Ragnar G. Kvaran flugstjóri fæddist í Reykjavík 11. júlí 1927. Hann lést 1. júní 2022 á Hrafnistu í Laugarási.

Foreldrar hans voru Gunnar E. Kvaran stórkaupmaður, f. 11.11. 1895, d. 17.6. 1975, og Guðmunda Guðmundsdóttir, f. 28.12. 1986, d. 11.12. 1953. Systkini Ragnars voru Einar, f. 31.10. 1924, d. 15.8. 1985, Ragnhildur, f. 24.4. 1931, d. 18.11. 2014, og Gunnar Gísli, f. 4.3. 1937.

Ragnar kvæntist í desember 1948 Hrefnu Lárusdóttur, f. 3.4. 1929, d. 29.9. 2014. Börn þeirra: 1) Ragnar flugstjóri, f. 14.8. 1947, d. 8.2. 2009, kvæntur Ólöfu Björgu Björnsdóttur, f. 23.9. 1949. Dætur þeirra eru Kolbrún Tinna, Hrafnhildur og Bergljót Inga. 2) Lárus Hrafn flugmaður, f. 8.3. 1951, d. 5.6. 2010. Fyrri kona hans var Mai Vongnu, f. 14.4. 1952. Barn þeirra Anna Sugila. Síðari kona Lárusar var Gittý (Zohren Aletaka), f. 26.3. 1960. Börn þeirra eru Einar Artin og Talla Björk. 3) Anna Ragnhildur, f. 25.7. 1956. Börn hennar eru Hrefna, Hanna Kristín, Gaston Ragnar, Jasmine Marcelle og Íris Victoria.

Ragnar ólst upp í Þingholtunum í Reykjavík, lengst af á Smáragötu 6. Hann gekk í Ísaksskóla, Austurbæjar- og Miðbæjarskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Úr menntaskóla lá leiðin í flugið, sem eftir það átti hug hans allan. Hann lauk atvinnuflugmannsnámi og námi í loftsiglingafræði í Southampton á Englandi 1949. Fór síðan á vegum Flugmálastjórnar Íslands í flugumsjónarnám til New York 1950 og starfaði sem flugumsjónarmaður á Keflavíkurflugvelli til 1953. Réð sig til Flugfélags Íslands 1954 og þar með hófst atvinnuflugmannsferill hans hjá ýmsum flugfélögum víða um heim. Lengst af hjá Cargolux í Lúxemborg þar sem hann var flugstjóri og yfirflugstjóri þar til hann lét af störfum 1992, þá 65 ára.

Ragnar stundaði alla ævi ýmsar íþróttir og var mikill áhugamaður um sagnfræði og ljóðlist. Eftir hann liggur ljóðabókin Úr Quarantínu sem út kom árið 1995.

Útförin verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 13. júní 2022, klukkan 13.

Nú þegar Ragnar bróðir minn er látinn koma margar minningar upp í hugann, ekki síst tengdar alls konar hreyfingu.

Árið 1950 festi Ragnar kaup á sjóskíðum ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum við flugumsjón á Keflavíkurflugvelli, þar sem hann vann þá. Þegar farið var að prófa þau á Þingvallavatni fékk ég 14 ára strákurinn að fara með. Þá voru ekki þurr- eða blautbúningar sem notaðir eru af flestum í dag heldur var farið í ullarpeysu og ullarsokka til að forðast kuldann. En allt gekk þetta vel og síðan hafa sjóskíði verið í notkun í minni fjölskyldu. Ekki löngu seinna fékk hann mig með sér til að stunda badminton sem við gerðum í ein 2-3 ár.

Árið 1961, að mig minnir, hringdi Ragnar í mig og spurði hvort ég væri til í að fara með honum um verslunarmannahelgina á skíði upp í Kerlingarfjöll. Ég sló til og við fórum á gamla Benzinum hans, sem komst yfir allar óbrúuðu árnar. Þegar þangað var komið var þar einungis Eiríkur Haraldsson Kerlingarfjallamaður í gamla Ferðafélagsskálanum. Hann setti traktorinn uppi í Bringum í gang fyrir okkur og skemmtum við okkur við skíðaiðkun alla helgina. Síðan hef ég verið viðloðandi Kerlingarfjöllin og stundað skíði ásamt Ragnari jafnt innanlands sem utan.

