Á draumastaðnum Mateusz Jakubek fyrir utan Wharton í Bandaríkjunum.
Á draumastaðnum Mateusz Jakubek fyrir utan Wharton í Bandaríkjunum.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Síðsumars byrjar Mateusz Piotr Jakubek nám í Wharton, viðskiptaskóla Pennsylvaníuháskólans í Bandaríkjunum, og er hann fyrsti Íslendingurinn um árabil til að fá inngöngu í skólann. Hann var á stafrænni viðskiptalínu á viðskiptabraut í Verzlunarskóla Íslands og brautskráðist sem stúdent með 9,4 í meðaleinkunn á dögunum. „Ég ætla að leggja áherslu á eignastýringu, fjárfestingarbankastarfsemi og mögulega viðskiptalögfræði,“ segir hann.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Síðsumars byrjar Mateusz Piotr Jakubek nám í Wharton, viðskiptaskóla Pennsylvaníuháskólans í Bandaríkjunum, og er hann fyrsti Íslendingurinn um árabil til að fá inngöngu í skólann. Hann var á stafrænni viðskiptalínu á viðskiptabraut í Verzlunarskóla Íslands og brautskráðist sem stúdent með 9,4 í meðaleinkunn á dögunum. „Ég ætla að leggja áherslu á eignastýringu, fjárfestingarbankastarfsemi og mögulega viðskiptalögfræði,“ segir hann.

Wharton er talinn einn virtasti viðskiptaháskóli heims og ekki hlaupið að því að fá inngöngu. Mateusz bendir á að 55.000 umsóknir hafi borist og aðeins 4,4% verið boðin skólavist, en á meðal útskriftarnema má nefna Elon Musk, Warren Buffett og Donald Trump. Þegar Mateusz var á fyrsta ári í VÍ áttaði hann sig á mikilvægi skólans og segist þá hafa tekið stefnuna á að verða þar nemandi.

„Wharton varð draumaháskólinn minn og ég gerði allt sem ég gat, bæði innan Versló og utan, til að komast inn í hann.“

Drifkraftur frá foreldrunum

Mateusz fæddist á Íslandi en foreldrar hans fluttu hingað með tvær hendur tómar frá litlum bæ skammt frá Gdansk í Póllandi. Þau reka pólsku nýlendu- og matvöruverslanirnar Mini Market en þar hefur Mateusz ásamt bróður sínum oft aðstoðað foreldra sína eftir skóla og um helgar.

„Þegar ég var krakki fylgdist ég með pabba í búðinni, hvernig hann vann stanslaust og spjallaði við viðskiptavini sína líkt og við fjölskyldumeðlimi. Þessi mikli drifkraftur foreldra minna hefur örugglega haft áhrif á mig og hvatt mig áfram í starfi sem og námi, þaðan fékk ég áhuga á viðskiptum,“ segir Mateusz.

Undanfarin ár hefur hann unnið með náminu hjá ýmsum fyrirtækjum, eins og til dæmis hjá greiningarfyrirtækinu Jakobsson Capital, nýbankanum Indó og Kontakt fyrirtækjaráðgjöf. Hann segir að til þess að kynnast viðskiptalífinu enn frekar hafi hann gefið sig fram í stjórn félaga og sé meðal annars í stjórn félagsins Ungra fjárfesta og Rafmyntaráðs Íslands. Þá eigi hann og reki sína eigin netverslun sem sérhæfi sig í innflutningi á þekktum pólskum merkjavörum. „Líf mitt hefur alfarið snúist um viðskipti undanfarin ár og námið í Wharton er eðlilegt framhald.“ Áður en hann einbeitti sér alfarið að öllu sem viðkemur viðskiptum og viðskiptafræði var hann í íþróttum, spilaði fótbolta með Breiðabliki í tíu ár, æfði box og skák.

Fimm virtustu viðskiptaháskólar í Bandaríkjunum buðu Mateusz skólavist og í páskafríinu í apríl fór hann með föður sínum vestur um haf til þess að kynna sér þá betur. „Þetta eru mjög flottir skólar og upplifunin var ótrúleg, eins og í kvikmynd. Ég valdi Wharton enda hefur skólinn alltaf verið draumaskólinn minn og er talinn besti viðskiptaháskóli í heimi.“

Lokamarkmið Mateusz, sem á 19 ára afmæli í dag, er að stofna eigið alþjóðlegt fyrirtæki. Hann segir að fyrirtæki á Wall Street í New York sækist eftir útskrifuðum nemendum frá Wharton sem og bandarískir bankar og önnur stórfyrirtæki. „Mig hefur alltaf langað að stofna mitt eigið fyrirtæki en fyrst hef ég hug á að prófa að vinna í einhverju flottu fyrirtæki, hvort sem það er á Íslandi eða í Ameríku, áður en ég fer mínar eigin leiðir.“