NATO Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
NATO Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. — AFP
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Ekki er víst að hægt verði að fá samþykki Tyrkja fyrir inngöngu Svía og Finna í Atlantshafsbandalagið fyrir leiðtogafund bandalagsins sem hefst 28. júní nk.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Ekki er víst að hægt verði að fá samþykki Tyrkja fyrir inngöngu Svía og Finna í Atlantshafsbandalagið fyrir leiðtogafund bandalagsins sem hefst 28. júní nk., að sögn Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Hann segir bandalagið vinna hörðum höndum að því að komast að samkomulagi við Tyrki en Tyrkir hafa hafnað inngöngu Svía og Finna og sakað þá um að styðja hryðjuverkamenn.

Tyrkland mikilvægur bandamaður

„Þetta snýst um hryðjuverkastarfsemi og vopnaútflutning. Við verðum að skilja og muna að ekkert annað aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hefur orðið fyrir fleiri hryðjuverkaárásum en Tyrkland. Auk þess er Tyrkland mikilvægt aðildarríki sem er hernaðarlega mikilvægt landfræðilega séð,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi í Helsinki í gær en hann er staddur í Finnlandi í þeim tilgangi að vera viðstaddur öryggisráðstefnu. Aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu og staðan í Úkraínu verður meðal umræðuefna á ráðstefnunni.

Ganga hönd í hönd

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, var viðstaddur áðurnefndan blaðamannafund. Að hans sögn munu Finnar ekki ganga í Atlantshafsbandalagið ef aðild Svía verður ekki samþykkt og undirstrikaði Niinistö samstöðu Finnlands með Svíþjóð; „Við göngum hönd í hönd.“

Niinistö segir einnig mikilvægt að koma í veg fyrir að Tyrkir neiti ríkjunum um inngöngu í bandalagið. Tyrklandsforseti segist hins vegar hafa áhyggjur af því að Svíar og Finnar séu einfaldlega ekki á sömu blaðsíðu og Atlantshafsbandalagið hvað öryggismál varðar.