Í maí 1998 fórum við á gönguskíðum ásamt Halldóri syni mínum og tveimur öðrum frá Kverkfjallaskálanum og ætluðum við yfir Vatnajökul. Sökum veðurs urðum við að vera lengur í skálanum en til stóð. Við komumst þó af stað en þegar við vorum um það bil hálfnaðir skall veðrið á aftur og við urðum að tjalda. Við vorum þarna í eina 60 tíma áður en veðrinu slotaði. Við fórum þá strax af stað, en þegar við vorum komnir að rótum Grímsfjalls brast veðrið á aftur. Við ætluðum að tjalda í skyndi. Veðurofsinn var þá slíkur að við misstum annað tjaldið út í vindinn og urðum því allir fimm að troða okkur í það tjaldið sem ekki fauk. Við ákváðum að ýta á hnappinn á öryggissímanum í von um björgun. Þannig stóð þá á að þetta sama kvöld hafði bíl verið ekið fram af Grímsfjalli og þess vegna var björgunarsveitarbíll kominn til okkar það fljótt að það var eins og við hefðum verið að hringja í leigubíl.

Einnig fórum við bræðurnir víða saman í golf, bæði hérlendis og erlendis, og höfum við átt góðar samverustundir í því sem og öðru í gegnum tíðina.

Ragnar starfaði í mörg ár sem yfirflugstjóri hjá Cargolux auk þess að sjá um þjálfun flugmanna. Hann flaug um heim allan og lifði ævintýralegu lífi, m.a. flaug hann í Bíafrastríðinu þar sem skotið var á vélina.

Ég sendi Önnu og öðrum afkomendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar G. Kvaran.

Ragnar föðurbróðir (Aggi) var lengst af ævi minnar utan seilingar. Hann bjó ásamt fjölskyldu erlendis og því kynntist ég honum sáralítið fyrr en síðustu árin eftir að hann flutti heim og Hrefna kona hans var fallin frá. Á uppvaxtarárum mínum vörpuðu sögur úr fluginu ævintýraljóma á þennan fjarstadda frænda. Sú mynd sem ég hafði í kollinum var af flugstjóranum sem flaug um allar heimsins álfur, með pílagríma frá Naíróbí til Jeddah og tók þátt í að mynda loftbrú með hjálpargögn og matvæli til Bíafra sem þá háði sjálfstæðisstríð. Aðstæður voru oft skuggalegar og iðulega teflt á tæpasta vað þegar sprengjum var varpað á flugbrautir og skotin dundu á vélunum. En alltaf slapp Aggi og líka þegar hann stundaði ferjuflug á minni vélum milli Bandaríkjanna og Íslands þar sem hreyflar áttu það til að drepa á sér þegar minnst varði. Hann var góður penni og mikill húmoristi og endurminningar sem hann skráði frá flugmannsárunum eru stórskemmtilegur texti sem afkomendur hans geta lesið í handriti sem því miður var aldrei gefið út.

Aggi gat tekið upp á ýmsu og ég minnist þess þegar við Lárus sonur hans vorum í sveit á Lýtingsstöðum í Holtum að einn sólríkan dag fylltist loftið af ærandi hávaða svo hús í sveitinni nötruðu. Hvað var í gangi? Jú, þá var Aggi að koma úr millilandaflugi á stórri farþegavél og tók lágflug yfir sveitina til að kíkja eftir hrossum sem hann var með þar í hagagöngu. Eftir smá stund dó hávaðinn út og vélin hvarf út í buskann en við tóku miklar hringingar og sveitasíminn logaði í líflegum umræðum lengi á eftir.

