Surtsey Gróskulegt gróðursamfélag hefur fest rætur á eynni sem varð til í eldgosi 1963-1967. Vísindamenn hafa fylgst með landnámi lífsins.
Surtsey Gróskulegt gróðursamfélag hefur fest rætur á eynni sem varð til í eldgosi 1963-1967. Vísindamenn hafa fylgst með landnámi lífsins. — Ljósmynd/Borgþór Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Surtsey er eins og gluggi að fortíðinni þar sem við sjáum hvernig Vestmannaeyjar mynduðust, urðu búsvæði fugla og greru upp,“ segir Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur. Hann á að baki fjölda ferða til Surtseyjar og þekkir vel til framvindu gróðurs þar. Borgþór er í hópi höfunda nýrrar greinar um framvindu gróðurs í Surtsey á árunum 2000-2018 (sjá fylgigrein).

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Surtsey er eins og gluggi að fortíðinni þar sem við sjáum hvernig Vestmannaeyjar mynduðust, urðu búsvæði fugla og greru upp,“ segir Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur. Hann á að baki fjölda ferða til Surtseyjar og þekkir vel til framvindu gróðurs þar. Borgþór er í hópi höfunda nýrrar greinar um framvindu gróðurs í Surtsey á árunum 2000-2018 (sjá fylgigrein).

„Í Vestmannaeyjum eru miklar sjófuglabyggðir. Fuglinn fer til hafs og nær sér í æti og ber í ungana. Svo dritar hann í klettunum og uppi á eyjunum þar sem eru bæði lundi og aðrir svartfuglar, fýll og mávar,“ sagði Borgþór. „Það er geysilega mikill áburður sem kemur frá fuglunum. Hann viðheldur þessari miklu grósku og frjósemi sem einkennir Vestmannaeyjar og fuglabyggðir í kringum landið.“ Þar sem þéttleiki sjófugla er mestur, eins og í súlubyggðum, brennir dritið gróðurinn. Þar sem þéttleikinn er minni nýtist áburðurinn gróðrinum.

„Á fyrstu árum Surtseyjar voru bersvæðin snauð að næringarefnum. Strandplöntur festu fyrst rætur þar, en þetta gekk hægt. Fræ þeirra eru stór og fremur forðarík. Þær geta bjargað sér í sendnu landi og nýta það sem sjórinn skolar upp,“ sagði Borgþór. Það litla sem fannst af plöntum uppi á eynni óx eiginlega ekki neitt fyrstu árin. Helst var það fjöruarfi sem óx á vikursléttunum.

Mikil aukning varð í varpi sílamávs, silfurmávs og svartbaks upp úr 1985 og þétt mávavarp myndaðist sunnan á Surtsey. „Það varð algjör sprenging hvað gróðurinn tók mikið við sér vegna áburðar frá fuglunum. Eins barst eitthvað af fræjum úr öðrum eyjum og ofan af landi með þeim. Fuglar hafa verið drýgstir í að bera fræ til Surtseyjar,“ sagði Borgþór.

Lundi er lykiltegund í úteyjum Vestmannaeyja og stærsti fuglastofninn þar. Hann hefur lítið látið að sér kveða í Surtsey. Lítils háttar lundavarp er í sjávarhömrum en hann er ekki farinn að verpa inni á eynni. Líklega er erfitt fyrir hann að grafa sér holur enda víða stutt niður á hraun eða móberg við brúnirnar.

Fýll fór að verpa í sjávarhömrum í eynni en þeir voru óstöðugir og brotnar af þeim á hverju ári. Þar festist því enginn gróður. Á seinni árum hafa myndast fýlavörp í gígum og hrauninu inni á eynni. Fýl hefur fjölgað þar. Landið þar er einnig að gróa upp, þökk sé áburði fýlanna. Gróður í Surtsey er á köflum kominn í svipað horf og í lundabyggðum Vestmannaeyja þar sem fuglinn ber stöðugt á.

Um 15 hektara gróðurlendi

Varpsvæði mávanna hefur breiðst út og gróðurþekjan í Surtsey stækkað með hverju ári. Hún er nú að nálgast 15 hektara (150.000 m 2 ) að flatarmáli. Borgþór segir að stöðugt brotni af Surtsey og því sé viðbúið að varpið muni færast inn á miðhluta eyjarinnar.

Gróðurþekjan er orðin töluvert þykk og ekki ólíkt að ganga á henni og á troðnum ullarbala, að sögn Borgþórs. Undir yfirborðinu er mikil sina og rótarmassi. Uppskeran jafnast á við það sem gerist á frjósamasta graslendi uppi á landi eða í Vestmannaeyjum.

Bjarni Diðrik Sigurðsson og nemendur hans við LBHÍ hafa sýnt fram á það með rannsóknum sínum að fuglarnir bera á sem samsvarar 50 kg af köfnunarefni á hvern hektara. Það er eins og hálfur túnskammtur af áburði. Ekkert af uppskerunni er fjarlægt heldur sölnar hún og rotnar með tímanum og styrkir þannig gróðurkerfið.

Rannsókn á gróðurfarinu

Fjallað er um kerfisgreiningu á plöntusamfélagi í mávavarpinu í Surtsey á árunum 2000-2018 í nýrri grein í vísindatímaritinu Ecology and Society .

Höfundar eru þau Hannah Schrenk og Wolfgang zu Castell við Helmholtz Zentrum-stofnunina í Þýskalandi, Borgþór Magnússon við Náttúrufræðistofnun Íslands og Bjarni Diðrik Sigurðsson við Landbúnaðarháskóla Íslands. Tengill á greinina er á heimasíðunni ni.is .

Greindar voru tvær aðlögunarlotur á rannsóknartímabilinu. Í þeirri fyrri breyttist gróður frá landnemagróðri í graslendissamfélag. Talsverðar breytingar urðu á gróðurfarinu eftir árið 2012 sem var óvenju þurrt í Surtsey.