Áhöfn Karlarnir á brúnni í siglingunni til Grindavíkur. Frá vinstri talið eru Vilbergur Magni Óskarsson skipherra, Sigurður Ásgrímsson, Alfreð Halldórsson, Kristinn Halldórsson, Egill Þórðarson og Sigurður Jónsson.
Áhöfn Karlarnir á brúnni í siglingunni til Grindavíkur. Frá vinstri talið eru Vilbergur Magni Óskarsson skipherra, Sigurður Ásgrímsson, Alfreð Halldórsson, Kristinn Halldórsson, Egill Þórðarson og Sigurður Jónsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Fjölmenni var á bryggjunni í Grindavík á laugardaginn þegar gamla varðskipið Óðinn kom þangað inn eftir siglingu frá Reykjavík.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fjölmenni var á bryggjunni í Grindavík á laugardaginn þegar gamla varðskipið Óðinn kom þangað inn eftir siglingu frá Reykjavík. Frá 2006 hefur skipið legið við bryggju og mörg undanfarin ár verið hluti af sýningu Sjóminjasafnsins við Grandagarð. Jafnhliða því hafa hollvinir Óðins, sem flestir hverjir voru fyrr á tíð í áhöfn skipsins, unnið að margvíslegum endurbótum á skipinu og gert því til góða í því skyni að því mætti sigla á ný. Þar þurfti margt að gera til að uppfylla ítarlegar kröfur Samgöngustofu svo gefa mætti út haffærnisskírteini fyrir Óðin sem safnskip. Sá stimpill fékkst nýlega og þá mátti sigla skipinu, en nokkuð er síðan Grindvíkingar óskuðu heimsóknar þess um sjómannadagshelgina.

Frá Sjöbaujunni stefnt að Garðskaga

Í áhöfn Óðins var valinn maður á hverjum pósti þegar Óðinn lét úr höfn og sigldi út Sundin eldsnemma á laugardagsmorgun. Sól sindraði á sjó og bárur kysstu skipið, blítt og létt. Gangur véla skipsins var þýður, hvar það sigldi á um 13 mílna hraða við Sjöbaujuna við Akurey, en þar nokkru utar var stefnan sett á Garðskaga. Í brú stóðu nokkrir af þeim aukamönnum sem fengu að fljóta með, þeirra á meðal Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

„Skipið virkar vel og er í fínu lagi,“ sagði Vilbergur Magni Óskarsson skipherra í ferðinni. Hann er kennari við Skipstjórnarskólann en var áður á varðskipunum og þá stundum skipherra á Óðini í afleysingum. Skipið, sem var smíðað árið 1960, þekkir hann því vel. „Á síðustu árum hefur verið sett afar mikil vinna í að koma Óðni aftur í gang og í siglingarhæft stand. Þar hefur tekist vel til; skipið er í eðli sínu kvikt og lifandi og skilar mér alveg sömu tilfinningu nú og ég hafði fyrir því fyrr á árum.“

Á síðustu mánuðum hefur starfað svonefnd haffærnisnefnd, en fulltrúar í henni hafa skipulagt þær endurbætur og viðgerðir á Óðni sem þurfti, svo kröfur nýrrar reglugerðar um safnskip væru uppfylltar. Þær miðast meðal annars við að skipinu sé aðeins siglt yfir sumartímann og með takmarkaðan fjölda fólks um borð í hverri ferð. Í þessari nefnd eru Magni, Ingólfur Kristmundsson, yfirvélstjóri skipsins, og svo formaðurinn Egill Þórðarson, fyrrverandi loftskeytamaður og varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslu.

Sigldi inn Járngerðarstaðasundið

„Með viðgerðum og nýju haffærnisskírteini er Óðinn fær í flestan sjó,“ segir Egill Þórðarson. „Héðan í frá vænti ég að við getum á sumrin heimsótt hafnir landsins, eftir því sem óskað verður hverju sinni. Ég sé fyrir mér að þetta gæti verið kannski ein ferð árlega; skipið verður áfram svona að mestu leyti við bryggju á Grandagarði og hluti af Sjóminjasafninu. Að geta farið í siglingar nú er hins vegar frábær bónus. Mannskapurinn sem unnið hefur að þessum endurbótum hefur nú öðlast hlutverk sem áhöfn á skipi. Slíkt er mjög skemmtilegt.“

Sigling Óðins til Grindavíkur tók um sex klukkustundir, að meðtöldu stoppi úti fyrir Stafnesi þegar þyrla frá Landhelgisgæslunni kom á svæðið. Mönnum úr áhöfn þyrlunnar sem og sjúkrabörum var rennt niður á þilfarið og nokkrar slíkar æfingar teknar. Svo var haldið áfram að Grindavík, þar sem Páll Jónsson GK 7 og Sighvatur GK 57 , línubátar Vísis hf., með fólk í skemmtisiglingu komu til móts við fánum prýddan Óðin. Safnskipið sigldi svo inn Járngerðarstaðasund og að bryggju. Þar var efnt til móttöku þar sem nýju ljósmastri á framstefni Óðins var veitt viðtaka.

Margir um borð í Grindavík

Mastrið, sem áður hefur verið sagt frá í Morgunblaðinu, var gjöf forsvarsmanna Mirai-skipasmíðastöðvarinnar í Kesennuma í Japan til Hollvinasamtaka Óðins. Egill Þórðarson hefur tengsl við stjórnendur Mirai sem vildu þakka Íslendingum liðsinni í kjölfar jarðskjálfta og flóða í NA-hluta Japans í mars 2011. Skipinu var svo siglt aftur til Reykjavíkur á laugardagskvöld, þá eftir nokkurra klukkustunda stopp í Grindavík þar sem margir komu til að skoða skipið – og safn.

Happafley sem hefur hlutverk

„Þessi sigling verður eftirminnileg,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Sem sagnfræðingur gaf hann sig gjarnan að rannsóknum og skrifum um fiskveiðilögsögu Íslendinga. Hefur jafnhliða störfum forseta áfram sinnt því og 1. september nk. er væntanleg bók eftir Guðna um sögu landhelgismálsins á árunum 1961-1971. Þá þurfti að eltast við landhelgisbrjóta og kom Óðinn þá gjarnan við sögu. Umræddan dag er liðin slétt hálf öld frá því að fiskveiðilögsaga Íslendinga var færð út í 50 sjómílur. Því fylgdu hörð átök – þorskastríð – þar sem Óðinn stóð í ströngu.

„Óðinn var og er happafley. Ég dáist að þrautseigju þeirra dugnaðarforka í Hollvinasamtökum Óðins sem unnið hafa að viðgerðum og viðhaldi á skipinu og varið hafa þúsundum vinnustunda í verkefnið. Atbeini þeirra er ómetanlegur. Saga Óðins og landhelgismálsins er í raun þjóðarinnar allrar. Henni megum við halda á lofti, með stolti en án alls drambs og heimóttarskapar. Þó Óðinn hafi klofið ölduna til Grindavíkur er hann núna safnskip, fleyta í nausti við Sjóminjasafnið góða í Reykjavík. Þegar ég kenndi sögu við Háskóla Íslands fór ég gjarnan með nemendur þangað, sem gátu þá fræðst um þessa sögu og hlustað á frásagnir fyrrverandi starfsmanna Gæslunnar. Ár hvert fer fjöldi gesta um borð og nýtur þess. Óðinn gegnir því áfram mikilvægu hlutverki.“