Axel Jósefsson Zarioh fæddist 26. maí 2001. Hann lést 18. maí 2020.

Útförin fór fram í kyrrþey 2. nóvember 2021.

Það sárasta af öllu í þessu lífi er sennilegast það, að sjá á bak ungviði úr fjölskyldunni, sem maður hefur bundist jafn órjúfanlegum tilfinningaböndum og ég sem amma bast Axel mínum. Hann hefði orðið 21 árs 26. maí sl.

Hann fór í sína fyrstu og síðustu sjóferð aðeins 18 ára gamall, var að reyna að fóta sig í lífinu á nýjum starfsvettvangi, fannst sjálfsagt sjálfum hann vera fær í flestan sjó, en það fór öðruvísi en lagt var upp með. Hann féll útbyrðis á innsiglingu til Vopnafjarðar í maí 2020 og fannst ekki fyrr en ári síðar, þrátt fyrir afar öfluga leit björgunarsveita, lögreglu og margra heimamanna. Þeim vil ég færa hugheilar þakkir.

Axel var fyrsta barnabarnið mitt, og sem nærri má geta fagnaði ég tilkomu hans, tók hann í fangið og var svo heppin að fá talsvert að annast hann. Það sem mér fannst sérstaklega einkenna hann frá fyrstu tíð var hversu glaðvær og jákvæður hann var, heilsaði mér og öðrum á svo sérstakan og glaðværan hátt, þótt lítill væri. Og þegar hann stækkaði breyttist viðmót hann ekkert. Hann gaf svo mikið af sér og fyrir það er ég þakklát.

Það var alltaf hlýtt og kært á milli okkar og þegar hann óx úr grasi leitaði ég ævinlega til hans í tæknilegum vandræðum mínum við tölvur og önnur mér tæknilega ofvaxin tól og tæki. Þar brást hann mér aldrei, fremur en nokkru sinni áður, sagði gjarnan: amma mín, hvað get ég NÚ gert fyrir þig? Þetta nú var undirstrikun á því að ég hefði oft áður beðið um aðstoð í svipuðum aðstæðum, en aldrei þraut þolinmæðina.

Nú um stund hefur leiðir skilið, hér er ég enn, en bið algóðan Guð um að þú sért í hans faðmi og að þar bíði okkar gleðilegir samfundir sem forðum. Ég elska minningu þessa yndislega, fyrsta barnabarns míns.

Algóður Guð varðveiti minningu hans meðal okkar allra sem hann þekktum.

Kristjana amma.