Sigurgeir Jónasson
Sigurgeir Jónasson
Eftir Sigurgeir Jónasson: "Að gefa leigubílaakstur frjálsan er því bráðsnjöll leið til þess að sækja ný atkvæði og aukið fylgi."

„Við getum ekki gefið leigubílamarkaðinn frjálsan því að þá missum við atkvæði frá leigubílstjórunum!“ segir stjórnmálamaðurinn. En þetta er skammsýni. Þeir stjórnmálamenn sem hugsa svona sjá ekki skóginn fyrir trjánum, eða réttara sagt – sjá bara leigubílana en ekki raðirnar af fólkinu sem bíður eftir leigubílunum.

Þegar leigubílaraðir myndast er það vegna þess að fleiri vilja ferðast með leigubíl en ríkisregluvædda leigubílakerfið nær að anna. Með öðrum orðum þá er töluvert fleira fólk að bíða eftir leigubílum en að aka leigubílum.

Með hóflegri ágiskun má segja að fyrir hvert „atkvæði“ sem starfar sem leigubílstjóri séu að minnsta kosti fimm „atkvæði“ að bíða eftir leigubíl. Ef til vill er raunverulegt hlutfall nær því að vera fimmtán á móti einum. Á þessu má sjá að það eru miklu fleiri „atkvæði“ á eftirspurnarhliðinni (farþegar) en framboðshliðinni (leigubílstjórar) þannig að fyrir stjórnmálamanninn er miklu meira þangað að sækja.

Ef stjórnmálamaðurinn myndi breyta rétt og gefa leigubílamarkaðinn frjálsan myndi hann ekki einungis fá atkvæði fjölmargra ánægðra farþega, heldur einnig atkvæði fjölmargra nýrra leigubílstjóra.

Eflaust myndi stjórnmálamaðurinn missa, að minnsta kosti tímabundið, nokkur atkvæði núverandi handhafa ríkisúthlutaðra leigubílaleyfa. En stjórnmálamaðurinn þarf þó ekkert að óttast, því að fjöldi ánægðra farþega og nýrra ökumanna er margfalt fleiri atkvæði. Að gefa leigubílaakstur frjálsan er því bráðsnjöll leið til þess að sækja ný atkvæði og aukið fylgi.

Höfundur er hagfræðingur. sigurgeir95@gmail.com