Verslun Apple í Sjanghaí.
Verslun Apple í Sjanghaí.
Bandaríski tæknirisinn Apple tilkynnti í síðustu viku að viðskiptavinum fyrirtækisins í Bandaríkjunum muni standa til boða að greiða fyrir raftæki sín með afborgunum .

Bandaríski tæknirisinn Apple tilkynnti í síðustu viku að viðskiptavinum fyrirtækisins í Bandaríkjunum muni standa til boða að greiða fyrir raftæki sín með afborgunum . Mun Apple lána fyrir kaupunum milliliðalaust og leyfa að skipta greiðslum í fernt en afborganir verða á tveggja vikna fresti . Greinir WSJ frá að dótturfélag Apple hafi þegar fengið leyfi til að starfa sem lánveitandi í flestum ríkjum Bandaríkjanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Apple bætir fjármálaþjónustu við vöruúrval sitt en símar fyrirtækisins eru búnir Apple Pay- snjallveskinu sem geymir greiðslukortaupplýsingar. Með forritinu geta notendur greitt snertilaust með símanum og einnig sent peninga sín á milli. Þá gaf Apple út greiðslukortið Apple Card árið 2019 en fékk bankann Goldman Sachs til að vinna úr umsóknum og annast fjárhagshlið kortanna.

Tækjakaupalán Apple verða milliliðalaus sem þýðir að Apple situr uppi með tjónið sem kann að hljótast af því ef lántakendur standa ekki í skilum.

Hyggst Apple minnka áhættu vegna lánanna m.a. með því að nota eigin gögn um notendur Apple-tækja til að auðkenna lántakendur og koma í veg fyrir svik. Þá mun hvert lán nema að hámarki 1.000 dölum . ai@mbl.is