Sigurgleði Leikmenn 21-árs landsliðsins fagna eftir sigurinn á Kýpur þegar ljóst var að þeir væru komnir í umspil.
Sigurgleði Leikmenn 21-árs landsliðsins fagna eftir sigurinn á Kýpur þegar ljóst var að þeir væru komnir í umspil. — Morgunblaðið/Kristvin
U21 Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Magnaður endasprettur hjá U21-árs landsliði karla í fótbolta í undankeppni Evrópumótsins náði hámarki á laugardagskvöldið.

U21

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Magnaður endasprettur hjá U21-árs landsliði karla í fótbolta í undankeppni Evrópumótsins náði hámarki á laugardagskvöldið. Íslensku strákarnir unnu þá stórsigur gegn Kýpur á Víkingsvellinum, 5:0, og þar sem Portúgal vann Grikkland 2:1 á sama tíma náði Ísland öðru sæti riðilsins og leikur tvo umspilsleiki í haust um sæti í lokakeppninni.

Íslenska liðið var í fjórða sæti af sex liðum þegar keppnin var hálfnuð um áramót. Þeir gerðu síðan jafntefli gegn Portúgal og Kýpur á útivöllum í mars og sigruðu Liechtenstein, Hvíta-Rússland og Kýpur með samanlagðri markatölu 17:1 í leikjunum þremur á Víkingsvellinum nú í júnímánuði.

Átta þjóðir leika í umspilinu en eitt lið í öðru sæti kemst beint á EM. Það skýrist á þriðjudag hvort það verður Noregur, Króatía, Ítalía, Írland, Sviss eða Danmörk sem fær það sæti.

Þar ræðst einnig hvort Noregur eða Króatía vinnur A-riðil, og hvort Ítalía eða Írland vinnur B-riðil. Sigurvegarar riðlanna níu fara beint á EM og þegar er ljóst að þar verða Þýskaland, Spánn, Portúgal, Holland, England, Frakkland og Belgía ásamt gestgjöfum Rúmeníu og Georgíu.

Dregið 21. júní

Í umspilinu verða Ísland, Ísrael, Slóvakía, Tékkland og Úkraína, og síðan þrjár þessara þjóða: Noregur, Króatía, Ítalía, Írland, Sviss og Danmörk.

Dregið verður í umspilið þriðjudaginn 21. júní og íslenska liðið mun leika þar tvo leiki í haust, heima og heiman. Þann 18. október verður síðan dregið í riðla fyrir lokakeppnina sem haldin verður í Rúmeníu og Georgíu sumarið 2023.

Sigurinn gegn Kýpur var afar sannfærandi en það voru Kýpurbúar sem opnuðu leiðina fyrir Ísland með óvæntum 3:0 sigri á Grikkjum á dögunum. Kristall Máni Ingason skoraði á 10. mínútu og Kýpurbúar skoruðu sjálfsmark á 32. mínútu, 2:0 í hálfleik. Kristall Máni á 57. og Sævar Atli Magnússon á 65. mínútu komu Íslandi í 4:0 og á sama tíma komst Portúgal í 2:0 gegn Grikklandi.

Í uppbótartíma skoraði svo Kristian Nökkvi Hlynsson, 5:0, og um leið minnkuðu Grikkir muninn gegn Portúgölum án þess að það kæmi að sök. Íslensku strákarnir gátu því fagnað sæti í umspilinu ásamt fjölda áhorfenda á Víkingsvellinum.