Erlendur Pálsson fæddist í Reykjavík 1. maí 1955. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 3. júní 2022.

Foreldrar Erlends voru Valdís Erlendsdóttir, f. 29. nóvember 1929, d. 13. mars 2017, og Páll Andrés Arnljótsson, f. 4. desember 1927, d. 26. júní 1959.

Erlendur ólst upp í Langagerði í Reykjavík og var yngstur þriggja bræðra, bræður hans voru Örn, f. 11. desember 1948, d. 2. apríl 2018, og Hrafn, f. 16. ágúst 1950, d. 3. júní 2005.

Erlendur lætur eftir sig þrjú börn, þau eru: 1) Páll Arnar, f. 31. janúar 1979, hann á tvo drengi, Orra Hrafn og Sebastian. 2) Hlynur, f. 15. maí 1986. 3) Telma, f. 17. júní 1993, gift Davíð Helga Hermannssyni, börn þeirra eru Bríet Arna og Patrekur Nóel.

Útför fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 14. júní 2022, klukkan 13.

Úff hvar byrjar maður... pabbi minn dó, þetta eru þung orð en ég veit að hann fékk dásamlegar móttökur í sumarlandinu eins og hann kallaði það alltaf.

Pabbi var sá allra besti, hann reyndist mér svo mikið meira en bara pabbi, hann var trúnaðarvinur, ráðgjafi, stuðningsaðili og minn allra besti vinur. Pabbi var dásamlegur afi og man ég þegar ég tilkynnti honum með símtali til Spánar að ég væri ólétt að Bríeti Örnu dóttur minni að þá heyrðist brosið í gegnum símann. Við fórum svo og heimsóttum hann um vorið áður en hann kom heim og þá talaði hann ítrekað um að hann yrði nú að koma heim og passa að við myndum standa okkur í foreldrahlutverkinu, talaði um að hann þyrfti að hafa yfirsýn yfir þessi mál. Pabbi varð svo aftur yfir sig spenntur þegar Patrekur Nóel var væntanlegur og talaði alla daga um að hann væri svo spenntur að fá annan afastrák og það yrði svo skemmtilegt að eiga eina afastelpu og einn afastrák hér á Íslandi.

Ég man síðustu dagana hans á spítalanum hvað hann ljómaði þegar ég kom í heimsókn með krakkana því þau voru hans líf og yndi. Hann og Bríet áttu alveg hreint yndislegt samband og voru eins konar sálufélagar frá fyrsta degi.

Pabbi var mikill smekkmaður og fagurkeri, hann naut þess að hafa fallega hluti í kringum sig og var alltaf svo vel tilhafður.

Ég man að pabbi var alltaf svo mikill nautnaseggur og í raun var honum alveg sama hvaða dútl var í gangi bara að það væri eitthvað verið að klóra eða strjúka. Hann leyfði mér ótal sinnum að vera í hárgreiðslu- og förðunarleik meðan hann lá og hvíldi sig í sófanum og mun ég alltaf muna hvað mér þótti það gífurlega skemmtilegt, honum tókst að koma Bríeti minni í sama nautnaseggsbát og segir hún reglulega að henni sé svo illt í bakinu að afi Elli þurfi að klóra.

Pabbi var með ótrúlega fallegt hjarta, hann var traustur og mikill vinur vina sinna. Pabbi var mikill grínari og húmoristi og á ég endalausar minningar af okkur að hlæja og gantast saman.

Pabbi hafði áhuga á öllu sem við vorum að gera og reyndi að vera duglegur að hjálpa eins og heilsan leyfði, oft var það bara með því að senda mér greinar og pistla á netinu tengt viðkomandi verkefnum eða þegar hann kom brunandi með nærbuxnapakka fyrir Bríeti þegar hún fór að æfa sig á koppnum.

Pabbi var ekki maður sem tjáði ást sína með orðum en það var engin þörf á því þar sem það fór aldrei á milli mála að við börnin og barnabörnin vorum hans augasteinar.

Pabbi hafði barist hetjulega við sín veikindi og alveg hreint aðdáunarvert að sjá hversu sterkur hann var í gegnum þetta allt saman. Stundum þegar bakslögin komu átti hann það til að segja: „Það er merkilegt hvað það er lagt mikið á þennan litla búk.“

Pabbi, ég gæti skrifað og skrifað en kannski er þetta ágætis endapunktur í bili.

Ég elska þig endalaust og sakna þín alltaf. Ég mun passa upp á afagullin þín og hlakka mikið til að segja þeim allar dásamlegu sögurnar af þér og uppátækjunum þínum.

Þar til næst elsku pabbi minn.

Þín pabbastelpa,

Telma.

Ég kynntist Ella þegar hann og Elsa systir mín drógu sig saman. Mér fannst mikið til þessa manns koma og voru hann og Elsa dugleg að leyfa mér, litla skottinu, að vera með sér.

Ég man hversu gaman mér fannst að fara með þeim í Langagerði þar sem mamma hans bjó og ekki var verra ef Auður og Valdís, bræðradætur hans væru á staðnum.

Elli og Elsa leyfðu mér að taka mikin þátt í lífi sínu sem ég er mjög þakklát fyrir. Þegar ég var 8 ára eignuðust þau sitt fyrsta barn, hann Palla. Það var hringt í skólastjórann og ég sótt úr tíma til að tilkynna mér að hann væri fæddur. Svo kom mamma og sótti mig og við brunuðum upp á fæðingardeild. Það var ekkert skrítið að mér leið eins og ég hefði loksins eignast lítinn bróður.

Fyrsta heimilið þeirra var í Laufangi og þar var alltaf gaman að vera. Elli var skemmtilegur og stríðinn og mér fannst allt svo flott heima hjá þeim og leit mikið upp til þeirra. Elli reyndist mér líka mjög vel þegar ég missti mömmu 13 ára og held ég að hann hafi haft skilning á því hvað ég var að ganga í gegnum, enda missti hann föður sinn ungur að árum. Ég held að Elli hafi aldrei gert sér grein fyrir hvað þessi umhyggja hans skipti mig miklu máli og hvað ég mat hana mikils.

Ég hitti Ella síðast tveim vikum fyrir andlát hans úti á flugvelli eins og svo oft áður. Þar gátum við aðeins spjallað saman og gat ég óskað honum til hamingju með óvænta brúðkaupið hennar Telmu sem var deginum áður. Ég er ótrúlega þakklátt fyrir að hafa hitt hann þarna og geta kvatt hann með kossi.

Mér þykir miður að geta ekki verið viðstödd og kvatt hann hinni hinstu kveðju og eru hugsanir mínar hjá börnum hann og barnabörnum. Minning um góðan mann lifir.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

Katrín Norðmann

Jónsdóttir