Matthías Pétursson fæddist 22. ágúst 1926. Hann lést 21. maí 2022. Útför fór fram 7. júní 2022.

Matthías Pétursson var stofnfélagi í Stangaveiðifélagi Rangæinga sem stofnað var árið 1972 og var hann í mörg ár í stjórn félagsins og síðar endurskoðandi þess. Ég kynntist Matthíasi er ég tók sæti í stjórn félagsins árið 1980 og hafa leiðir okkar legið saman allar götur síðan í tengslum við stangaveiðifélagið. Matthías var traustur maður og ráðagóður og sjónarmið hans höfðu ávallt mikið vægi innan félagsins. Á þessum tíma var ákveðið að taka upp samskipti við þýska veiðifélagið Fischereiverein Niedersonthofener See í Allgäu, Bæjaralandi. Þau tengsl veiðifélaganna stóðu í aldarfjórðung og voru margar hópferðir farnar á heimaslóðir þýska félagsins á því tímabili. Matthías og Kristín eiginkona hans tóku þátt í tveimur þeirra, árið 1981 og 1990, og lifa enn skemmtilegar minningar úr þeim ferðum.

Samkvæmt lögum Stangaveiðifélags Rangæinga var tilgangur félagsins m.a. að bæta aðstöðu félagsmanna til stangveiða og stuðla að ræktun fiskistofns á veiðisvæðum þeim er félagið fengi til umráða. Gerður var leigusamningur við landeigendur um vatnasvæði Rangánna og ákveðið að gera tilraunir með laxaseiðasleppingar. Lítið var um lax í ánum en til staðar var sjóbirtingur og bleikja. Seiðasleppingar skiluðu sér ekki sem skyldi og kom í ljós að fullnægjandi uppeldisskilyrði fyrir lax voru ekki fyrir hendi.

Árið 1987 gerðu Stangaveiðifélag Rangæinga og eldisstöðin Búfiskur hf. samning við Veiðifélag Rangæinga um leigu á vatnasvæði Rangánna til fiskiræktar og stangaveiði. Gert var ráð fyrir að sleppt yrði miklu magni sjógönguseiða á samningstímabilinu. Þegar við vorum í Þýskalandsferðinni sumarið 1990 tóku að berast að heiman ótrúlegar tölur um laxveiði í Rangánum og þegar upp var staðið kom í ljós að rúmlega 1.600 laxar komu á land og Rangárnar urðu aflahæstu laxveiðiár landsins árið 1990. Þessi ævintýralegi árangur varð vegna þeirrar aðferðar sem beitt var við seiðasleppingar. Gönguseiði, sem alin voru í eldisstöð Búfisks hf., voru aðlöguð í tjörnum á mismunandi stöðum við árnar í nokkrar vikur fyrir sleppingu. Hér var því um að ræða sleppingu gönguseiða til hafbeitar og markar upphafið að þróun aðferðar með notkun sleppitjarna, sem hefur gert Rangárnar að fengsælustu laxveiðiám landsins. Matthíasi var umhugað um að því væri haldið til haga hverjir hefðu raunverulega verið frumkvöðlar þessarar aðferðar og hver hafi verið þáttur Stangaveiðifélags Rangæinga í því ræktunarstarfi. Tímabært er að sú saga verði skráð.

Að leiðarlokum þakka ég góð kynni og votta Kristínu, börnum þeirra og fjölskyldu allri dýpstu samúð.

Eggert Óskarsson.