Ingólfur Bruun
Ingólfur Bruun
Eftir Ingólf Bruun: "Spurt er hvort Íslendingar telji verjandi að halda stjórnmálasambandi við ríkisstjórn hrotta, stríðsglæpamanns og ótínds þjófs?"

Á þeim hundrað dögum (þegar þetta er skrifað) sem eru liðnir frá svívirðilegri innrás Vladimírs Pútíns í Úkraínu hefur komið í ljós hvernig hermenn hans hafa framið stríðsglæpi gagnvart almennum borgurum með því að skjóta og drepa þá óvopnaða. Slíkt gera ekki nema hrottar og flokkast það undir stríðsglæpi. Þar sem hermenn Pútíns fara um ræna þeir öllu steini léttara. Hér er orðið rán notað því rán samkvæmt íslenskum hegningarlögum er þegar einhverju er stolið með ofbeldi. Og því eru hermenn Pútíns heldur betur að beita, samanber dráp þeirra á óvopnuðum almennum borgurum. Hér skal nefnt sérstaklega rán Pútíns á korni, hveiti og stáli fyrir utan almennar eigur úkraínskra borgara.

Spurt er hvort Íslendingar telji verjandi að halda stjórnmálasambandi við ríkisstjórn hrotta, stríðsglæpamanns og ótínds þjófs? Ég segi nei, ekki í mínu nafni. Slítum þegar í stað stjórnmálasambandi við ríkisstjórn þjófsins, stríðsglæpamannsins og hrottans Vladimírs Pútíns! Þess er óskandi að almenningur í Rússlandi rísi upp og steypi honum af stóli. Ekki einasta hefur hann kallað hörmungar yfir þjóð sína heldur einnig yfir heiminn allan. Látum Pútín vita að stríðið í Úkraínu er ekki gleymt né heldur hrottaskapur hans, stríðsglæpir og rán.

Höfundur er leiðsögumaður.