Vinir Ennþá fyndnir?
Vinir Ennþá fyndnir?
Margir hafa gert kímnigáfu mannsins að rannsóknarefni enda heillandi sem slíkt. Það sem ömmu og afa þótti fyndið þykir líklega ekki fyndið í dag, nú eða mömmu og pabba.

Margir hafa gert kímnigáfu mannsins að rannsóknarefni enda heillandi sem slíkt. Það sem ömmu og afa þótti fyndið þykir líklega ekki fyndið í dag, nú eða mömmu og pabba. Spaug helst oftar en ekki í hendur við samfélagið og breytingar sem verða á því og í dag er spaug sem gerir lítið úr samkynhneigðum sem betur fer illa séð, svo dæmi sé tekið. Slíkt spaug má til dæmis sjá í nokkrum þátta Friends, eða Vina, sem mér finnst eldast heldur illa. Fleira má tína til úr þáttunum, t.d. ótrúlega viðkvæmni karlanna þriggja og ótta við að þykja kvenlegir og einnig grín á kostnað feitra.

Friends eru auðvitað ekki einu gamanþættirnir sem elst hafa illa að þessu leyti. Af öðrum má nefna Modern Family þar sem kólumbísk eiginkona er oftar en ekki lítillækkuð vegna uppruna síns og tungumálaörðugleika, fyrir utan auðvitað að eiga að vera svo kynæsandi að enginn karlmaður fær staðist hana, ekki einu sinni tengdasonur hennar. Kólumbía, samkvæmt þáttunum, er vanþróað land og stórhættulegt og eiturlyfjabarón í hverri fjölskyldu.

Sem betur fer hafa gamanþáttahöfundar orðið meðvitaðri um hvað telst viðeigandi og fyndið og hvað ekki. Öllu gamni fylgir nokkur alvara, er það ekki? Eða má gera grín að hverju sem er?

Helgi Snær Sigurðsson