[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að neytendavörumarkaður á heimsvísu fyrir afurðir úr plöntupróteinum geti tífaldast á næstu árum.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að neytendavörumarkaður á heimsvísu fyrir afurðir úr plöntupróteinum geti tífaldast á næstu árum. Í dag er markaðurinn sjö milljarðar evra að stærð en Árni segir að hann geti verið orðinn um 70 milljarðar evra árið 2030.

Til samanburðar eru markaðir fyrir kjúkling, kjöt og fisk, sem Marel hefur hingað til einbeitt sér að, samtals um 1.400 milljarðar að stærð, að sögn Árna.

„Við viljum vaxa með viðskiptavinum okkar. Laxaiðnaðurinn fór af stað af alvöru fyrir um 20 árum. Við þekktum t.a.m. vart sushi fyrir þann tíma. Markaðurinn hefur síðan þá vaxið um 11% á ári og við höfum vaxið með honum. Marel kom á hárréttum tíma inn á þann markað árið 2001 með yfirtökum á tveimur fyrirtækjum í Þýskalandi og hefur verið í miðju umbreytinga þess markaðar með nánd við viðskiptavini og stöðuga nýsköpun,“ segir Árni í samtali við Morgunblaðið.

Fjórða stoðin í rekstrinum

Marel tilkynnti í síðustu viku um frágang kaupa á bandaríska fjölskyldufyrirtækinu Wenger, leiðandi fyrirtæki í lausnum og þjónustu fyrir framleiðendur á matvælum fyrir gæludýr, fóðri fyrir fiskeldi og markaðsaðila sem eru að hasla sér völl á ört vaxandi neytendavörumarkaði með afurðir úr plöntupróteinum (e. plant-based protein).

Með kaupunum bætist fjórða stoðin við rekstur Marels á eftir lausnum fyrir kjöt-, kjúklinga- og fiskframleiðslu.

Heildarkaupverð Wenger er 540 milljónir Bandaríkjadala.

Spurður um stærð yfirtökunnar í samhengi við fyrri yfirtökur Marels, segir Árni að sé horft til veltu og starfsmannafjölda sé hún önnur til þriðja stærst. Stork-yfirtakan árið 2008 hafi verip stærst en Wenger og MPS árið 2016 séu svipaðar.

Fjölmörg félög hafa sameinast Marel og eru yfirtökurnar um 40 talsins á síðustu 40 árum, flestallt fjölskyldufyrirtæki. „Árlegur vöxtur félagsins frá skráningu á markað hefur verið yfir 20% sem er að tveimur þriðju hlutum frá yfirtökum og svo kröftugur 6% árlegur innri vöxtur,“ segir Árni.

Í samræmi við framtíðarsýn

Árni segir að yfirtakan á Wenger sé í samræmi við framtíðarsýn Marels sem kynnt var á aðalfundi árið 2016. Hún kveður á um að félagið ætli í samstarfi við viðskiptavini að umbreyta matvælavinnslu í heiminum. „Við ákváðum að horfa mjög mikið á hagkvæmni, sjálfbærni og öryggi matvæla í þeirri framtíðarsýn. Þannig að kaupin á Wenger eru rökrétt skref í þeirri vegferð. Við erum að fá til liðs við okkur félag sem er með mjög svipaða stefnu og fyrirtækjamenningu og Marel en Wenger leggur mikla áherslu á nálægð við sína viðskiptavini, djúpt samstarf og nýsköpun, líkt og við.“

Um það skref að bæta við fyrirtæki sem framleiðir lausnir fyrir afurðir úr plöntupróteinum segir Árni að sú grein sé að taka út sitt annað vaxtarskeið um þessar mundir. Iðngreinin hafi ekki orðið til fyrir alvöru fyrr en fyrir 6-7 árum. „Þegar ný iðngrein fæðist í matvælaiðnaði er það oft þannig að fólk þarf fyrst að kynnast nýrri afurð á veitingahúsum, líkt og gerðist í laxaiðnaði, en svo skilar hún sér inn í stórmarkaðina. Það hægðist á því ferli í faraldrinum þar sem fólk var meira og minna heima hjá sér. En í byrjun þessa árs fór greinin aftur að vaxa af krafti. Aukin heilsuvakning og sjálfbærni spila einnig inn í vöxtinn.“

IKEA skiptir í grænmeti

Árni Oddur nefnir sem dæmi að IKEA hafi sett sér það markmið að hinar frægu kjötbollur verslunarinnar verði í auknum mæli gerðar úr grænmeti. „Þau hafa sett sér markmið um að 40% af bollunum þeirra verði grænmetisbollur fyrir árið 2030. Það er mikil vitundarvakning í heiminum á þessu sviði en aðalatriðið er að hver og einn neytandi hafi valkost.“

