Einar Baxter fæddist í Reykjavík 11. október 1944. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 31. maí 2022.

Foreldrar hans voru Jóna Einarsdóttir húsfreyja frá Túni á Eyrarbakka, f. 4. apríl 1927, d. 10. febrúar 2010, og Herbert Baxter, f. 1921, d. 1985, hermaður í bandaríska hernum á Íslandi. Stjúpfaðir Einars var Gunnar Sigurðsson bóndi frá Leirulækjarseli á Mýrum, f. 7. október 1915, d. 27. mars 2005.

Systkini Einars voru átta, þau Herbert Baxter, f. 1946, Sigurður, f. 1948, Reynir, f. 1949, d. 2008, Margrét, f. 1951, Halldór, f. 1953, d. 2006, Svala, f. 1955, d. 2018, Gunnar, f. 1961, og Hafliði, f. 1963.

Einar kvæntist 2. júlí 1967 Ingibjörgu Bjarnadóttur en þau skildu árið 2003. Börn þeirra eru: 1) Bára, f. 17. apríl 1967, var gift Davíð S. Helgasyni. Börn þeirra eru Einar Örn, f. 1984, Sunna Rós, f. 1987, Helgi Axel, f. 1992 og Sara Dögg, f. 1992. Bára var gift Degi Andréssyni. Synir þeirra eru Andri Freyr, f. 1999, Arnar Ingi, f. 2002, og Alexander Ernir, f. 2005. Núverandi eiginmaður Báru er Guðmundur S. Pétursson. 2) Grettir, f. 24. maí 1971, giftur Ásdísi Clausen. Börn þeirra eru Andrea Ósk, f. 1998, og Emil Grettir, f. 2003. Grettir á dótturina Dagbjörtu Báru, f. 1992 með Sólborgu Baldursdóttur. 3) Jóna, f. 7. ágúst 1975, gift Sigfúsi Péturssyni. Börn þeirra eru Aníta Sif, f. 1996, Bjarni Darri, f. 1999 og Diljá Sól, f. 2003.

Langafabörnin eru orðin tíu.

Sambýliskona Einars síðustu ár var Vilborg Guðlaugsdóttir.

Einar bjó fyrstu tvö ár ævinnar í Reykjavík með móður sinni hjá móðurafa sínum Einari Jónssyni, bifreiðarstjóra og járnsmið, f. 1887, d. 1959. Þaðan flutti hann á Mýrarnar þar sem hann ólst upp í Leirulækjarseli fram á unglingsár en þá lá leiðin aftur til Reykjavíkur. Einar lærði til múrara og vann við það en gerðist svo byggingarstjóri hjá Byggðaverki. Einar var lengi leigubifreiðarstjóri hjá Hreyfli eða þar til hann lét af störfum.

Einar bjó lengst af í Reykjavík utan áratugar sem hann átti heima í Vogum við Vatnsleysuströnd. Síðasta árið var hann heimilismaður á Eir.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Faðir minn, Einar Baxter, er nú látinn og langar mig að minnast hans og kveðja með nokkrum orðum.

Pabbi var alla tíð mikill áhugamaður um bíla og áður en hann fékk bílprófið ók hann um með hatt til að virðast eldri en hann var. Þegar hann var á rúntinum upp úr tvítugu átti hann svartan og hvítan Chevrolet Bel Air og við ævilok átti hann flöskugrænan Lincoln Continental, árgerð '77. Hann ók honum eingöngu í þurrviðri, því annars yrði hann að pússa hann allan til að ná af honum dropunum. Ég var svo heppin að pabbi keyrði mig í og úr kirkju á brúðkaupsdaginn minn 2014, á Lincolnum eins og honum einum var lagið.

Um þriggja áratuga skeið var pabbi leigubifreiðarstjóri og þar var hann í essinu sínu, alltaf á Toyotu. Hann hafði yndi af því starfi, var alltaf mættur til vinnu um fjögur að nóttu og ekki tók hann sér marga frídaga á þeim árum.

