Kristín Erna Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 30. apríl 1944. Hún lést 28. maí 2022 í Reykjavík.

Kristín Erna var dóttir Ragnhildar Ólafsdóttur frá Miðvogi á Akranesi, f. 2. febrúar 1923, d. 24. júní 2017, og Ólafs Björnssonar frá Stóra-Sandfelli í Miðdal, f. 18. mars 1920, d. 28. desember 1979.

Systkini Kristínar eru Ragnheiður, f. 21. október 1945, Bergþór Rúnar, f. 31. júlí 1949, og Ólöf Anna, f. 30. júlí 1954.

Kristín giftist Óskari Lárussyni frá Reykjavík, f. 20. september 1942, og eignuðust þau fjögur börn. Þau slitu samvistir 1977.

Börn þeirra: 1) Lárus, kona hans er Guðlaug Helgadóttir, börn þeirra eru Hrefna Lind, Jóhanna og Helga og þrjú barnabörn. 2) Ásthildur, maður hennar er Eiríkur Ágúst Ingvarsson, barn þeirra er Brynjar. 3) Anna María, hennar maður Halldór Benjamín Brynjarsson, börn þeirra eru Kristín og Gunnar Örn, þau eiga eitt barnabarn. 4) Andri Þór, börn hans eru Alexandra, Aníta og Sara.

Kristín ólst upp á Blómvallagötu í Vesturbænum. Hún gekk í Melaskóla og gaggó vest, einnig fór hún í húsmæðraskólann. Eftir að hún eignaðist börnin var hún heimavinnandi en vann einnig af og til í skóbúð pabba síns sem ung kona. Árið 1976 byrjaði hún að vinna á Landspítalanum þar sem hún vann alla tíð sem móttökuritari, fyrst á röntgen- en svo á geisladeild, þar til hún hætti störfum.

Útförin fór fram í kyrrþey 9. júní 2022.

Minning um móður.

Í hjarta mínu er lítið ljós,

sem logar svo skært og rótt.

Í gegnum torleiði tíma og rúms

það tindrar þar hverja nótt.

Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,

Af mildi, sem hljóðlát var.

Það hefur lifað í öll þessi ár,

þótt annað slokknaði þar.

Og þó þú sért horfin héðan burt

og hönd þín sé dauðakyrr,

í ljósi þessu er líf þitt geymt,

– það logar þar eins og fyrr.

Í skini þess sífellt sé ég þig

þá sömu og þú forðum varst,

er eins og ljósið hvern lífsins kross

með ljúfu geði þú barst.

Af fátækt þinni þú gafst það glöð,

– þess geislar vermdu mig strax

og fátækt minni það litla ljós

mun lýsa til hinsta dags.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elskulega móðir mín verður jarðsungin í dag, eftir að hafa glímt við mjög erfið veikindi undanfarin ár. Það er þungu fargi af henni létt og ég veit að henni líður betur þar sem hún er núna. Hún tókst á við þessi veikindi af æðruleysi og naut þar styrks síns besta vinar, Gústa, sem alltaf stóð eins og klettur við hlið hennar í veikindum hennar, alveg fram á síðasta dag. Ég á ekki nógu mörg orð til að þakka Gústa fyrir trausta og fallega vináttu við mömmu. Alla tíð og alveg undir það síðasta kallaði Gústi fram bros á varir og glampa í augu mömmu. Takk Gústi, fyrir að vera til staðar fyrir mömmu, við systkinin kunnum mjög vel að meta það. Mamma sá ekki sólina fyrir þér og elskaði þig meira en lífið sjálft.

Lífshlaup mömmu einkenndist af dugnaði, ósérhlífni, hlýju, ást og kærleika. Ung varð hún fráskilin fjögurra barna móðir og þurfi alla tíð að hafa mikið fyrir lífinu með fjögur börn, sem hún elskaði út af lífinu og setti okkur alltaf í fyrsta sæti. Hún kenndi manni að heiðarleiki og hreinskilni væru góðir mannkostir og hennar ráð voru alltaf þau, að maður ætti að koma hreint og beint fram. Mamma var okkur systkinum mjög góð fyrirmynd í lífinu og verður hennar ávallt minnst sem stoltrar móður, sem lagði mjög mikið á sig, til að börnin hennar fengju gott uppeldi. Mamma var mikil fjölskyldumanneskja og þau eru ófá matarboðin, þar sem hún hóaði liðinu sínu saman í mat, þar sem var spjallað um daginn og veginn. Hún elskaði að ferðast til útlanda og voru ferðirnar ófáar sem hún fór til Miðjarðarhafslanda eða til Ameríku og naut þar lífsins í góðra vina hópi. Elsku mamma, takk fyrir að reynast mér góð mamma, að reynast Guðlaugu góð tengdamamma, börnunum okkar góð amma, barnabörnunum okkar góð langamma, við söknum þín öll mikið en ég veit að sorgin og söknuðurinn sem við upplifum núna svo sterkt mun með tímanum breytast í fallegar minningar um þig og okkar stundir saman. Ég mun ávallt minnast þín með hlýju í hjarta.

Lárus Óskarsson.

