Eyþór Sigmundsson fæddist 18. september 1934 í Reykjavík og ólst upp á Bergstaðastræti. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu í Boðaþingi 5. júní 2022.

Foreldrar hans voru Aðalheiður Olga Guðgeirsdóttir, f. 1913, d. 1995 og Sigmundur Eyvindsson, f. 1914, d. 1979. Systkini Eyþórs eru: Svava, f. 1936, Þorsteinn, f. 1943, Ólafur, f. 1948, Guðbjörg, f. 1953, Jóhanna, f. 1953 og Guðgeir, f. 1957.

Árið 1956 kvæntist Eyþór Bjarnheiði Björnsdóttur, f. 1932, d. 2019 og eignuðust þau tvö börn, Lilju, f. 1955, og Sigmund, f. 1958. Þau skildu. Lilja á dæturnar Heiðu, f. 1982, og Geirþrúði, f. 1989. Lilja er gift Einari Jóhanni Þorgeirssyni, f. 1958. Sigmundur á börnin Gunnhildi Lilju, f. 1980, Kristínu Lindu, f. 1982, Berglindi, f. 1984, Eyþór, f. 1988, og Ragnheiði Söru, f. 1992. Sigmundur er kvæntur Hafrúnu Jónsdóttur, f. 1960.

Seinni kona Eyþórs var Hulda Sylvía Jónsdóttir, f. 1919, d. 2008 og áttu þau eina dóttur, Guðrúnu Helgu, f. 1959. Dætur hennar eru Þórey Huld, f. 1985, og Vala, f. 1989.

Þá átti Eyþór barn með Jennýju Guðrúnu Leifsdóttur, f. 1941. Dóttir þeirra er Brynja, f. 1964. Dóttir hennar er Guðrún Birna, f. 2003, og sambýlismaður Brynju er Þórarinn Kristinsson, f. 1968.

Barnabarnabörn Eyþórs eru 10 talsins.

Þegar þröngt var orðið um fjölskylduna á Bergstaðastrætinu vildu foreldrar Eyþórs fara að stækka við sig, en þá var erfitt að fá lóðir í Reykjavík. Árið 1945 byggðu þau sér því sumarbústað í Kópavogi úr trékössum og var hann staðsettur á Borgarholtsbraut. Eyþór hætti í skóla áður en hann lauk barnaskólaprófi og fór þá til sjós með föður sínum.

Eyþór var mjög orkumikill og synti til dæmis stundum daglega frá Kársnesinu yfir til Nauthólsvíkur og til baka. Þegar Eyþór og Bjarnheiður hófu búskap innréttaði hann efri hæð hússins á Borgarholtsbraut og bjuggu þau þar sín sambúðarár. Eyþór starfaði sem kokkur á Keflavíkurflugvelli og þar kynntist hann seinni konu sinni, Huldu. Þau hófu sambúð 1959 í Skaftahlíð, fluttu fljótlega í Álfheima en 1964 fluttu þau á Kársnesið og voru þar allan sinn búskap. Eyþór starfaði sem kokkur í Útvegsbankanum í yfir 20 ár og um það leyti sem hann hætti þar störfum stofnaði hann póstkortafyrirtækið Laxakort. Eyþór var einnig félagi í frímúrarareglunni á Íslandi og eldaði fyrir reglubræður í mörg ár.

Þótt Eyþór hafi hætt sjómennsku er ekki ofsögum sagt að lax- og silungsveiði hafi verið hans helsta ástríða í lífinu. Var hann því virkur þátttakandi í störfum Stangaveiðifélags Reykjavíkur og í fluguhnýtingaklúbbnum Fjaðrafoki. Einnig var Eyþór mikill áhugamaður um samfélagsmál og lét til sín taka í stjórnmálahreyfingum. Lengst af ævinnar var Eyþór við mjög góða heilsu en undanfarin ár var hún farin að gefa sig og var hann því nýfluttur á Hjúkrunarheimilið í Boðaþingi.

