fluttum inn á jarðhæðina í Geitlandi 4. Þá var Helga að verða þriggja ára og Hildur rétt ókomin í heiminn. Strax var ljóst að við höfðum ekki einungis eignast úrvals íbúð heldur einstaklega góða nágranna, þau Nínu og Garðar. Helgu þótti gott að skreppa yfir ganginn að heimsækja þau og dvaldi hún þar löngum stundum. Barnabörn þeirra komu líka oft í heimsókn í Geitlandið og varð þeim og Helgu strax vel til vina.

Rúmum mánuði eftir að við fluttum í Geitlandið kom Hildur í heiminn. Nína var um leið búin að prjóna á hana fallega Nínu-húfu og þegar sú húfa varð of lítil prjónaði hún nýja og stærri húfu sömu gerðar sem var í miklu uppáhaldi. Nína var leikskólakennari en á þessum tíma var hún að vinna heima. Var það mikil gæfa fyrir fjölskylduna því þegar Hildur var nokkurra mánaða gömul og fæðingarorlofi lokið bauðst Nína til að passa hana þar til leikskólapláss fengist. Nína hafði einstakt lag á börnum og það var greinilegt að hún fylgdist áfram með þeim sem hún hafði passað fram á fullorðinsár.

Nína stóð eins og klettur með Garðari í erfiðum veikindum hans og gaf alla sína krafta í það verkefni. Þegar hún var orðin ein ákvað hún að flytja í íbúð sem þau hjónin áttu á Öldugötu. Það var ánægjulegt að heimsækja hana þangað og síðar í Seljahverfið.

Þótt við byggjum einungis í þrjú ár í Geitlandinu hélst vináttan alla tíð og hittumst við gjarnan á aðventunni og þegar fjölskyldan okkar kom saman til að fagna áföngum barnanna og stórafmælum. Kata og Kalli kynntust þannig Nínu vel þótt þau ættu ekki minningar úr Fossvoginum og fylgdist Nína með öllum börnunum fjórum.

Við þökkum Nínu fyrir samfylgdina, vináttuna og umhyggjuna sem hún hefur sýnt okkur og fjölskyldunni frá fyrstu kynnum. Aðstandendum hennar vottum við okkar innilegustu samúð.

Ólafur Pétur, Ragnheiður, Helga, Hildur, Katrín (Kata) og Karl (Kalli).