Elsku hjartans yndislega mamma okkar, nú ertu farin frá okkur og er það ólýsanlega sárt að hugsa til þess að sjá þig ekki aftur, fallega brosið þitt, en þú tókst alltaf á móti okkur með bros á vör og sagðir: „Ertu komin, ó hvað það er gott að fá þig!“

Þú varst okkur svo mikil fyrirmynd í lífinu, kenndir okkur svo margt. Við vorum bara litlar sex ára stelpur og þú byrjuð að kenna okkur að prjóna. Einnig saumaðir þú fullt af fallegum fötum, bæði á okkur og sjálfa þig. Þú kenndir okkur að baka og var ægilega vinsælt af vinkonum okkar að koma heim og baka skúffuköku, alltaf stuð í Barmahlíðinni. Alltaf vorum við svo montnar af þér, svo falleg, góð og glæsileg, þú varst sko mamma okkar!

Þótt þú ættir fjögur börn og værir í fullri vinnu á lansanum var heimili okkar alltaf svo hreint og fallegt. Úr Barmahlíðinni var stutt að kíkja í heimsókn í vinnuna og segja hæ, alltaf vorum við velkomnar á þinn vinnustað.

Þér fannst gaman að ferðast bæði innan- og utanlands, hafðir farið mjög víða: Ameríkuferðin, sem tók þá 12 tíma flug, til Önnu frænku, þar naust þú þín vel og hafðir gaman af. Ítalíuferðin þegar við vorum aðeins níu ára og fengum að koma með, það var sko spennandi og í þrjár vikur.

Árin liðu og eignaðist þú barnabörnin sem þér fannst gaman að fylgjast með. Þú eignaðist líka fjögur langömmubörn og tvö þeirra alveg ný sem þú hafðir yndi af að sjá. Síðustu ár fór heilsu þinni að hraka og fórum við þá að eyða meiri tíma saman, sem er okkur svo dýrmætt í dag. Svo kom covid og þá var farið mikið í bíltúra: Vesturbærinn tekinn; Blómvallagatan, Fjólugatan og auðvitað Hlíðarnar. Alltaf var stoppað og keyptur ís, því þú elskaðir að fá ís. Áttum líka yndisleg kvöld saman, þá var horft á Silfur Egils, Attenborough, Mamma mía og ekki má gleyma laugardagskvöldunum með Helga Björns, þau voru í uppáhaldi.

Elsku mamma okkar, við gætum haldið endalaust áfram að rifja upp góðar minningar sem við geymum nú í hjarta okkar. Huggum okkur við það að við sjáumst aftur í fallega sumarlandinu. Takk fyrir allt, við elskum þig.

Þínar ástkæru dætur,

Anna María og Ásthildur.

Elsku amma okkar, það er undarlegt og erfitt að kveðja þig, en við vonum að þú sért komin á betri stað þar sem þér líður vel. Þú fallega amma skvís. Blómarós, allt svo fallegt í kringum þig. Það var alltaf gott að koma í heimsókn og hitta þig. Brosið þitt þegar þú opnaðir dyrnar og faðmlagið. Þú varst ljúf og góð amma. Við áttum margar góðar stundir með þér elsku amma. Það var svo gaman þegar þú varst að vinna í skóbúðinni og við fengum fína skó frá þér á jólunum. Sjálf áttir þú alltaf svo fallega skó. Takk fyrir appelsínið, allt spjallið við eldhúsborðið og samprjónið. Takk fyrir purusteikina á jólunum, gleðina og forvitnina. Takk fyrir að segja okkur frá gamla tímanum þínum. Reykjavíkurmærin í Vesturbænum. Þú ert sannarlega hetja í okkar augum.

Hver gengur þarna eftir Austurstræti

og ilmar eins og vorsins blóm

með djarfan svip og ögn af yfirlæti

á ótrúlega rauðum skóm

Ó, það er stúlka engum öðrum lík

það er hún fröken Reykjavík.

Ó, það er stúlka engum öðrum lík

það er hún fröken Reykjavík.

Hver situr þar með glóð í gullnum lokkum

í grasinu við Arnarhól

Svo æskubjört í nýjum nælonsokkum

og nýjum, flegnum siffonkjól

(Jónas Árnason)

Hrefna og Jóhanna Lárusdætur.

Elsku amma mín.

Takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman. Þú ert partur af fyrstu minningum mínum sem barn. Þegar við tvær fórum að stússast saman. Okkur skvísunum leiddist það ekki að kíkja saman í Kolaportið. Ég man eftir því hvað mér fannst þú alltaf glæsileg. Rúllurnar í hárið, varalitur og flott föt. Það var alltaf yndislegt að koma í heimsókn til þín, því þú varst svo elskuleg og brosmild. Takk fyrir að kenna mér að prjóna. Það var gaman að hanga með þér, horfa á sjónvarpið, prjóna, borða ís og hlæja saman. Svo var líka svo gaman að gera okkur fínar með naglalakki, rúllum og varalit. Já, þú varst sko ákveðin í því að vera alltaf fín og sæt. Þú varðst bara glæsilegri og glæsilegri.

Síðustu ár hefur þú staðið þig eins og hetja, elsku amma mín. Ég er viss um að þú sért komin á góðan stað núna því ef það er einhver sem á það skilið þá ert það þú.

Hvíldu í friði, ég elska þig.

Helga Lárusdóttir.