Reynir Arngrímsson
Reynir Arngrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Reyni Arngrímsson og Þorbjörn Jónsson: "Fjárveitingar til Landspítala sem hlutfall af framlagi til heilbrigðismála lækkaði um 7%, úr 35% árið 2002 í 28% árið 2020 og þarf að leiðrétta"

Alvarleg staða á Landspítala hefur tæplega farið fram hjá landsmönnum. Læknar og læknaráð Landspítala hafa bent á aðsteðjandi vanda hvað varðar læknisþjónustu á landsbyggðinni, uppbyggingu heilsugæslunnar og hnignandi stöðu Landspítalans. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið úttektir og skýrslur unnar bæði af erlendum og innlendum aðilum. Almennt hafa þær sýnt afbragðsgóðan árangur í meðferð sjúkdóma sem þakka má vel menntuðum og samviskusömum starfsmönnum. Á hinn bóginn hafa fjármögnun og skipulag sætt gagnrýni á liðnum árum. Það er því forvitnilegt að skoða starfsemisupplýsingar og þróun fjárframlaga ríkisins til Landspítalans síðastliðna tvo áratugi eins og þær birtast í Starfsemisupplýsingum (ársuppgjöri) Landspítala fyrir árið 2021 sem nýlega voru birtar á heimasíðu hans.

Mikil starfsmannavelta

Þar kemur fram að heildarfjöldi starfsmanna var 5.911 á árinu 2021 og voru hjúkrunarfræðingar fjölmennastir eða 1.644. Starfsmannavelta í þeirra hópi var 11,3% og hjá læknum sem voru 699 var hún 10,2%. Sérstaka athygli vekur mjög há starfsmannavelta meðal sjúkraliða eða 18,4%, sálfræðinga 18,1%, sjúkraþjálfara 16,2%, félagsráðgjafa 29,3%, þroskaþjálfa 26,7% og iðjuþjálfa 21,5%. Hjá starfsmönnum í Sameyki og Eflingu var hún 23,9% og 28,4%. Fjöldi skráðra alvarlegra atvika/óhappa/slysa starfsmanna á vinnustað var 1.138 og þar af voru 378 atvik tengd ofbeldi. Þessar tölur benda til mjög alvarlegrar stöðu í vinnuumhverfi og starfsmannahaldi á stofnuninni. Það má benda á í þessu samhengi að fyrir fáeinum árum var það eitt af settum markmiðum Landspítalans að halda starfsmannaveltunni undir 8-9% á ársgrundvelli. Við erum víðsfjarri þessum markmiðum í dag.

Birtingarvandi heilbrigðiskerfisins

Vandi Landspítalans og skipulagsvandi íslenska heilbrigðiskerfisins endurspeglast í ástandinu á bráðmóttöku spítalans. Fréttir af þessu birtast reglulega og nú síðast vegna álags og uppsagna starfsfólks og upplýsinga um mögulega öryggisbresti í þjónustu spítalans við sjúklinga.

Í viðbrögðum forstöðumanns bráðaþjónustunnar á spítalanum í fjölmiðlum nýlega um uppsagnir hjúkrunarfræðinga á visi.is 1. júní sl. kom réttilega fram að án starfsfólks væri enginn spítali og í viðtali við Runólf Pálsson forstjóra á mbl.is sama dag kom fram að vandi bráðamóttökunnar væri afsprengi ófullnægjandi úrræða innan heilbrigðiskerfisins á höfuðborgarsvæðinu, vanda sem hefði verið viðloðandi í mörg ár. Til að halda í núverandi starfsfólk og fjölga því þurfi að borga hærri laun en nú eru í boði. Þá þurfi að hrinda í framkvæmd úrbótum innan heilbrigðiskerfisins, m.a. með uppbyggingu á hjúkrunar- og endurhæfingarýmum. Fjöldi aldraðra sem biðu vistunarúrræða á Landspítala í lok árs 2021 er sá sami og hann var í lok árs 2017. Fjöldi aldraðra sem biðu á bráðalegudeildum eftir endurhæfingu á Landakoti var einnig sá sami í lok árs 2021 og hann var árið 2017. Þannig að síðasta kjörímabil nýttist ekkert til að grynnka á þessum alvarlega vanda.

Fjárframlög ríkisins til Landspítala

Landspítalinn gegnir miðlægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu og þar fer fram flóknasta og sérhæfðasta heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi. Vaxandi „hagræðing“ og samþjöppun á þjónustu hefur átt sér stað á undanförnum árum, meðal annars að fela Landspítalanum verkefni sem áður var sinnt annars staðar. Má þar nefna niðurlagningu á starfsemi St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði og flutning á forvarnarverkefnum frá Krabbameinsfélaginu. Á sama tíma hefur ekki verið stutt nægjanlega við uppbyggingu á dag- og göngudeildarþjónustu, t.d. krabbameinssjúklinga, eða innra skipulagi og gæðastjórnun. Þá má einnig velta fyrir sér hvort sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík á sínum tíma hafi skilað þeim árangri sem lagt var upp með.

Það er í senn forvitnilegt og dapurlegt að skoða þróun fjárveitinga til Landspítalans síðastliðna tvo áratugi. Athygli vekur að framlag til Landspítala, sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins, hefur lækkað úr 8,3% árið 2002 í 6,5% árið 2020. Sem hlutfall af heildarframlagi til heilbrigðismála fór talan úr tæplega 35% árið 2002 í 28% árið 2020. Of hægfara viðsnúningur í fjárframlögum til Landspítalans eftir bankahrunið (bæði sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins og VLF) má með nokkrum rökum telja orsakavald þeirrar stöðu sem nú er á spítalanum. Það vekur hins vegar áhyggjur að framlagið sem hlutfall af útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála virðist nánast hafa staðið í stað frá árinu 2011.

Þessar niðurstöður hljóta að vekja spurningar um ráðstöfun fjárframlaga til heilbrigðismála, um verkaskiptingu, skipulag og forgangsröðun innan málaflokksins. Við undirbúning fjárlaga og fjármálaáætlunar til næstu ára er mikilvægt að gefa gaum að þessari stöðu og leiðrétta hlut Landspítalans enn frekar. Án þess er vandséð að undið verði ofan af óheppilegri starfsmannaveltu til lengri tíma.

Höfundar eru læknar á Landspítala og hafa báðir áður gegnt formennsku í læknaráði Landspítala og Læknafélagi Íslands.