Fyrsta verk Sameinaðra verktaka fólst í byggingu hverfis með bráðabirgðaskálum fyrir varnarliðsmenn og þúsundir íslenskra og bandarískra verkamanna sem unnu að byggingu varnarstöðvarinnar á sjötta áratugnum.
Fyrsta verk Sameinaðra verktaka fólst í byggingu hverfis með bráðabirgðaskálum fyrir varnarliðsmenn og þúsundir íslenskra og bandarískra verkamanna sem unnu að byggingu varnarstöðvarinnar á sjötta áratugnum. — Ljósmynd/Einkasafn Friðþórs Eydals
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Í bókinni Saga Keflavíkur 1949-1994 rekur sagnfræðingurinn Árni Daníel Júlíusson það hve saga Keflavíkur er ólík sögu annarra sveitarfélaga á Íslandi á sama tímabili.

Bókarkafli | Í bókinni Saga Keflavíkur 1949-1994 rekur sagnfræðingurinn Árni Daníel Júlíusson það hve saga Keflavíkur er ólík sögu annarra sveitarfélaga á Íslandi á sama tímabili. Nálægð bæjarins við herstöðina og samskipti við bandaríska herinn settu mark sitt á þróun atvinnulífs og menningar í bænum.

Framkvæmdir hefjast

Bandaríkjamenn komu að herstöð sem var vanbúin til hlutverksins. Mörg af þeim mannvirkjum sem þar höfðu verið byggð í heimsstyrjöldinni 1939 til 1945 höfðu verið rifin. Ljóst var að þörf var á miklum framkvæmdum til að hýsa varnarliðið.

Af hálfu Íslendinga tóku Sameinaðir verktakar þátt í þessum framkvæmdum. Aðdragandinn að stofnun Sameinaðra verktaka var mjög stuttur. Fundur var boðaður 2. júlí 1951 að Borgartúni 7 um stofnun verktakafélags til framkvæmda af hálfu Íslendinga á Keflavíkurflugvelli. Hörður Bjarnason skipulagsstjóri boðaði til fundarins og á honum voru Anton Sigurðsson, formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur, Árni Snævarr verkfræðingur, Einar Kristjánsson trésmíðameistari, Guðmundur Halldórsson trésmíðameistari, Gústaf E. Pálsson, formaður Verkfræðingafélags Íslands, Jón Bergsteinsson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur, og Tómas Vigfússon, trésmíðameistari.

Á fundinum talaði skipulagsstjóri og sagði að erlend verktakafyrirtæki hefðu haft með höndum framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fram til þessa. Nú væri þess að vænta að ýmsar byggingaframkvæmdir stæðu fyrir dyrum þar syðra.

Íslensk stjórnvöld vildu að Íslendingar hefðu hönd í bagga með framkvæmdum og að þær yrðu á vegum íslenskra aðila ef unnt væri. Til stóð að skipulagsstjóri færi vestur um haf til að ræða málið og vildi hann fá mann með sér úr þeim hópi sem sótti fundinn. Leitað var til Gústafs A. Pálssonar til að fara vestur. Engir sósíalistar, en af þeim var talsvert í trésmiða- og múrarastétt, voru með í ráðum um stofnun Sameinaðra verktaka. Annar fundur var haldinn þann 8. ágúst til að undirbúa verktakasamband til að starfa á Keflavíkurflugvelli. Á hann voru boðaðir 23 iðnmeistarar og verkfræðingar, en athygli vekur að enginn þeirra var frá Suðurnesjum.

Í umboði, sem Gústaf E. Pálsson fékk frá hluthöfum Sameinaðra verktaka til að ganga frá fyrstu samningum við varnarliðið um framkvæmdir, var útlistað hvaða skuldbindingar undirritaðir höfðu undirgengist vegna stofnunar Sameinaðra verktaka. Hörður og Gústaf skiluðu íslenskum hagsmunaaðilum skýrslu eftir fundi í Washington með hernum og New York með þarlendum verkfræðingum. Á fundunum voru rædd hagnýt atriði í sambandi við byggingar á Keflavíkurflugvelli. Fram kom að betra væri að byggja steinsteypuhús eftir íslenskum venjum en bandarísk semipermanent hús eða bragga, sem hefðu reynst illa og verið dýr. Rætt var um að ganga ekki framhjá íslenskum verktökum, en bjóða verk út bæði í Bandaríkjunum og Íslandi.

Íslendingar sögðust geta útvegað 500 manns í vinnu þegar í stað. Lýst var yfir áhuga á að leggja hitaveitu á flugvöllinn frá Krýsuvík eða öðrum hentugum stað og voru Bandaríkjamenn hrifnir af því. Íslendingar nefndu að Keflavíkurbær myndi hafa áhuga á að vera með í framkvæmdinni. Stofnað var íslenskt verktakafyrirtæki fyrir atbeina íslenska utanríkisráðuneytisins, Sameinaðir verktakar, til að annast varnarliðsframkvæmdir sem undirverktaki hins bandaríska Hamilton-félags. Tíu Suðurnesjamenn gerðust aðilar þess fyrir milligöngu Karvels Ögmundssonar í Njarðvík. Karvel frétti af málinu því hann hafði milligöngu um að útvega Sameinuðum verktökum húsnæði á Vellinum fyrir starfsemina.