Sem flugstjóri hjá Loftleiðum, Cargolux og fleiri félögum dvaldi frændi oft löngum stundum á hótelum á milli ferða. Hann nýtti tímann til að grúska í hvers kyns fræðum auk þess að stunda sund, golf og aðrar íþróttir. Hann var alltaf með tvær bækur í flugtöskunni, Grimberg lexicon og Sturlungu. Íslendingasögurnar voru honum hugleiknar og hann hafði ákveðnar skoðanir á atburðum og persónum sem sögurnar lýstu. Hann var t.d. ekki í neinum vafa um að Barði Guðmundsson hefði rétt fyrir sér þegar hann færði rök fyrir því að Þorvarður Þórarinsson væri höfundur Njálu og að sagan byggðist að hluta til á atburðum úr lífi Þorvarðar. Allt þetta rakti Aggi og lánaði mér ritgerðir Barða sem eru áhugaverð lesning.

Síðustu árin hittumst við reglulega og áttum þá langar samræður um allt milli himins og jarðar. Ég vildi vita meira um uppvaxtarár þeirra systkina á Smáragötu og hann svaraði ljúflega öllu sem spurt var um. Við fórum einnig í Kópavogslaug tvisvar í viku og síðasta haust lét hann sig ekki muna um að synda kílómetra í hverri ferð þótt kominn væri á 95. aldursár. Frændi var ágætur hagyrðingur og gaf út ljóðabókina Quarantínu árið 1995 sem hann myndskreytti sjálfur. Síðustu vikurnar fyrir andlátið vorum við að undirbúa aukna og endurbætta útgáfu þeirrar bókar. Því miður náði hann ekki að njóta afraksturs þeirrar vinnu því bókin var enn í prentsmiðju þegar kallið kom. Við leiðarlok minnist ég þessa stórmerkilega frænda með þakklæti og virðingu um leið og ég sendi Önnu frænku og öðrum afkomendum hans samúðarkveðjur.

Gunnar E. Kvaran.

Fjölbýlishús, þar sem búa um 100 manns, er eins og lítið þorp þar sem íbúar eiga margt saman að sælda, formlega í húsfélagi og óformlega með meiri eða minni kynnum sín í milli. Sumir sjást oft, aðrir sjaldan. Sumir ala sinn aldur í húsinu hálfa ævina, aðrir staldra stutt við og eru óðara farnir annað. Það er með sanni sjónarsviptir að þegar vel látinn aldursforseti Espigerðis 2 hefur nú kvatt okkur hin í „þorpinu“ fyrir fullt og allt eftir áratuganábýli, lengi vel með Hrefnu heitinni Lárusdóttur, konu hans.

Ragnar Kvaran var góður, fróður og skemmtilegur nágranni sem gaman var að mæta á förnum vegi og spjalla við á göngum hússins eða stéttinni úti fyrir. Þótt kominn væri til ára sinna, var Ragnar mikið á ferðinni fram í háa elli og golfið stundaði hann statt og stöðugt hvernig sem viðraði, þar til gönguferðir í nágrenninu tóku við síðustu árin. Seint lét hann minnkandi sjón aftra sér frá því að hreyfa sig og fá sér frískt loft.

Forvitnilegar voru frásögurnar sem Ragnar flugstjóri hafði að segja frá ferðum sínum um allar álfur, ekki síst Afríku, og hafði margt kostulegt á daga hans drifið. Ragnar var ræðinn og orðhagur. Mér þykir vænt um kvæðabókina sem hann gaf mér, „Kvæði úr Quarantínu“, með allra handa kvæðum sem hann orti á ferðum sínum og “biðstöðum“ úti í heimi. Næði var til að drepa tímann með því að yrkja. Langar mig að klykkja hér út með ávarpsorðum í bók sem lýsa skáldi við stýri hátt uppi í háloftunum.

Ort ég hef í ýmsum álfum,

eitt og annað út í bláinn.

Ekki urðu í huga hálfum,

heilleg kvæði af sjálfum sér,

en seiddust máski í sinni mér.

Er ég sat við stýrisskjáinn,

stundin laut við tímaljáinn,

löng er nótt, þá dagur fer.

Af því skræða, innan skæða,

altént nokkur kvæði ber,

er hljóðstöfum úr húmi læða,

hringhent, jafnvel, rímuð ræða,

rakin hér, að geði þér.

