Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki hafi ekki brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna að lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði þar sem brugðist hafi verið við kvörtunum starfsmanns fyrirtækisins með...

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki hafi ekki brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna að lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði þar sem brugðist hafi verið við kvörtunum starfsmanns fyrirtækisins með málefnalegum hætti.

Um er að ræða fyrirtæki sem rekur fataverslanir. Kona, sem starfar hjá fyrirtækinu, sendi kæru til kærunefndarinnar og kvaðst hafa orðið fyrir endurtekinni kynbundinni og kynferðislegri áreitni og áreitni vegna trúarskoðana í starfi af hálfu yfirmanns síns frá því að hún hóf þar störf í september 2018.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins boðaði konuna á sinn fund til þess að ræða málin og þar upplýsti hún um meinta áreitni í sinn garð. Framkvæmdastjórinn tók lýsingar konunnar alvarlega. Hann ráðfærði sig við VR og Vinnueftirlitið til að fá leiðbeiningar og aðstoð við úrlausn málsins og ræddi við yfirmanninn, sem hafnaði ásökununum eindregið.

Í kjölfarið stakk frmkvæmdastjórinn upp á því við báða aðila að hann myndi funda með þeim í þeim tilgangi að reyna að finna lausn á því ósætti sem virtist vera uppi. Konan féllst á það en dró síðan samþykki sitt fyrir slíkum fundi til baka í tölvuskeyti og lýst því yfir að hún myndi setja fram kvörtun vegna framferðis samstarfsmannsins. Framkvæmdastjórinn ákvað hins vegar að konan og yfirmaður hennar skyldu ekki sinna starfsskyldum sínum á sömu starfsstöðinni.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála var að fyrirtækið hefði brugðist við með málefnalegum hætti og því hvorki brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna né lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Kærunefndin áréttar í úrskurðinum að samkvæmt lögum skuli atvinnurekandi gæta þess að starfsfólk verði ekki beitt órétti í starfi á grundvelli þess að hafa kært eða veitt upplýsingar um kynbundna eða kynferðislega áreitni. Að sama skapi sé atvinnurekanda óheimilt að segja starfsmönnum upp störfum sökum þess að þeir hafi kvartað undan eða kært mismunun og honum beri að gæta þess að starfsmenn verði ekki látnir gjalda þess í starfi að kvartað hafi verið undan eða kærð mismunun eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna.