Nokkur stórmál eru til afgreiðslu síðustu dagana fyrir sumarhlé þingsins. Þar ber hæst svonefnda rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða en gildandi áætlun er frá 2015.

Nokkur stórmál eru til afgreiðslu síðustu dagana fyrir sumarhlé þingsins. Þar ber hæst svonefnda rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða en gildandi áætlun er frá 2015. Ríkisstjórnin lagði fram óbreytta tillögu fyrr á árinu en ætlar nú á lokadögum þingsins að keyra í gegn umdeildar breytingar. Það verða seint talin lýðræðisleg vinnubrögð. Slíkar breytingar hefðu auðvitað átt að berast á fyrri stigum þegar tækifæri var til umræðu. Vinnubrögðin virðast því einkennast af pólitískum hagsmunum fyrst og fremst, með það markmið að koma í veg fyrir umræðuna.

Önnur ályktun væri sú að öll orkan hafi farið í hrossakaup um málið á milli stjórnarflokkanna og enginn tími hafi því verið eftir til að leita eftir viðameiri pólitískri sátt, hvað þá samfélagslegri. Það verk er enn óunnið.

Önnur stór áskorun sem ríkisstjórnin og þingið standa frammi fyrir snýr að hallarekstri ríkissjóðs. Þar er þörf á aðhaldi sem engin merki sjást um. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs hækki um tæpa 200 milljarða kr. á næstu fimm árum. Þensluhvetjandi fjármálastefna neyðir Seðlabankann til að hækka stýrivexti meira en ella til að ná tökum á okkar forna fjanda, verðbólgunni. Þannig hækkar vaxtakostnaður heimilanna vegna þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar vinna gegn markmiðum Seðlabankans. Þess utan má telja hverja krónu sem ríkisstjórnin ver í vaxtakostnað vegna viðvarandi skuldasöfnunar sem glataða fjárfestingu, glataða fjármuni sem hefðu getað farið í uppbyggingu sem myndi auka framleiðni og skapa hagvöxt.

Þessi staða er tilkomin vegna þess að rekstur ríkissjóðs var þegar í járnum fyrir heimsfaraldur með neikvæðri afkomu strax árið 2019. Í raun staðfestir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú er verið að afgreiða að það er ástæða viðvarandi skuldasöfnunar ríkisstjórnarinnar út kjörtímabilið. Undirliggjandi halli en ekki samdráttur vegna heimsfaraldursins. Það er vont að sjá ekki merki þess að ríkisstjórnin boði alvöru lausnir hér.

Umsagnir hagaðila og fjármálaráðs um áætlun ríkisstjórnarinnar eru harðorðar – og af góðri ástæðu. Ramminn um útgjöld hins opinbera er sama marki brenndur og ramminn í orkumálum. Tíminn er ekki nýttur til að vanda til verka heldur eru lögð fram ókláruð og óútfærð mál sem síðan eru uppfærð á ógnarhraða á lokametrunum.

Ábyrg efnahagsstjórn snýst um að gæta að tekjustofnum og útgjaldavexti hins opinbera. Að ýkja ekki hagsveiflurnar með því að missa sig í neyslufylleríi á uppgangstímum og skella öllu í lás í samdrætti. Ábyrgrar efnahagsstjórnar hefur verið sárlega saknað í tíð þessarar ríkisstjórnar og fjármálaáætlunin sem nú er afgreidd boðar engar breytingar á því.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is

Höf.: Hanna Katrín Friðriksson