Elín Björg Guðjónsdóttir fæddist 17. ágúst 1970. Hún lést 12. maí 2022.

Útför Elínar Bjargar fór fram 30. maí 2022.

Við vorum svo heppnar að kynnast elsku Ellu í íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni haustið 1990. Strax þar urðum við vinkonur og smullum einhvern veginn svo vel saman. Svona áreynslulaus og endalaust skemmtileg samvera, þar sem við brölluðum allt mögulegt. Eróbikk, dans, sund, dans, heiti potturinn, dans, pítsa, dans dans dans og stuð. Eftir tveggja ára skólagöngu héldum við þrjár miklum vinskap og seinna þegar við höfðum stofnað fjölskyldur hélst þessi vinskapur og dýpkaði. Í upphafi var mikið djammað og dansað, farið í skemmtiferðir og umfram allt haft gaman saman. Seinna hittumst við með krakkana og áttum saman ógleymanlegar stundir. Ella var jarðtengingin okkar fiðrildanna og hafði þessa róandi, yndislegu nærveru, sem ýtti henni út í að læra jóga. Hún nýtti sér jógað og hugleiðslu vel til að takast á við verkefni lífsins. Hún var stundum fullvarkár að okkar mati og lá ekki lífið á í búningsklefanum, en það var bara hún. Það þýðir ekki að það hafi verið einhver lognmolla í kringum hana. Oftar en ekki var hún hrókur alls fagnaðar og kom okkur öllum í hláturskast sem entist þar til við vorum allar komnar með illt í magann. Nýlega fórum við saman á uppistand og Ella var í svo miklu hláturskasti að uppistandarinn spurði hvort við værum með hana í liðveislu. Hún hafði þennan smitandi hlátur sem fáir geta toppað. Hvað við eigum eftir að sakna þess að heyra hann. Hver hefði trúað því að þegar við vorum saman á gönguskíðum í Ólafsfirði í febrúar væri það síðasta skiptið sem við þrjár hittumst í þessari jarðvist. Ella lék á als oddi, klæddi sig upp í ABBA-dress til að syngja fyrir Magga á fimmtugsafmælinu og fór með okkur á fyrrnefnt uppistand. Alla leiðina norður í bílnum söng hún á spænsku, en hún var mikil tungumálamanneskja og var að læra ítölsku, en Ítalía var í miklu uppáhaldi hjá henni. Stórt skarð er höggvið í þríeykið okkar, þar sem við kölluðum okkur Ellu gellu, Mæju pæju og Stínu stuð. Efst í huga okkar er þakklæti fyrir að hafa átt hana fyrir vinkonu, að hafa deilt með henni hæðum og lægðum, hlátri og gráti, rólegheitum og hasar. Upp úr mun alltaf standa hláturinn hennar smitandi og einlægur áhugi á því sem við vorum að stússast í hverju sinni.

Elsku Guðjón Ari, Eva Björg, Óli, Bára Björg og Raggi. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Skarð Ellu verður ekki fyllt, en minningin um frábæra konu mun fylgja okkur um ókomna tíð.

María (Mæja), Kristín, Magnús (Maggi), Jón (Nonni) og börn.