Pabbi hafði líka gaman af hestum og ungur að árum átti hann meri sem hét Gletta. Á þeim tíma komu Þjóðverjar nokkrum sinnum í Leirulækjarsel og keyptu hesta og sóttu þeir fast að pabba að selja þeim merina. Pabbi neitaði því, Gletta færi ekki til Þýskalands. Við pabbi fórum í nokkra útreiðartúrana saman bæði í Leirulækjarseli og í Vogunum en hann smitaði mig af bakteríunni. Þótt Gletta færi ekki til Þýskalands hafði pabbi sérstakt dálæti á Þýskalandi og fór hann ófáar ferðir þangað bæði með mömmu og Vilborgu sambýliskonu sinni. Hann uppástóð að allt væri best í Þýskalandi; maturinn, vegirnir, náttúran og menningin. Pabbi hafði einstakt jafnaðargeð og sá ég hann aldrei reiðan eða missa stjórn á skapi sínu, enda þurfti hann oft að leysa úr erfiðum málum sem byggingarstjóri. Hann hafði m.a. yfirumsjón með öllum verktökunum sem komu að byggingu Kringlunnar.

Alla tíð gat ég leitað til hans með öll mín vandamál og leysti hann úr þeim með manni eða fyrir mann.

Pabbi varð síðustu árin þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast henni Vilborgu og var aðdáunarvert að sjá hvað hún reyndist honum vel. Síðasta daginn sem hann lifði sá ég gleggst hvað hún var honum mikils virði. Þrátt fyrir að hann væri mjög veikur sýndi hann alltaf viðbrögð ef hún var hjá honum. Eins voru pabbi og mamma góðir vinir alla tíð og það var einstaklega fallegt að fylgjast með hvernig hún sinnti honum í veikindunum.

Pabbi glímdi við erfið veikindi síðustu árin og án efa er hann hvíldinni feginn. Ég sé þá fyrir mér, pabba og Hrein, besta vin hans sem fór allt of snemma, sitja saman, spjalla og tefla.

Elsku pabbi, hafðu þakkir fyrir allt, hvíldu í friði.

Minning um góðan mann lifir.

Bára Einarsdóttir.

Tvær spurningar voru ef svo mætti segja fastur liður þegar við hittumst; klukkan hvað byrjar þú að vinna og hvað vinnur þú lengi á daginn? Íslenska vinnusemin var þér rótgróin en þú tókst hana skrefinu lengra með einstakri vandvirkni. Þú fannst í starfi það sem við leitum öll að í lífinu og mætti kannski kalla tilgang, það sem kemur okkur upp brekkur lífsins og veitir aukinn kraft.

Þú varst einskær blanda af reglusemi, skyldurækni og algjöru kaosi. Ólíkt hinu tvennu var kaosið kannski ekki hluti af þínum persónuleika heldur meira þeim áhrifum sem þú gast haft. Með stríðnina að vopni áttir þú auðvelt með að espa hvaða barn sem var upp í hæstu hæðir og ekki bara eitt því þau löðuðust að þér fyrir þína léttu lund. Kaosið í þér leyfði þér hins vegar ekki að hætta fyrr en allt var komið í háaloft og foreldrar orðnir jafn æstir og börnin. Þá var markmiðinu náð og þú gast komið þér í burtu.

En þú varst ekki bara laginn við að espa fólk upp heldur varstu einna bestur þegar á reyndi að róa fólk niður. Þrátt fyrir að vera maður fárra orða var oftar en ekki hóað í þig til að jafna málin og þú hikaðir ekki við að leggja allt frá þér og ræsa strax af stað. Og með þinni yfirvegun og á þinn hátt náðir þú einhvern veginn að tjasla öllu saman.

Ef maður leitaði til þín varstu alltaf tilbúinn að hjálpa til við það sem þú gast aðstoðað við og það besta við að spyrja þig var að svarið var alltaf afgerandi. Annaðhvort gastu hjálpað og gekkst strax í verkið eða þú gast það ekki og maður leitaði annað. Hjálparhöndin var hins vegar annmörkum háð þar sem þú settir sömu kröfur á okkur og þú gerðir á sjálfan þig; að standa sína plikt. Stundvísi var þar stór þáttur svo ef maður ætlaði að mæta á ákveðnum tíma var best að mæta tíu mínútum fyrr. Þetta var engin öfgareglusemi heldur snerist þetta um að bera virðingu fyrir tíma annarra. Gildi sem fylgja okkur enn í dag og sem við erum þér þakklát fyrir.

Það er til marks um farsælt líf þegar takmarka þarf þann fjölda sem vill styðja þig á lokametrunum svo biðstofan fyllist.

Takk fyrir allt, afi, við eigum eftir að sakna þín.

Þín barnabörn,

Einar Örn, Helgi Axel

og Sara Dögg.