Engar heimildir hafa fundist um að fundir til undirbúnings Sameinaðra verktaka hafi verið auglýstir. Ekki fengu allir iðnaðarmenn sem vildu að ganga inn, fjárhagslegu (og mögulega pólitísku?) skilyrðin voru ströng. Þetta voru leynifundir, líkt því sem var um fleira sem hersetuna varðaði. SÍS kom inn í félagið 1953 en ekki í sátt við Sjálfstæðismennina sem stóðu að Sameinuðum verktökum. Hluthafar voru í fyrstu 43 talsins. Talan var orðin 193 árið 1955, en svo fækkaði aftur, var 150 1980 og 147 árið 1984. Gústaf E. Pálsson og Guðmundur Halldórsson trésmíðameistari sömdu um fyrstu framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli 22. ágúst 1951. Fyrsti samningur var upp á 11,3 milljónir íslenskra króna sem þótti mjög há upphæð. Guðmundur Einarsson, ungur verkfræðingur sem hafði lært og unnið í Bandaríkjunum, m.a. við að byggja skýjakljúfa, var ráðinn til Sameinaðra verktaka og varð svo framkvæmdastjóri þeirra til 1957.

Fljótlega var ljóst að umfang framkvæmdanna þýddi að það þyrfti að ráða að minnsta kosti þúsund manns í vinnu. Atvinnuleysi var á þessum tíma, t.d. 1.000 manns í Reykjavík einni í desember 1951.

Sameinaðir verktakar tóku á leigu hús sem Bandaríkjamenn höfðu byggt í Ytri-Njarðvík og Karvel Ögmundsson átti nú. Jafnframt voru verbúðir og félagsheimili í Njarðvík og Keflavík tekin á leigu. Dæmi voru um að Sameinaðir verktakar tækju á leigu ókláruð íbúðarhús í Keflavík og semdu um að klára þau fyrir eigendurna. Framkvæmdir höfðu oft stöðvast vegna fjárskorts og eigendur voru mjög ánægðir með að taka við fullkláruðum húsum að loknum leigutíma. Líka var reynt að fá nýja sjúkrahúsið í Keflavík leigt. Það stóð óklárað og framkvæmdir höfðu stöðvast vegna fjárskorts, en samningar tókust ekki. Sameinaðir verktakar gátu hins vegar leigt gamla barnaskólahúsið því starfsemi barnaskólans hafði verið flutt í glæsilegt skólahús á Sólvallagötu í ársbyrjun 1952. Bandaríkjamenn buðu 2.000 kr. fyrir tveggja herbergja íbúð á Suðurnesjum. Samkomuhúsin voru gerð að svefnskálum en mötuneyti fyrir 700 manns var útbúið í skálum Karvels. Hreinlæti var bágborið í svefnskálunum, fá klósett en notendur margir.

Við framkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli kynntust menn tækjanýjungum í uppsteypu húsa svo sem víbratorum, vélum til múrhúðunar og gólfslípivélum. Menn lærðu að nota krossvið í mótauppslátt í stað 1x6 tommu borða. Það lækkaði svo byggingakostnað hérlendis. En framan af var stórtap á rekstri Sameinaðra verktaka því menn vantaði gröfur og ýtur.

Þjóðviljinn birti í júní 1953 grein sem sýndi vel viðhorf andstæðinga hersetunnar til þeirra umsvifa sem þá voru á Keflavíkurflugvelli. Blaðið benti á að á Keflavíkurflugvelli væri verið að byggja íbúðir handa „herraþjóðarmönnum“ í þúsundatali. Í Morgunblaðinu hefði verið greint frá því að byggja ætti nokkur stórhýsi á vellinum. Á sama tíma og Íslendingar búi í „alls konar skúrum og hjöllum svo hundruðum skiptir í Reykjavík einni saman, og útburðar er krafist á innfæddum Reykvíkingum, hafa hundruð byggingariðnaðarmanna verið hrakin suður á Keflavíkurflugvöll til að byggja á þessa sumri 28 þriggja hæða blokkir – sem hver um sig er um 760 fermetrar að grunnfleti – eða byggingar sem samsvara samtals rúmum 800 smáíbúðum.“

Um 500 starfsmönnum var sagt upp í desember 1953. Ástæðan var slæm verkefnastaða. Starfsmenn töldu hins vegar að nú þyrfti fólk á flotann um vertíðina. Árin 1951 til 1952 komu flestir verkamenn frá Suðurnesjum og öðrum stöðum sem bjuggu við atvinnuleysi: Reykjavík, Vestfjörðum, Ólafsfirði og Siglufirði. Hagstæðast var þó vitanlega að ráða fólk frá Suðurnesjum því ekki þurfti að útvega því húsnæði. [...]

