Alicante Norðmaður liggur undir grun og framsalskröfu spænskra yfirvalda vegna meintrar nauðgunar í Alicante.
Alicante Norðmaður liggur undir grun og framsalskröfu spænskra yfirvalda vegna meintrar nauðgunar í Alicante. — Ljósmynd/Wikipedia
Spænsk lögregluyfirvöld krefjast þess að þau norsku framselji Spánverjum Norðmann sem grunaður er um nauðgun í húsbíl við höfnina í Alicante á Spáni haustið 2016.

Spænsk lögregluyfirvöld krefjast þess að þau norsku framselji Spánverjum Norðmann sem grunaður er um nauðgun í húsbíl við höfnina í Alicante á Spáni haustið 2016. Norðmaðurinn, sem er frá Þrændalögum, neitar sök og kveðst geta fært sönnur á að hann hafi verið í Noregi þegar meint nauðgun átti sér stað og undir það tekur norska lögreglan.

„Staðan er þannig hjá mér núna að ég er læstur inni í konungsríkinu Noregi,“ segir maðurinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK , „ég get hvergi farið á meðan ég hef þetta hangandi yfir mér,“ segir hann og vísar til þess að hann þorir ekki að yfirgefa Noreg af ótta við að verða handtekinn einhvers staðar en hann er eftirlýstur í ranni spænsku lögreglunnar.

Bendir hinn eftirlýsti á að hvort tveggja vinnutímaútskrift frá vinnustað hans og yfirlit bankans yfir kortanotkun hans sýni óyggjandi að hann var í Noregi. Hafi hann verið við störf kvöldið fyrir þann dag sem spænska lögreglan kveður nauðgunina hafa átt sér stað og einnig að morgni þess dags.

Hvorki flug né akstur tækt

Segir verjandi mannsins, Brynjar Meling, að miðað við framboð flugferða téðan dag sé hreinlega útilokað að grunaði hafi átt þess kost að komast frá Noregi til Spánar innan þess tímaramma sem spænska lögreglan gefur sér og akstur frá heimili mannsins í Noregi til Alicante taki 40 klukkustundir.

Þrándurinn er með þeim fyrstu sem sætir framsalskröfu eftir að nýr samningur Noregs og Evrópusambandsins um handtökutilskipanir tók gildi 1. nóvember 2019 og gerir norskum yfirvöldum kleift að framselja ríkisborgara sína til ríkja Evrópusambandsins án þess að norskur dómstóll prófi mál þeirra áður. Fyrir gildistöku samningsins framseldu norsk yfirvöld eigin ríkisborgara eingöngu til annarra norrænna ríkja.

Héraðssaksóknari Þrændalaga rannsakaði málið sem hér er til umræðu þar sem báðir aðilar málsins, grunaði og meint fórnarlamb, eru Norðmenn og lauk þeirri vinnu með því að embættið felldi málið niður. Lögmaður lögregluembættisins á staðnum, Ole Andreas Aftret, segir við NRK að ekki sé hægt að líta fram hjá tímalistunum frá vinnustað mannsins.

„Ég hef enga vitneskju um hugsanlegar frekari upplýsingar sem spænsk yfirvöld hafa undir höndum en út frá þeim sönnunargögnum sem norska lögreglan hefur kynnt sér leggjum við til grundvallar að sú skýring grunaða, að hann hafi ekki verið á Spáni þegar nauðgunin átti sér stað, standist skoðun,“ segir Aftret.

Norska ríkisútvarpið hefur hvorki haft erindi sem erfiði við að ná sambandi við spænska lögreglu né dómarann þar í landi sem ritar undir handtökuskipunina.

atlisteinn@mbl.is