Eyþór verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 13. júní 2022, kl. 13.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um afa er matur. Hann var alltaf að gefa fólki að borða, hvort sem það var heima hjá þeim ömmu, á rúntinum eða ef við fórum eitthvað saman. Alltaf var afi með mat, nammi, kökur, brauð eða annað tilbúið fyrir hugsanlega gesti. Ef kíkt var í skápa á Kársnesbrautinni voru þeir yfirfullir af ýmsu góðgæti og hefði hann hæglega getað boðið 50 manns í veislu á hverri stundu.

Frá unglingsaldri gátum við fengið að vinna hjá honum í Laxakorti á sumrin. Þau sumur voru mikil matarsumur þar sem alltaf var farið í hádeginu á Svarta svaninn á Rauðarárstíg. Þar keypti afi iðulega „ýsu skvísu, með kartöflum, laukfeiti og brúnni sósu“ og þar sátum við með honum, borðuðum og spjölluðum við alla. Afi var nefnilega þannig að hvar sem hann kom lagði hann sig fram við að kynnast öllum, sama hverjir það voru. Starfsfólk og fastakúnnar á Svarta svaninum þekktu því öll afa vel og því var mikið skrafað yfir ýsunni. Þetta hafði líka sína ókosti, því aldrei var hægt að rétt skreppa neitt með afa – alltaf hitti hann einhvern sem hann þurfti að rabba við!

Í Laxakorti var líka mikill gestagangur og rennerí á fólki. Þar sátum við, að vanda okkur við að telja póstkort (tvö og tvö í einu eins og afi kenndi) og hlustuðum á afa ræða heimsmálin við gesti og gangandi. Ef það voru ekki gestir var afi í símanum, því hann þekkti svo mikið af fólki og síminn stoppaði ekki. Það er því óhætt að segja að afi hafi verið vinmargur og gríðarlega skrafhreifinn.

Þegar þau amma voru heimsótt á Kársnesbrautina tók hann alltaf frá tíma til að spjalla við okkur, fá fréttir og segja sögur. Hann sagði skemmtilega frá og var iðulega hetjan í sínum sögum. Hann hafði mikinn húmor og var ljúfur við samferðafólk sitt. Alltaf var hægt að hringja í afa og hann tilbúinn að hjálpa okkur með allt það sem hann gat, smátt eða stórt. Hann var ráðagóður og lagði sig fram við að styðja okkur eftir bestu getu.

Hann var góður og traustur bakhjarl að eiga og verður hans sárt saknað.

Þórey Huld og Vala Jónsdætur.

Eyþór Sigmundsson var traustur vinur pabba og við hjónin vorum svo lánsöm að eiga mikil samskipti við hann gegnum árin. Eyþór var sannfærður um óréttlæti kvótaframsals og vildi efla smábátaútgerð vegna mikilvægis hennar fyrir sjávarbyggðir umhverfis landið. Hann var einn af stofnendum Frjálslynda flokksins árið 1998 og var alla tíð traustur félagi, sat í miðstjórn flokksins og fjármálaráði. Síðar fylgdi hann svo okkur Ómari Ragnarssyni og fleirum þegar við stofnuðum Íslandshreyfinguna.

Stangveiði var hans aðaláhugamál og þá helst stórlaxaveiði, því fáir hafa veitt eins marga stórlaxa og hann gerði gegnum tíðina. Þess vegna fannst honum vissara að nota 30 punda taum, jafnvel fyrir smæstu flugur. Við fórum nokkrum sinnum með honum í laxveiði og svo reyndur veiðimaður vissi hvar laxinn lá og hvernig best væri að bera sig að við veiðarnar. Hann var líka einstaklega ljúfur og þægilegur veiðifélagi og þeir feðgar báðir, því Sigmundur sonur hans var jafnan með honum.

Eyþór var faglærður matreiðslumaður, hafði brennandi áhuga á matargerð og naut þess að borða góðan mat. Hann var fastagestur í árlegu skötuboði hjá pabba um árabil.

Við hjónin heimsóttum hann oft í fyrirtækið hans, Laxakort, þar sem hann sýndi okkur ýmislegt áhugavert sem hann hafði látið hanna til prentunar. Líklegast eru spilastokkar með laxaflugum og kort með myndum af gömlum peningaseðlum það sem flestir kannast við, auk fjölda póstkorta með frábærum myndum eftir færustu ljósmyndara landsins.

