Kappreiðar Eftirlætiskeppnisgrein formannsins er kappreiðarnar.
Kappreiðar Eftirlætiskeppnisgrein formannsins er kappreiðarnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Reykjavíkurmeistaramót Fáks, hestamannafélags, hófst í gær með glæsilegum töltsýningum, einkum í barna- og unglingaflokki. Þá lauk deginum með skeiðkappreiðum.

Reykjavíkurmeistaramót Fáks, hestamannafélags, hófst í gær með glæsilegum töltsýningum, einkum í barna- og unglingaflokki. Þá lauk deginum með skeiðkappreiðum. Um 920 skráningar bárust á mótið og því er um að ræða stærsta hestamannamót sem haldið verður á Íslandi í ár. „Við höfum reynt að finna mót í heiminum sem er af sambærilegri stærðargráðu en það jafnast ekkert á við þetta,“ segir Hjörtur Bergstað, formaður Fáks. Fyrsti dagurinn gekk eins og í sögu, án seinkana. „Við erum með svo vel þjálfað og gott starfsfólk.“

Mótið stendur yfir í sjö daga og er dagskráin gríðarlega þétt. „Við erum svo heppin að það er bjart langt fram eftir nóttu á þessum árstíma og þannig getum við látið dagskrána ná fram á kvöld.“ Mótið er opið öllum sem hafa áhuga á að sjá pússaða hesta og prúðbúna knapa leika listir sínar í Víðidal. Kappreiðarnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá formanninum, en hann keppti sjálfur í þeim á árum áður. Í dag verður fjórgangurinn í brennidepli og áfram á miðvikudag. Á fimmtudag fer fram forkeppni í fimmgangi og á föstudag verður keppt í gæðingaskeiði en þá hefjast líka úrslit og loks forkeppni meistaraflokks í tölti.