Vandi Christine Lagarde á blaðamannafundi SBE. Stjórnvöld í álfunni vilja afstýra því að ávöxtunarkrafa skuldabréfa skuldsettustu ríkjanna rjúki upp.
Vandi Christine Lagarde á blaðamannafundi SBE. Stjórnvöld í álfunni vilja afstýra því að ávöxtunarkrafa skuldabréfa skuldsettustu ríkjanna rjúki upp. — John Thys/AFP
Yfirvofandi stýrvaxtahækkun á evrusvæðinu skaut fjárfestum skelk í bringu á föstudag og varð til þess að þeir seldu frá sér ítölsk og grísk ríkisskuldabréf.

Yfirvofandi stýrvaxtahækkun á evrusvæðinu skaut fjárfestum skelk í bringu á föstudag og varð til þess að þeir seldu frá sér ítölsk og grísk ríkisskuldabréf. Óttast markaðurinn að hækkun stýrivaxta gæti gert skuldsettustu ríkjum Evrópu erfiðara að standa í skilum við lánveitendur.

Hækkaði ávöxtunarkrafa grískra 10 ára skuldabréfa upp í 4,28% en ítalskra ríkisskuldabréfa upp í 3,75% á föstudag og greinir FT frá að ávöxtunarkrafa þeirra hafi ekki verið hærri í tvö ár.

Ávöxtunarkrafa spænskra og portúgalskra ríkisskuldabréfa hækkaði sömuleiðis og þá lækkaði hlutabréfaverð evópskra banka sem margir eiga stórt safn ríkisskuldabréfa. Lækkaði ítalska MIB-vísitalan um 5% á föstudag og skrifaðist það einkum á þróun hlutabréfaverðs ítalskra banka en UniCredit lækkaði um 9% og Intesa Sao Paolo um 7,6%.

Lagarde vill viðhalda jafnvægi

Stjórnendur seðlabanka Evrópu (SBE) upplýstu á fimmtudag að bankinn myndi senn láta af inngripum sínum á skuldabréfamarkaði og að í næsta mánuði verði stýrivextir hækkaðir í fyrsta skipti frá árinu 2011. Þá gaf bankinn til kynna að frekari vaxtahækkana sé von síðar á þessu ári.

Christine Lagarde, seðlabankastjóri Evrópu, sagði á fimmtudag að bankinn gæti kynnt til sögunnar nýtt úrræði til að koma í veg fyrir mikla hækkun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa einstakra ríkja á evrusvæðinu en á föstudag fór munurinn á ávöxtunarkröfu ítalskra og þýskra 10 ára ríkisskuldabréfa á tímabili upp í 2,27%. ai@mbl.is