Dáð Mögulegt er að Sheryl Sandberg hafi misnotað stöðu sína.
Dáð Mögulegt er að Sheryl Sandberg hafi misnotað stöðu sína. — Fabrice Coffrini/AFP
Rannsókn stendur yfir hjá Meta, móðurfélagi Facebook, vegna grunsemda um að Sheryl Sandberg hafi látið starfsfólk samfélagsmiðilsins vinna í eigin þágu.

Rannsókn stendur yfir hjá Meta, móðurfélagi Facebook, vegna grunsemda um að Sheryl Sandberg hafi látið starfsfólk samfélagsmiðilsins vinna í eigin þágu. Líkt og Morgunblaðið hefur fjallað um hefur Sandberg ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Meta en í fjórtán ár hefur hún verið hægri hönd Marks Zuckerbergs, forstjóra og stofnanda félagsins, og um leið verið eitt þekktasta andlitið í bandarísku atvinnulífi. Stendur til að Sandberg sitji áfram í stjórn Meta.

Wall Street Journal greindi frá því á föstudag að grunur léki á að svo árum skipti hefði Sandberg m.a. látið fólk á launum hjá Meta vinna að verkefnum sem tengjast góðgerðarfélaginu Lean In sem hún starfrækir, og að hún hefði nýtt starfskrafta fyrirtækisins til að hjálpa til við að skrifa og kynna bókina Option B sem kom út árið 2015.

Að sögn heimildarmanna WSJ hófst rannsóknin síðasta haust, en áður hafði blaðið greint frá að Meta hefði rannsakað hvort Sandberg hefði farið út fyrir heimildir sínar með því að láta starfsfólk félagsins taka þátt í að undirbúa fyrirhugað brúðkaup hennar síðar í sumar. Hefur hún vísað ásökunum þess efnis á bug.

Hefur WSJ eftir fólki sem þekkir vel til Sandberg að rannsóknin hafi valdið henni ama en hafi þó ekki átt þátt í þeirri ákvörðun hennar að hætta sem framkvæmdastjóri.

Meta hefur áður upplýst með nákvæmum hætti hvernig bæði Sandberg og Zuckerberg hafa látið Meta standa straum af ýmsum útgjöldum og greiðir félagið t.d. fyrir öryggisvörslu þeirra beggja. Þá nafngreindi Sandberg marga starfsmenn félagsins í síðustu bók sinni og þakkaði þeim fyrir framlag sitt. ai@mbl.is