Maturinn hjá Hamilton og annar sambúðarvandi

Um sumarið 1953 var tekið fyrir áfengisflutninga frá Keflavíkurflugvelli. Bandarískir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, aðrir en hermenn varnarliðsins, höfðu áður haft leyfi til að taka eina átekna flösku með þegar farið var út af flugvellinum. Að sögn hafði verið haft strangt eftirlit með þessu og starfsmönnum vikið úr starfi við annað brot. Um svipað leyti varð „uppistand út af vopnuðum Bandaríkjamanni á götunum í Keflavík“, eins og Þjóðviljinn orðaði það. „Seint á laugardagskvöldi stöðvaði Bandaríkjamaður bíl sinn á götu Keflavíkur og spókaði sig fyrir utan hann. Vegfarendur bentu manngarminum á að hann mætti ekki ganga vopnaður niðri í Keflavík, en vitanlega hafði hann það að engu. Var þá hringt til íslenzku lögreglunnar á flugvellinum, sem kom og mun hafa skilað þeim bandaríska stríðsmannsgarmi heim í herstöðvarnar á vellinum.“

Þjóðviljinn birti snemma í ágúst frétt um mat þann, sem íslensku (og bandarísku) starfsfólki Hamilton-félagsins var boðið upp á. Þrálát matareitrun hafði gert vart við sig í mötuneytinu og sagt var að þar væri boðið upp á gamlan mat, niðursuðuvörur og frystar vörur úr gömlum birgðum bandaríska hersins. Jafnvel hefðu þar sést egg sem stimpluð voru árið 1942.

Morgunblaðið birti tveimur dögum eftir frétt Þjóðviljans um matinn á Vellinum frétt um að starfsfólk Hamilton á Keflavíkurflugvelli kvartaði yfir of miklu kjöti og kryddi. Boðið var upp á kjöt frá Bandaríkjunum, sem var flutt inn frosið, að sögn Morgunblaðsins . Hvergi var þó minnst á frétt Þjóðviljans í þessu sambandi.

Frétt kom í Morgunblaðinu í nóvember um kvartanir vegna launagreiðslna á Keflavíkurflugvelli. Undanfarið hefði gætt mikillar óánægju meðal verkafólks, sem ynni hjá amerískum verktökum á Keflavíkurflugvelli, út af kaupgreiðslum. Samkvæmt upplýsingum verkfræðingadeildar hersins hefðu alls 922 kvartanir borist. Af þeim hefði náðst samkomulag um 637 en 141 verið vísað frá. 114 kvartanir biðu afgreiðslu meðan verið væri að afla nauðsynlegra gagna og 30 voru í athugun af ýmsum ástæðum. Til þess að ráða bót á þessu ástandi og til þess að flýta fyrir afgreiðslu þessara mála, svo og til þess að reyna að koma í veg fyrir að árekstrar af þessu tagi ættu sér stað, hafði ráðuneytið tilnefnt til bráðabirgða íslenska menn til þess að rannsaka allar kvartanir, sem ekki fengust afgreiddar þegar í stað, og vinna að lausn þeirra. Verkfræðingadeild hersins hafði að sögn brugðist vel við og gert það mögulegt að menn þessir gætu þegar tekið til starfa. Einnig hefðu aðrir aðilar lofað allri aðstoð, samkvæmt fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Enn voru fréttir um launagreiðslur á Keflavíkurflugvelli seinna í mánuðinum, nú frá félagsmálaráðuneytinu. Út af endurteknum staðhæfingum Guðmundar Í. Guðmundssonar alþingismanns hafði félagsmálaráðuneytið aflað álits hjá Jónasi Guðmundssyni sem veitti ráðuneytinu forstöðu þegar mistök áttu sér stað. Fram kemur í álitsgerð Jónasar Guðmundssonar að framkvæmdir sem kröfðust íslensks vinnuafls að ráði hafi ekki hafist fyrr en eftir áramót 1952. Fram að því hafi flugvallarstjóri ríkisins eða fulltrúi hans á Keflavíkurflugvelli haft það hlutverk að segja til um hvað skyldi vera kaupgjald Íslendinga, alveg til 8. október 1952. Varnarmálanefnd hafi tekið til starfa í apríl 1952, en flugvallarstjórinn var einn af þremur nefndarmönnum. Varnarmálanefnd hafði tekið mjög illa upp þegar félagsmálaráðuneytið, „fyrir þrábeiðni fyrirsvarsmanna varnarliðsins“, fór að gera tilraunir til að leiðrétta launagreiðslur til íslenskra starfsmanna. Samkomulag var gert þann 10. október um að félagsmálaráðuneytið myndi í samráði við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands ákveða hver skyldu vera kjör á Vellinum. Þó var eftir að fá skriflegt samþykki Varnarmálanefndar, sem Hans G. Andersen veitti formennsku, en það kom aldrei. Guðmundur Í. Guðmundsson gerði athugasemd við skýrsluna, sem birtist í Morgunblaðinu .

Óhætt er að segja að koma hersins hafi valdið mikilli þenslu í efnahagslífi Keflavíkur. Fjöldi manna úr bænum fékk atvinnu hjá hernum, húsnæðisverð fór mjög hækkandi og byggingaframkvæmdir stórjukust, bæði á Vellinum og í Keflavík.