Þjóðadeild Marki Jóns Dags Þorsteinssonar gegn Albaníu fagnað.
Þjóðadeild Marki Jóns Dags Þorsteinssonar gegn Albaníu fagnað. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Seinni heimaleikur Íslands í Þjóðadeild UEFA í fótbolta fer fram í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið mætir Ísrael á Laugardalsvellinum klukkan 18.45.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Seinni heimaleikur Íslands í Þjóðadeild UEFA í fótbolta fer fram í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið mætir Ísrael á Laugardalsvellinum klukkan 18.45.

Eftir sigur Ísraelsmanna gegn Albönum á útivelli á föstudagskvöldið er ljóst að Ísland verður að vinna þennan leik til að eiga sigurmöguleika í riðlinum þar sem Ísrael stendur nú best að vígi til að vinna sér sæti í A-deildinni.

Ísrael er með fjögur stig, Ísland tvö og Albanía eitt þegar riðillinn er hálfnaður en eftir þennan leik verða aðeins tveir leikir eftir í haust, þegar Albanir leika við Ísland á heimavelli og Ísrael á útivelli.

Útlit er fyrir að Arnar Þór Viðarsson stilli upp sama eða nánast sama byrjunarliði og í jafnteflisleiknum gegn Albaníu síðasta mánudag. Birkir Bjarnason, Hörður Björgvin Magnússon og Alfons Sampsted koma allir inn í hópinn á ný en enginn þeirra sem hófu leikinn gegn Albaníu, nema Andri Lucas Guðjohnsen, kom við sögu í vináttuleiknum umtalaða í San Marínó á fimmtudagskvöldið.

Hákon Arnar Haraldsson og Albert Guðmundsson virðast einna líklegastir til að geta komið inn í byrjunarliðið.

Aron og Mikael tæpir

Arnar skýrði frá því á fréttamannafundi í gær að Aron Elís Þrándarson og Mikael Anderson væru tæpir vegna meiðsla en staða þeirra kæmi í ljós í dag. Aron var fyrirliði Íslands í San Marínó og skoraði sigurmarkið. Hans hlutverk hefur fyrst og fremst verið að vera til taks fyrir Birki Bjarnason sem aftasti maður á miðjunni. Mikael lék allan leikinn í San Marínó og var óheppinn að skora ekki í fyrri hálfleiknum þegar hann fékk tvö góð marktækifæri.

Þá verður Ingvar Jónsson markvörður ekki í hópnum í kvöld. Hann meiddist í upphitun í San Marínó og Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður 21-árs landsliðsins, kemur inn í A-hópinn í hans stað.