Við Jóhanna konan mín og aðrir „þorpsbúar“ í Espigerði 2 vottum fjölskyldu Ragnars Kvaran innilega samúð við fráfall hans.

Þór Jakobsson.

Fyrir fimmtán árum mæltum við Aggi okkur mót í skíðabrekku í Austurríki. Við myndum skíða saman einn dag og ég var fullur tilhlökkunar. Á tilsettum tíma sá ég hann á fjallsbrúninni. Hann kallaði: Sjáumst niðri! Brekkan var kílómetri að lengd, snarbrött og hólótt. Neðst var veitingastaður með útisvæði þar sem fólk borðaði hádegismat. Sólin skein og það skipti engum togum að ég sá á eftir honum eins og bláu striki. Til að gera langa sögu stutta mátti ég, tæplega fimmtugur skíðakennarinn, fyrrverandi keppnismaður, í ágætu formi, hafa mig allan við að halda í við tæplega áttræðan flugstjórann. Hann var á undan mér niður og slíkur var hraðinn að engu mátti muna að síðustu bremsumetrar mínir yrðu eftir endilöngu langborðinu á troðfullum veitingastaðnum. Þarna stóð Aggi, brosandi út að eyrum og sagði: Jæja, hvaða brekku eigum við að taka næst?

Aggi var hetja. Árum saman flaug hann yfir Atlantshafið, stundum í snarvitlausu veðri, í óþrýstijöfnuðum vélum, fullum af farþegum, grunlausum um að kannski hefði slokknað á tveimur af fjórum hreyflum og óvíst hvort næðist á næsta varaflugvöll vegna eldsneytisleka. En þetta fólk var heppið, því við stjórnvölinn sat Capt. Ragnar Kvaran, skarpgreindur, ískaldur, píreygður eins og flugstjórar í bíómyndum, nema hér var enginn leikstjóri sem gat hrópað „cut!“ og allir í pásu heldur blasti blákaldur og stórhættulegur raunveruleikinn við. Alltaf lenti hann þó vélunum farsællega, ef ekki á Nýfundnalandi þá á áfangastað, á handaflinu, með útsjónarsemina og hugrekkið eitt að vopni.

Seinna flaug hann sömu vélum, DC-6, í felulitum, og þá með hjálpargögn til Biafra. Þær komu stundum eins og gatasigti til baka eftir kúlnahríðar, enda setið fyrir þeim þar sem þess var freistað að lenda í leyni um miðjar nætur á myrkvuðum flugvöllum, án lendingarljósa ogradíósambands. Þá var bara að beygja sig í flugstjórasætinu, henda út farminum á ferð, snúa vélinni skarpt og hefja sig aftur til flugs með geltandi hríðskotabyssurnar í bakinu. Eftir langt heimflug gat Aggi samt tekið aukasveig, lágflug gegnum Þrengslin, sér og áhöfninni til gamans, en öðrum til skelfingar, rétt eins og spennan í túrnum hefði ekki verið næg.

Eins og allar sannar hetjur var Aggi óendanlega traustur og hlýr, hjálpsamur og örlátur, með góða lund og frábæran húmor, mannkostir sem héldust þar til yfir lauk. Hafði hann þó lifað tímana tvenna hvað sína nánustu varðaði, misst synina tvo langt um aldur fram og heittelskaða Hrefnu of fljótt. Blessunarlega var Anna eftir og héldust þau fast í hendur síðustu árin. Það var fallegt að sjá.

Mér er um megn að þakka fyrir allt sem Aggi og fjölskylda hans gerðu fyrir mig. Ég dýrkaði þau öll sem eitt. Það bíður betri tíma. Ég vil þó nefna að á krefjandi tímum tók enginn okkur Hrafnhildi, framtíðareiginkonu minni, eins vel og Aggi og Hrefna. Það var stórmannlegt, lýsti þeim vel og verður aldrei fullþakkað. Úr varð náin vinátta okkar fjögurra og ógleymanlegar samverustundir. Við vottum Önnu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Pétur Jónasson.