Þjóðverjar þurfa að spýta í lófana gagnvart Úkraínu

Angela Merkel, fyrrverandi Þýskalandskanslari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku eftir að sextán ára valdatíð hennar lauk. Þar var Merkel vitanlega spurð hvort hún sæi eftir einhverju í kanslaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beisla Vladimír Pútín Rússlandsforseta með því að auka viðskipti Þýskalands og Rússlands.

Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu, og sagði að þó að „diplómatían“ hefði klúðrast, væri það ekki merki um að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta. Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu en sagðist á sama tíma ekki hafa verið „naíf“ í samskiptum sínum við Pútín.

En þó að Merkel væri enn vígreif varðandi eigin frammistöðu í embætti gerðu svör hennar lítið til að draga úr þeirri gagnrýni sem framganga hennar hefur fengið í kjölfar innrásarinnar. Það skrifast til dæmis að miklu leyti á hana og hennar ákvarðanir að Þjóðverjar urðu háðir rússneskri olíu og jarðgasi til orkuframleiðslu, sem aftur hefur leitt til þess að erfiðara er nú að beita refsiaðgerðum á Rússa fyrir innrásina en ella.

Merkel lýsti yfir stuðningi við aðgerðir eftirmanns síns, Olafs Scholz, um enduruppbyggingu þýska hersins í kjölfar innrásarinnar, sem Scholz kallaði á sínum tíma „vendipunkt“. Merkel sagðist þó heldur ekki þurfa að sjá eftir neinu varðandi það hvernig herinn hefði verið uppbyggður í kanslaratíð hennar, en bandalagsþjóðir Þjóðverja máttu margoft benda á það að þýski herinn væri of veikur til að nýtast ef til kastanna kæmi.

Ljóst er að orðspor Merkel og Þjóðverja beið mikinn hnekki við innrásina í Úkraínu, þar sem hún sprengdi í raun upp ævistarf margra þeirra sem hafa verið helstu bógar í þýskum utanríkismálum undanfarna áratugi. Og þó að spjótin hafi einkum beinst að sósíaldemókrötum og Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslara þeirra, er ljóst að kristilegu flokkarnir eru síður en svo stikkfrí frá þeirri gagnrýni.

Það vekur engu að síður ennþá furðu, hvað þýsk stjórnvöld virðast vilja draga lappirnar þegar kemur að því að styðja við bakið á Úkraínu. Þannig vildi Scholz helst ekki segja það beint út í upphafi mánaðarins að hann vildi að Úkraínumenn ynnu stríðið, og símtöl hans og Macrons Frakklandsforseta við Pútín hafa vakið bæði grunsemdir og reiði meðal bandamanna þeirra að þar á bæ séu menn þegar farnir að horfa aftur til þess tíma að hægt verði að stunda viðskipti við húsbóndann í Kreml.

Þá eru Úkraínumenn sjálfir orðnir langeygðir eftir efndum þeirra loforða sem Scholz hefur gefið þeim um stuðning í formi vígtóla og þungavopna. Á meðan Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar og fleiri virðast ekki skirrast við að senda slík vopn til Úkraínu, þá hleypur alltaf einhver snurða á þráðinn þegar kemur að framlagi Þjóðverja.

Kanslarinn er nú farinn að bregðast pirraður við, þegar hann er spurður út í hvað valdi þessum seinagangi, en staðreyndin er einfaldlega sú að Þjóðverjar, sem eitt af lykilríkjum Evrópu, þurfa að sýna forystu. Þá gerir seinagangurinn lítið til að laga það laskaða orðspor sem Þjóðverjar hafa nú fengið á sig með samskiptum sínum við Pútín síðustu ár.