Stórt rými Vítt er til veggja og hátt til lofts í húsnæðinu á Barónsstíg.
Stórt rými Vítt er til veggja og hátt til lofts í húsnæðinu á Barónsstíg. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Myndlistarmaðurinn Sigurður Sævar Magnúsarson verður með opið hús í nýrri vinnustofu sinni og sýningarsal á Barónsstíg 11a&b, þar sem áður var veitingastaðurinn Argentína steikhús, klukkan 17 til 19 á fimmtudag.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Myndlistarmaðurinn Sigurður Sævar Magnúsarson verður með opið hús í nýrri vinnustofu sinni og sýningarsal á Barónsstíg 11a&b, þar sem áður var veitingastaðurinn Argentína steikhús, klukkan 17 til 19 á fimmtudag. „Húsnæðið er fullkomið fyrir starfsemi sem þessa, enda er þetta einn flottasti sýningarsalur borgarinnar,“ staðhæfir hann.

Systir Sigurðar Sævars gaf honum málningu, striga og pensla í 10 ára afmælisgjöf og daginn eftir afmælið ákvað hann að verða myndlistarmaður, en hann verður 25 ára í haust. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu 13 ára gamall og hefur haldið um 20 sýningar á ferlinum, síðast 2017. Undanfarin þrjú ár hefur hann verið í námi í Konunglegu listaakademíunni í Haag í Hollandi og gerir ráð fyrir að útskrifast að ári. „Eftir að ég byrjaði í náminu hefur verið biðlisti eftir verkum mínum og ég á því ekki stóran lager en fer að byggja hann upp á ný til að nýta veggina í nýja salnum.“

Möguleikar

Til þessa hefur Sigurður Sævar verið með vinnurými á Háaleitisbraut. „Það var kominn tími á stærri vinnustofu fyrir löngu,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki þurft að hugsa sig lengi um, þegar hann sá húsnæðið við Barónsstíg auglýst. „Ég gjörsamlega heillaðist af rýminu í þessu sögufræga húsi. Það heltók hug minn og ég hugsaði með mér að þetta væri kjörinn staður sem framtíðarvinnustofa.“

Á námsárunum hefur Sigurður Sævar komið til Íslands á sumrin og málað. ,,Ég geri ráð fyrir að leigja húsið út í haust, þegar ég held aftur út í heim, og svo kemur í ljós hvenær ég sný heim á ný.“ Hann leggur enda áherslu á að hann hafi keypt húsnæðið með framtíðina fyrst og fremst í huga. „Ég sé mig fyrir mér í vinnustofunni þegar ég verð aðeins eldri og gráu hárin verða aðeins fleiri. Þá fer vel um mig í þessu stóra rými, sem er í algjörum sérflokki fyrir myndlistarmann.“

Hátt er til lofts og vítt til veggja. Listamaðurinn viðurkennir að rýmið sé í stærra lagi fyrir einn mann, enda hugsi hann sér að deila því með öðrum. „Ég ætla ekki að vera svo eigingjarn að vera einn í húsinu, heldur hef ég áhuga á því að bjóða öðrum listamönnum að koma og vera með sýningar og jafnvel vinnustofur. Þá er ég bæði að hugsa um íslenska listamenn og ekki síður erlenda listamenn sem ég hef kynnst síðustu ár á meginlandi Evrópu. Ég sé fyrir mér að þetta verði einhvers konar menningarmiðstöð.“

Námið í Hollandi er fjölbreytt og áhrifin sjást í verkum Sigurðar Sævars frá nýliðnum árum. „Þetta eru tilraunir í stílum og stefnum á öllum vígstöðvum. Á opna húsinu verða verk sem ég hef unnið í Hollandi og hér heima undanfarin tvö ár, fígúratíf verk, þar sem ég leik mér með samhengi hlutanna í arkitektúr og mannlífinu sjálfu.“