Guðný Jóna Pálsdóttir fæddist 4. ágúst 1951.

Hún lést 18. maí 2022.

Guðný var jarðsungin 30. maí 2022.

Í dag kveð ég þig í bili elsku Guðný, móður mannsins míns og ömmu barnanna minna. Og kæra vinkonu.

Vinkonu sem alltaf tók á móti mér með gleði, stolti og hvatningarorðum.

Konu sem hlúði að mér sem barni í ævintýrum okkar Palla og Hildar, bauð okkur með í Skorradal og bauð mig velkomna heim þegar við Palli tókum saman sem fullorðin.

Þannig leið mér, eins og ég væri að koma heim. Formlegheitin voru ekkert fyrir okkur, aðalatriðið var að hafa gaman og njóta samvista. Og hlæja og grínast.

Þú varst sannarlega skemmtileg, skapandi og kærleiksrík amma. Og alltaf hvattirðu mig í öllu mínu veseni, verkefnum og brjálæðisgangi. Alger haukur í horni.

Ég þakka þér þetta allt elsku Guðný. Og þótt ég viðurkenni að sorg og söknuður sé yfirgnæfandi í dag heiti ég þér því að láta gleði og gaum fljótlega taka við að nýju, í þínum anda og þér til hyllingar. Ég veit nefnilega að við hittumst á ný. Þangað til mun ég hlúa að strákunum þínum og krökkunum okkar.

Gúddíbæ elsku uppáhaldstengdamamma. Uns við hittumst á ný.

Edda Lúvísa Blöndal.