Ármann Þorgrímsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Svartsýniskast...“: Ævilínan illa teygð ellimörk þið sjáið að mér sækir eflaust feigð eins og búast má við.

Ármann Þorgrímsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Svartsýniskast...“:

Ævilínan illa teygð

ellimörk þið sjáið

að mér sækir eflaust feigð

eins og búast má við.

Eldast stöðugt allir menn

ætíð þannig gengur

dauður karlinn ekki enn

eitthvað hjari lengur.

Hallmundur Kristinsson yrkir og kallar „Vor á þingi“:

Í góðviðrinu ilmur vorsins angar.

Alþingis er vandamálið skýrt:

Umræðurnar eru heldur langar

og innihaldið stundum fremur rýrt.

„Eyrnahreinsun“ segir Guðmundur Arnfinnsson:

Eldhúsdagsins argaþras

yndi hjá mér vekur,

þingskörunga mergjað mas

merg úr eyrum skekur.

Gunnar J. Straumland skrifar: „Það var árið 1967 sem síðustu eyjaskeggjar í Flatey á Skjálfanda tóku sig upp og fluttu upp á „fastalandið“. Töluverður hluti þeirra ílengdist í mínum gamla heimabæ, Húsavík. Margir minna leikfélaga úr æsku eru afkomendur síðustu ábúendanna í eynni. Það er með aðdáun og ánægju sem ég hef fylgst úr fjarska með ræktarsemi og dugnaði þeirra við að halda arfleifð sinni lifandi með því að gera upp gömlu húsin í Flatey og dvelja þar í frístundum sínum.“

Flateyjarkvæði

Í dimmbláum flóa er dulítil ey,

dásamleg gerðist þar saga.

Upp risu kynslóðir, áttu þar fley

austan við Flateyjarskaga.

Þær samfélag byggðu er sagan nú á

með samtakamætti og hlýju

er synir og dætur nú segja okkur frá.

Þar sækja má yndi að nýju.

Því allt sem var liðið má efla á ný,

arfurinn hvílir í hjörtum

sem fengu í æsku frásögn af því

er finnst nú í minningum björtum.

Pétur Bjarnason skrifar: „Nýkjörin sveitarstjórn Norðurþings stefnir að því að fjölga íbúum sveitarfélagsins um eitt hundrað. Það þarf þá að aðlaga þá aðstæðum nema stjórnin ætli sjálf að annast fjölgunina“:

Nú hefur stjórnin Norðurþinga

nýja fundið tekjulind.

Í þessa hundrað Þingeyinga

þarf að líkum mikinn vind.

„Léttur“ eftir Bjarna frá Gröf:

Yndi færir ævin mér

æskan nærir sporin,

lífið hær og leikur sér

líkt og blær á vorin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is