Árni segir að það skipti Marel verulegu máli að búa yfir tækni sem styður við tækni Wenger. Hún snúist um að blanda saman næringarefnum, tryggja næringarinnihald og öryggi. „Þetta færist svo yfir í framleiðslulínur okkar sem upphaflega eru hannaðar fyrir kjúklinganagga, hamborgara og pylsur sem nýtast nú vel við gerð matvæla úr plöntupróteinum. Okkar vörur eru allar hannaðar til að viðhalda næringarinnihaldi í gegnum framleiðsluferli svo og hagkvæmni og sjálfbærni í rekstri með minni vatns- og orkunotkun. Svo erum við með ofna sem búa yfir stafrænni tækni til að tryggja að varan sé hæfilega hituð til að viðhalda gæðum.“

Eins og Árni útskýrir felst tækni Wenger m.a. í því að meðhöndla hráefnin með lágþrýstingi þannig að ekki tapist næringarefni í vinnslunni. „Við erum með tæknina sem tekur við í framleiðsluferlinu þar sem tækni Wenger sleppir.“

Vilja læra af hverri yfirtöku

Eitt af því sem Árni leggur áherslu á er að Marel læri af hverri yfirtöku, þannig hafi fyrirtækið hraðað þroskaferli sínu sem hefur leitt til þess t.a.m. að þjónustutekjur eru 40% heildartekna til samanburðar við 10% árið 2005. Einnig er mikil áhersla á að flytja þekkingu á milli innan fyrirtækis. Þannig sé til dæmis sú vara Marels fyrir kjúklingaiðnað sem selst best í dag fundin upp í fiskiðnaðinum, þ.e. SensorX.

Gæludýrin fengu meiri athygli

Hvað gæludýramarkaðinn varðar og þá viðbót við starfsemi Marels, segir Árni að fólk hafi farið að huga meira að gæðum gæludýrafóðurs þegar það eyddi meiri tíma heima með dýrunum sínum í faraldrinum. „Ef þú eykur gæðin ferðu ekki til baka,“ segir Árni um þá þróun. Einnig hafi netverslun með mat almennt aukist mikið, eða um og yfir 100% í Evrópu og Bandaríkjunum. Það eigi jafnt við um matvæli fyrir fólk og gæludýr. Með netverslun aukist vitundarvakning og krafa um gæði. „Við ætlum að styðja við vöxt Wenger á því sviði með fjárfestingu í aukinni framleiðslugetu og afköstum.“

Árni segir að góð samlegð geti verið með gæludýramarkaði og matvælamarkaði fyrir mannfólk og hægt sé að auka nýtingu hráefnis talsvert með því að framleiða fyrir báða markaði, t.d. með því að nýta afskurð í kjúklinga-, kjöt- og fiskmarkaði í gæludýrafóður.

Njóta góðs af X-faktorum

Árni segir að Wenger muni njóta góðs af „X-faktorum“ Marel, sem er hið útbreidda sölu- og þjónustunet um allan heim og stafrænar lausnir. „Wenger hefur t.d. verið að hugsa um það síðustu 10 ár hvernig það geti komist inn á gæludýramarkaðinn í Kína. Nú þarf ekki að hugsa meira um það. Við erum með alla grunngerð til staðar í landinu. Það sama má segja um vörur fyrir plöntuiðnað í Indlandi. Þar erum við með tilbúið sölu- og þjónustunet.“

Spurður um hvort Marel hafi gengið lengi á eftir Wenger segir Árni að hjá Wenger starfi nú þrjár kynslóðir sömu fjölskyldunnar, en félagið var upphaflega stofnað árið 1935. Hluthafar séu 70 talsins. Hann segir að á þeim tímapunkti í lífi fyrirtækja sé ekki óeðlilegt að menn fari að huga að breytingum og fá inn nýja kjölfestu í eigendahópinn. „Það kom fljótlega í ljós að það var mikil samlegð með menningu fyrirtækjanna og X-faktorum Marel. Það var enginn annar kaupandi með slíkt. Einnig veittum við Wenger aðgang að stjórnendum fjölskyldufyrirtækja sem við höfðum keypt í gegnum tíðina og leyfðum þeim að heyra þeirra reynslu af því að vinna með Marel. Það hjálpaði til.“

Árni vill að lokum minnast á að miklar breytingar hafi orðið í Marel frá 2005. Miklu meiri breidd sé komin í starfsemina. Til dæmis sé nú fullt kynjajafnrétti í framkvæmdastjórn, góð aldursdreifing og fjölbreytileiki í menntun. Hann segir að fyrirtækið hafi ofurtrú á að félagið verði að spegla samfélagið til að geta sett sig í spor neytandans. Neytandinn er sá sem öllu stjórni í raun og veru og því æðsti yfirmaður hverrar virðiskeðju.