Búrfellslundur Vindmyllurnar á Hafinu við Búrfellsstöð snúast vel.
Búrfellslundur Vindmyllurnar á Hafinu við Búrfellsstöð snúast vel. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Mér finnst þetta skynsamleg málamiðlun á þessum tímapunkti og í samræmi við það sem boðað var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Mér finnst þetta skynsamleg málamiðlun á þessum tímapunkti og í samræmi við það sem boðað var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Aðallega er verið að stækka biðflokkinn og gefa með því stjórnvöldum meiri tíma til að vanda vinnubrögð við mat á orkukostum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um tillögur meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar til breytinga á tillögum verkefnisstjórnar rammaáætlunar 3.

Hörður bendir á að frá því verkefnisstjórn lagði fram tillögur sínar hafi ýmsar nýjar upplýsingar komið fram, meðal annars orkustefna, stefna um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 og nú síðast grænbók um orkuþörf.

Á vegum Landsvirkjunar

Landsvirkjun er að þróa flesta þá orkukosti sem taka breytingum í rammaáætlun, samþykki Alþingi breytingarnar. Þannig eiga Skrokkölduvirkjun og Holta- og Urriðafossvirkjanir í neðri Þjórsá að fara úr nýtingarflokki í biðflokk. Hörður viðurkennir að betra hefði verið fyrir Landsvirkjun að hafa þessa kosti í nýtingarflokki en fyrirtækið virði þessa skoðun. Þar séu álitamál sem skoða þurfi betur og þegar gerð er málamiðlun þurfi að líta til beggja átta. Tekur Hörður fram að ekki sé á dagskrá hjá Landsvirkjun að virkja á þessum stöðum á næstunni og því tími til að skoða málið betur. „Við treystum stjórnvöldum til að meta þetta út frá hagsmunum þjóðarinnar,“ segir hann.

Fjórir virkjanir í Héraðsvötnum og Kjalölduveita í Þjórsá eru á móti færðar úr verndarflokki í nýtingarflokk. „Ég tel æskilegt að þessir kostir verði skoðaðir betur, út frá orkuþörf samfélagsins og hvernig við ætlum að mæta henni. Það komu fram efnislegar athugasemdir við málsmeðferð á sínum tíma og gott að skoða þessi verkefni betur,“ segir Hörður. Hann tekur fram að þótt orkukostir séu fluttir í biðflokk þýði það ekki að þeir verði að veruleika eða verði útilokaðir. Lögin kveði einfaldlega á um að ef eitthvað er óljóst eigi þeir að fara í bið.

Búrfellslundur góður kostur

Loks gerir meirihluti nefndarinnar tillögu um að vindorkukosturinn Búrfellslundur verði fluttur úr bið í nýtingarflokk. Hörður segist ánægður með það og tekur undir rök nefndarinnar um að hagkvæmt sé að virkja vindinn á þessum stað og lítið skaðlegt fyrir náttúruna. Í upphaflegu mati hafi sjónarmiðum ferðaþjónustu verið gefið of mikið vægi. „Við höfum beðið í tíu ár eftir að geta þróað vindorkukosti og fögnum því að það verði nú hægt til að samfélagið geti séð hvernig þess háttar orkuframleiðsla fer fram og hvernig hún hentar hér,“ segir Hörður. 10-11