Enn ríkir vafi um upphaf heimsfaraldursins

Greint var frá því í síðustu viku að sérfræðingateymi á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, hefði skilað frumniðurstöðum sínum um uppruna kórónuveirunnar og heimsfaraldursins. Það sem þótti athyglisverðast við þær var að hópurinn lýsti því yfir að hann þyrfti meiri gögn áður en hægt væri að útiloka þá tilgátu að heimsfaraldurinn hefði átt uppruna sinn á tilraunastofu.

Áður hafði sérstakur samstarfshópur WHO og kínverskra stjórnvalda skilað þeim niðurstöðum að langlíklegast væri að veiran hefði borist úr leðurblökum yfir í menn, og um leið sagt að engin sönnunargögn bentu til þess að tilraunastofukenningin væri rétt.

Hin nýja niðurstaða er hins vegar merki um að þar hafi menn farið of bratt í að draga ályktanir, en Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, viðurkenndi fljótlega eftir að fyrri skýrslan kom út í fyrra að það þyrfti meiri gögn frá kínverskum stjórnvöldum um fyrstu sjúklingana í Wuhan, þar sem faraldurinn átti upptök sín.

Mikilvægt er að taka fram að frumniðurstöðurnar segja ekki að smit á rannsóknarstofu hafi verið leið veirunnar til að hleypa af stað heimsfaraldri, heldur einungis að sá möguleiki verði ekki útilokaður án frekari gagna. Í ljósi þess er hins vegar vert að rifja upp að viðbrögð kínverskra stjórnvalda, jafnvel frá fyrstu vikum faraldursins, hafa verið þau að reyna að varpa leyndarhjúpi yfir upprunann.

Kínverjar hafa brugðist hart við öllum yfirlýsingum um að veirurannsóknarstofan í Wuhan gæti tengst uppruna heimsfaraldursins og sagt það fáránlega samsæriskenningu. Tregða þeirra við að leggja öll spilin á borðið um uppruna kórónuveirunnar hefur hins vegar ekki gert neitt annað en að halda lífi í þeim kenningum. Hafi þeir gögn sem geti afsannað það tal er brýnt að fá þau fram á borðið sem allra fyrst.