Alþingi Enn er margt óútrætt á þingi fyrir 17. júní nú á föstudag.
Alþingi Enn er margt óútrætt á þingi fyrir 17. júní nú á föstudag. — Morgunblaðið/Ómar
Andrés Magnússon andres@mbl.is Mikil fundahöld voru samhliða þingfundum í gær til þess að freista þess að geta náð þinglokum í sátt og samlyndi fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní nú á föstudag.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Mikil fundahöld voru samhliða þingfundum í gær til þess að freista þess að geta náð þinglokum í sátt og samlyndi fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní nú á föstudag. Gangi allt eftir ættu dagurinn í dag og á morgun að duga til þess að ljúka umræðum, en síðan yrðu atkvæðagreiðslur á fimmtudag. Lítið má hins vegar út af bera til þess að það fari í handaskolum.

Um tíma var útlit fyrir að þinglokasamkomulag allra þingflokka nema Miðflokks, sem gert var síðastliðinn fimmtudag, væri í uppnámi, þar sem ekki var útlit fyrir að öll umsamin þingmannafrumvörp fengju framgang í þinginu, en þau reyndust mjög misflókin í meðförum eða erfið í pólitískum skilningi.

Þar á meðal var frumvarp Hildar Sverrisdóttur um að heimila netverslun með áfengi, sem var lagt til hliðar um leið og þingflokkasamkomulagið var gert, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins nötraði stjórnarheimilið vegna þess. Vinstri græn lögðust þvert gegn því og Framsókn reyndist áhugalaus um það.

Samið var um að taka gjafsóknafrumvarp Helgu Völu Helgadóttur í Samfylkingu til meðferðar, þó engu sé lofað um afgreiðslu þess. Þrátt fyrir að frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson um hjónaskilnað án undanfara sé lagatæknilega flókið, nýtur það víðtæks stuðnings í þinginu og mun stjórnin greiða götu þess.

Vonast var til að umræðum um fjármálaáætlun og aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar mætti ljúka í gærkvöld, en þær stóðu enn yfir þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöld. Til stendur að ræða rammaáætlun og fleiri mál í dag.

Þrátt fyrir að þinglok náist senn er von á að þingið verði aftur kallað saman í sumar til að ræða skýrslu ríkisendurskoðanda um bankasölumálið.