Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Eftir Ólaf F. Magnússon.: "14 ár eru liðin síðan ég var borgarstjóri. Óhætt er að segja, að staða Reykjavíkurflugvallar hafi jafnt og þétt versnað frá þeim tíma og Sundabrautin hafi ekki hreyfst um hænufet."

Þegar stefnuskrá meirihluta F-lista og D- lista (undir minni forystu) var lögð fram 21. janúar árið 2008 var skýrt kveðið á um Reykjavíkurflugvöll og Sundabraut.

Í 1. lið stefnuskrárinnar sagði: „Reykjavíkurflugvöllur verður sýndur í óbreyttri mynd í aðalskipulagi á meðan rannsóknir standa yfir á nýjum vallarkosti. Ekki verður tekin ákvörðun um flutning Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu.“

Í 4. lið stefnuskrárinnar sagði: „Staðarvali og undirbúningi vegna lagningar Sundabrautar verði lokið sem fyrst.“

Hér var skýrt kveðið að orði en hængurinn sá, að flugvallarandstæðingar innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins undirrituðu meirihlutasáttmálann ekki af heilum hug og unnu gegn flugvellinum frá fyrsta degi. Vinnufriður Reykjavíkurflugvallar hefur síðan verið úti, allt frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir velti mér úr sessi sem borgarstjóra og var sjálf kjörin borgarstjóri 21. ágúst 2008. Sundabrautarmálið varð síðan fyrir miklu áfalli í október 2008, þegar efnahagshrunið varð. Síðan rétt var úr kútnum eftir það hafa aðeins þeir Jón Gnarr og Dagur Eggertsson verið borgarstjórar í Reykjavík. Hvorugur hefur reynst Reykjavíkurflugvelli eða Sundabraut vel.

Óvissa hjá nýjum meirihluta

Á fyrsta degi nýs samstarfs fallins meirihluta í borgarstjórn með Framsóknarflokknum, virtist tiltölulega bjart yfir málefnum Reykjavíkurflugvallar og Sundabrautar. Síðan kom bakslag í seglin. Einar Þorsteinsson sagði að staðið yrði við samkomulag sem borgarstjóri og innviðaráðherra undirrituðu um starfsemi Reykjavíkurflugvallar. Einar lagði hins vegar áherslu á mikilvægi þess, að áformuð byggð í Skerjafirði myndi rísa, því hún væri mikilvæg.

Mjög fljótlega eftir að „sáttmáli“ nýs meirihluta var kynntur, sagði borgarstjóri að nú yrði unnið að undirbúningi umhverfismats fyrir Sundabraut á brú „eða í göngum“! Við þetta bætist að ýmsir loftslagstrúboðar á vinstri væng stjórnmálanna láta nú illa vegna áforma um Sundabrautina.

14 ár eru liðin síðan ég var borgarstjóri. Óhætt er að segja, að staða Reykjavíkurflugvallar hafi jafnt og þétt versnað frá þeim tíma og Sundabrautin hafi ekki hreyfst um hænufet, einkum af völdum flugvallar- og Sundabrautarandstæðingsins, sem nú er borgarstjóri í Reykjavík og hefur verið hæstráðandi í borginni frá árinu 2010.

Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri.

Höf.: Ólaf F. Magnússon