[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dætur Íslands Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Í fjórða þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnukonuna Dagnýju Brynjarsdóttur en hún er samningsbundin West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Dætur Íslands

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Í fjórða þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnukonuna Dagnýju Brynjarsdóttur en hún er samningsbundin West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Dagný, sem er þrítug, gekk til liðs við West Ham í janúar á síðasta ári en hún skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við enska félagið á dögunum.

Hún er uppalin á Hellu og steig sín fyrstu skref á knattspyrnuvellinum með Knattspyrnufélagi Rangæinga, KFR, en hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með sameiginlegu liði KFR og Ægis í 1. deildinni árið 2006, þá 14 ára gömul.

Dagný gekk til liðs við Val þegar tímabilinu 2006 lauk en hún lék með Val í sjö tímabil, frá 2007 til 2013, og varð fjórum sinnum Íslandsmeistari á Hlíðarenda og þrívegis bikarmeistari.

Hún gekk svo til liðs við Selfoss árið 2014 og lék með liðinu í tvö tímabil en hún fór alla leið í úrslit bikarkeppninnar með Selfyssingum árið 2015 þar sem liðið tapaði 1:2 gegn Stjörnunni í úrslitaleik á Laugardalsvelli.

Alls á Dagný að baki 118 leiki í efstu deild með Selfossi og Val þar sem hún hefur skorað 44 mörk.

Dagný gekk til liðs við þýska stórliðið Bayern München í janúar 2015, á miðju tímabili, og lék með liðinu út keppnistímabilið en hún varð Þýskalandsmeistari með liðinu síðar um vorið.

Mikil tilhlökkun fyrir EM

Árið 2016 lék hún svo með Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni en hún lék með Portland til ársins 2019. Hún varð bandarískur meistari með liðinu árið 2017 og deildarmeistari árið 2016.

Hún lék svo með Selfossi í úrvalsdeildinni tímabilið 2020 áður en hún hélt aftur út í atvinnumennsku.

Dagný á að baki 101 A-landsleik fyrir íslenska kvennalandsliðið þar sem hún hefur skorað 34 mörk. Hún lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Bandaríkjunum í febrúar 2010, þá 18 ára gömul.

Hún er gift Ómari Páli Sigurbjartssyni en þau gengu í það heilaga árið 2019. Þau eignuðust sitt fyrsta barn saman árið 2018, soninn Brynjar Atla, en Dagný og Ómar hafa verið saman frá árinu 2007.

„EM leggst mjög vel í mig,“ sagði Dagný þættinum.

„Við erum allar búnar að þroskast mikið síðan lokakeppnin fór fram í Hollandi fyrir fimm árum.

Við erum líka betri leikmenn í dag en þá og ég hlakka mikið til að fara á annað stórmót,“ sagði Dagný meðal annars.