Andrés Ingi Jónsson
Andrés Ingi Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnhildur Sif Oddsdóttir Karlotta Líf Sumarliðadóttir Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt fram nefndarálit um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Gunnhildur Sif Oddsdóttir

Karlotta Líf Sumarliðadóttir

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt fram nefndarálit um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Meðal annars verða Héraðsvötn og Kjalölduveita, sem eru í verndarflokki, færð í biðflokk, nái áætlunin fram að ganga.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður umhverfis- og samgöngunefndar, hefur áhyggjur af því að svæðin tvö séu færð í bið á forsendum sem hann segir mjög hæpnar. „Þetta eru hvort tveggja svæði sem eru flokkuð í verndarflokk af verkefnastjórninni vegna þess að það er ótvírætt verndargildi á báðum stöðum en rökin sem meirihlutinn notar til að færa þau niður í bið eru ekki góð,“ segir hann og bætir við að rökin beri þess keim að þetta sé pólitísk málamiðlun frekar en að ákvörðunin sé byggð á faglegum sjónarmiðum.

Andrés játar því að hann hafi áhyggjur af að svæðin fari næst í nýtingarflokk. „Þarna er verið að bregðast við umsögnum frá virkjunaraðilunum á báðum stöðum og þá er sá þrýstingur áfram að reyna að koma þessum virkjunarkostum í nýtingu og þetta er bara fyrsta skrefið í þá átt.“

Þá reiknar hann með að áætlunin verði samþykkt, eini stjórnarþingmaðurinn sem hafi gefið annað upp sé Bjarni Jónsson, þingmaður VG. „Út á það eitt þá erum við með meirihluta fyrir þessu nema það séu fleiri þingmenn sem rifji upp grænu taugina og fari aðeins að standa með náttúrunni frekar en að hlusta á hagsmunaöflin.“

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG og einn nefndarmanna, sagði í samtali við mbl.is í gær að markmiðið með tilfærslunni væri ekki að koma svæðunum í nýtingarflokk. Biðflokkurinn þýddi aðeins að ákveðnar virkjunarhugmyndir þyrftu að fara í endurmat.