[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Jóhanna og Einar Birnir fagna 70 ára brúðkaupsafmæli í dag, 14. júní 2022 en þau giftu sig á þessum degi í Lágafellskirkju í Mosfellssveit árið 1952. Jóhanna Ingimundardóttir er fædd 15.2.

Hjónin Jóhanna og Einar Birnir fagna 70 ára brúðkaupsafmæli í dag, 14. júní 2022 en þau giftu sig á þessum degi í Lágafellskirkju í Mosfellssveit árið 1952.

Jóhanna Ingimundardóttir er fædd 15.2. 1930 á Hellissandi, dóttir hjónanna Magnfríðar Sigurlínadóttur og Ingimundar Guðmundssonar sjómanns, sem urðu, sjúkdóma vegna, að sjá af dóttur sinni í fóstur árið 1937 til öndvegishjónanna Þórunnar Guðmundsdóttur húsmóður og Kristjáns C. Jónssonar verkamanns í Reykjavík, en þau urðu fósturforeldrar Jóhönnu.

Einar Birnir er fæddur 30.9. 1930, sonur hjónanna Bryndísar Einarsdóttur Birnir og Björns Birnir, bænda að Grafarholti í Mosfellssveit. Sagan segir að Einar hafi aðeins verið nokkurra mánaða gamall þegar afi hans Björn setti hann fyrst á hestbak. En hestamennskan hefur verið Einari ástríðuáhugamál alla tíð.

Leiðir Jóhönnu og Einars lágu saman í vesturbæ Reykjavíkur árið 1949 og sagan þeirra er skrifuð í stjörnurnar. Þau búa nú að Árskógum 6 í Reykjavík.

Í upphafi var hestamennska eitt af sameiginlegum áhugamálum þeirra en eftir því sem börnunum fjölgaði varð minni tími hjá Jóhönnu er hún sinnti börnum og stóru heimili. Hún lærði snemma að njóta kveðskapar og listar og hefur síðustu ár verið öflug í tréútskurði.

Einar vann hjá Samvinnutryggingum, SÍS og síðast heildverslun G. Ólafssonar hf. og var eigandi þess fyrirtækis og formaður í Félagi stórkaupmanna.

Jóhanna og Einar eiga 6 börn og eru afkomendur orðnir 37 talsins og búa í öllum heimshornum. Þau hafa alla tíð notið þess að heimsækja börn sín og tóku lengst af virkan þátt í fjölskyldulífi á hverjum stað. Í seinni tíð er mest verið að njóta samvista og vera þakklát fyrir að halda sínu andlega atgervi við háan aldur.