Reynisfjara Ráðherra bíður eftir skýrslu starfshóps um lokanir á fjölsóttum ferðamannastöðum á borð við Reynisfjöru. Þar lést erlendur ferðamaður á föstudag þegar alda hreif hann með sér. Ráðherra telur öryggi ábótavant.
Reynisfjara Ráðherra bíður eftir skýrslu starfshóps um lokanir á fjölsóttum ferðamannastöðum á borð við Reynisfjöru. Þar lést erlendur ferðamaður á föstudag þegar alda hreif hann með sér. Ráðherra telur öryggi ábótavant. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, einn landeigenda að Reynisfjöru, hefur beitt sér fyrir því að Ferðamálastofa haldi áfram samráði við landeigendur að Reynisfjöru og að öryggismál á svæðinu verði bætt enda séu slysin of algeng. Hins vegar hægði nokkuð á þeim viðræðum eftir að andstöðu gætti á meðal nokkurra landeigenda sem hafa hagsmuna að gæta vegna veitingareksturs á svæðinu. „Við erum langflest sammála um að það ætti að loka fjörunni ef ástæða er til, eða hefta aðgengi að einhverju leyti,“ segir Ragnhildur. Hún telur mikilvægt að gripið verði til öryggisráðstafana á svæðinu og að landeigendur séu mun opnari nú en áður fyrir viðræðum um síkt en frumkvæði af hálfu stjórnvalda virðist hafa skort.

Ferðamálastjóri telur ekki einfalt að loka stöðum

Tillögur að öryggisúrbótum á svæðinu lágu fyrir fyrir rúmum tveimur árum. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að tryggt hafi verið fjármagn fyrir þeim en liggja þurfti fyrir samþykki allra landeigenda. Það fékkst ekki. Vinnuhópur á vegum þáverandi ferðamálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttir, hafði lagt til að setja upp viðvörunarfána og blikkljós sem gefa ljósmerki þegar mest brimar í fjörunni.

Skarphéðinn segir að þó séu lagaheimildir til staðar til þess að loka hættulegum stöðum og þarf þá ekki samþykki landeigenda. „Við höfum verið að skoða við hvaða aðstæður á að loka en þá vakna ýmsar spurningar. Miðast lokunin við tiltekið gildi í mælingu? Hvenær á að loka, ef það á ekki alltaf að vera lokað? Á þá alltaf að loka fjörunni þegar hún er hættuleg og hver tekur þá ákvörðun um að loka? Síðan er þetta ekki eini áfangastaður ferðamanna sem er hættulegur við einhverjar kringumstæður, þeir eru margir og út um allt land,“ segir Skarphéðinn.

Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, er tilbúin í að nota þær lagaheimildir sem eru til staðar til þess að loka ferðamannastöðum á borð við Reynisfjöru. Hún harmar dauðsfall sem þar varð á föstudag þegar alda hreif með sér ferðamann og segir Lilja slysin of mörg.

Jafnframt segir Lilja það hafa verið eitt af sínum fyrstu verkum að skipa starfshóp sem kannar nú hvenær hægt er að beita þeim heimildum sem eru til staðar til að loka hættulegum ferðamannastöðum. „Þetta er ekki gott. Öryggismálin eiga ávallt að vera í forgangi,“ segir hún. Spurð hvort réttlætanlegt sé að lokunum sé beitt á sumum stöðum frekar en öðrum segir hún: „Við sjáum hvar þessi banaslys eru að eiga sér stað og það er í Reynisfjöru.“ Tók starfshópurinn til starfa í byrjun árs og var þá ráðgert að hann myndi skila af sér skýrslu innan þriggja mánaða. „Ég á von á því að starfshópurinn skili af sér rétt fyrir sumarleyfi eða eftir sumarleyfi,“ segir hún.

Sem ráðherra málaflokksins horfir Lilja til heildarhagsmuna ferðaþjónustunnar og telur hún mikilvægt að horfa til orðsporsáhættu, sem fylgir slysunum. „Við eigum að hámarka ánægju fólk sem heimsækir landið okkar og tryggja að fólk upplifi sig öruggt.“ Mun starfshópurinn hafa samráð við hagaðila, skilgreina eftir því sem kostur er hvaða staðir geti ógnað öryggi fólks umfram aðra og hvernig slíkum heimildum sé beitt. Í hópnum sitja fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, Ferðamálastofu, ríkislögreglustjóra, Samtökum ferðaþjónustunnar, Umhverfisstofnun og Landsbjörg, auk fulltrúa úr viðskipta- og menningarmálaráðuneyti.