Guðmundur G. Þórarinsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Eftir Guðmund G. Þórarinsson: "Framsetning Ellerts er mjög skýr og býr yfir seiðmagni. Í raun væri mikill ávinningur að því að þessar bækur hans væru gerðar að kennsluefni í skólum."

Á undanförnum árum hefur Ellert Ólafsson gefið út nokkrar frábærar bækur, bækur sem ekki hafa hlotið þá athygli sem þær verðskulda. Í bókum sínum dregur Ellert saman gríðarlegan fróðleik sem öllum er fengur að. Efnið kynnir hann á aðgengilegan hátt með lýsandi myndefni sem auðveldar lesendum að ná yfirsýn yfir grunnatriði og framþróun tækni og framfara og opnar yfirsýn yfir leyndardóma lífs á jörðinni, þróun og stöðu í dag.

Nýjasta bók Ellerts er Náttúran og framtíð okkar. Ég hef hvergi séð jafn skýrt gerða grein fyrir meginatriðum bæði í máli og myndum. Þessar bækur hans Ellerts eru tilvaldar fermingargjafir, gagnlegur og nauðsynlegur fróðleikur og að sjálfsögðu upplagt lestrarefni í sumarleyfum og frítímum. Við lestur þeirra finnst mönnum þeir skilja betur eðli jarðarinnar sem þeir búa á, og þá leyndardóma sem lífið á jörðinni byggist á. Í þessari nýjustu bók hans nefni ég t.d. ljóstillífunina. Við dáumst að rósinni, hún lífgar tilveru okkar með fegurð og yndisþokka en flestum er hulinn leyndardómurinn að baki; ferlar frá moldinni til blómblaða og fræmyndunar og margvísleg hlutverk laufblaða og blaðgrænu, grænu kornanna. Ég gríp niður og nefni af handahófi kafla um geisla sólar, lofthjúpinn, bráðnun jökla, hafstrauma, byltingarkenndar uppgötvanir í jarðvísindum, fólksfjölda á jörðinni, orkuna, allar tegundir orku frá sjávarföllum yfir í vindorku og kjarnorku, þróun rafhlaðna.

Og eins og máltækið segir: Ein mynd segir oft meira en þúsund orð.

Ástæða er til að nefna líka bók Ellerts: Skemmtiferð um heiminn á vængjum stærðfræðinnar.

Foreldrum bendi ég á að þessar bækur vekja áhuga og athygli ungu kynslóðarinnar á óræðum leyndardómum lífs og fræða.

Framsetning Ellerts er mjög skýr og býr yfir seiðmagni. Í raun væri mikill ávinningur að því að þessar bækur hans væru gerðar að kennsluefni í skólum, gætu kennt mönnum að athuga náttúruna. Þær gætu átt þátt í að rjúfa þennan múrvegg áhugaleysis og skilningsleysis sem oft ræður ríkjum og opnað mönnum sýn inn í dýpstu rök þessarar sundurleitu aldar.

Höfundur er verkfræðingur.