Eyþór var einstakt ljúfmenni, jákvæður og geðgóður. Hann sagði mjög skemmtilega frá og ógleymanlegar eru lýsingar hans á hópmatareitrun í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, þegar hann var ungur lærlingur í matreiðslu. Það endaði með þeim ósköpum að allir helstu broddborgarar neyddust til að ganga örna sinna á Austurvelli – en rétt er að taka fram að hann átti enga sök í því máli.

Við kveðjum Eyþór með virðingu og þökk og sendum fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét K. Sverrisdóttir.

Eyþór Sigmundsson verður lengi í minnum hafður. Hann var flinkur matreiðslumaður, snillingur í laxveiði, fjölskyldufaðir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri. Við leiðarlok minnumst við hans sem góðs vinar og þess frábæra sögumanns sem hann var. Frásagnarlist Eyþórs var einstök. Stundum skautaði hann á brún sannleikans til að gera góða sögu enn betri. Þá gerði Eyþór smá hlé, vætti varirnar vel og hélt svo sögunni áfram. Áheyrendur hlýddu dolfallnir á.

Þegar um hægðist í matreiðslunni gerðist Eyþór stórtækur útgefandi póstkorta í gegnum fyrirtæki sitt Laxakort. Hann fékk til liðs við sig þekkta ljósmyndara sem útveguðu honum fallegar landslagsmyndir. Útgáfan var líklega jafnoki nokkurra opinberra stofnana í landkynningu. Eyþór var djarfur og gaf stundum út kort sem við fyrstu sýn voru langt út úr kortinu – ef svo má segja.

Einu sinni var hann að sýna nýja kortasyrpu og tvö kortanna voru mjög óhefðbundin. Rax taldi þau eiga lítið erindi fyrir augu vandlátra ferðamanna. Annað var af nýveiddum stórlaxi sem lá slorugur í grasi, kusk hér og þar á fiskinum og blóðtaumar. Hitt var með svarthvítri mynd af girðingarstaur og var gaddavír vafið efst um staurinn. „Þetta mun rokseljast,“ sagði Eyþór og benti á kortið af staurnum. „Allir sem eru í Amnesty International kaupa þetta kort því það er næstum alveg eins og merkið þeirra!“

Árið leið og Eyþór var spurður hvernig þessi tvö kort hefðu selst. „Þau eru uppseld,“ sagði Eyþór hróðugur. „Þau hreyfðust lítið framan af, en svo fór þetta allt á einu bretti. Hljómsveitin KISS kom við á Keflavíkurflugvelli, sá kortin og ákvað að nota þau sem jólakort. Þeir keyptu upplagið!“

Rax langaði í flugvél til að nota við myndatökur. Eyþór var til í það og var keypt ósamsett flugvél sem Axel Sölvason setti saman ásamt Rax. Bróðir Eyþórs smíðaði vandaða lokaða kerru fyrir vélina sem bar einkennisstafina TF-MBL. Stofnað var félag um verkefnið og valdi Eyþór því nafnið Ofsaflott. „Sjáðu til,“ sagði Eyþór. „Stærsta flugfélag í heimi heitir Aeroflot og þá passar að það minnsta heiti Ofsaflott.“ Hann lét bródera nafnið gylltum stöfum í bláar derhúfur.

Eyþór hafði rekið mötuneyti í banka og kunni á bankamenn. Þegar þurfti að fá fyrirgreiðslu fóru þeir félagar í bankann með derhúfurnar og bankamennirnir féllu í stafi af hrifningu og samþykktu erindið umsvifalaust!

Ein veiðisaga Eyþórs fær að fljóta hér með. Hann var að veiða í Laxá í Aðaldal og sannkallaður stórlax tók agnið. „Þetta var held ég einn stærsti lax sem ég hef séð,“ sagði Eyþór og vætti aðeins varirnar. „Hann var gríðarlega erfiður en ég gafst ekki upp, þreytti hann endalaust og var loksins að ná honum upp að bakkanum. Þá horfði hann á mig og glennti upp ginið. Það var eins og að horfa upp í krókódíl! Á einu augabragði kom frost. Svo sleit hann sig af.“

Við biðjum Guð að blessa minningu Eyþórs og vottum ástvinum hans samúð okkar.

Guðni Einarsson,

Ragnar Axelsson.