Suðurland Lögreglustöðin sem er við götuna Hörðuvelli á Selfossi.
Suðurland Lögreglustöðin sem er við götuna Hörðuvelli á Selfossi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grímur Hergeirsson verður settur lögreglustjóri á Suðurlandi frá 1. júlí næstkomandi og út líðandi ár. Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri verður í leyfi á sama tíma.

Grímur Hergeirsson verður settur lögreglustjóri á Suðurlandi frá 1. júlí næstkomandi og út líðandi ár. Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri verður í leyfi á sama tíma. Á þessum sex mánuðum verður Grímur einnig áfram lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, en því embætti hefur hann sinnt síðasta eina og hálfa árið.

Hjá embætti Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er Grímur öllu kunnugur. Hann var þar rannsóknarlögreglumaður og varðstjóri fyrr á árum og síðar löglærður fulltrúi og staðgengill lögreglustjóra um árabil. Hann fór svo til starfa í Eyjum undir lok árs 2020 og hefur þar – jafnhliða öðru – meðal annars sinnt þjálfun karlaliðs ÍBV í handknattleik. Áður hafði Grímur keppt og þjálfað handbolta á Selfossi, þar sem hann er fæddur, uppalinn og á allar sínar rætur.

„Á þessum mánuðum sem nú fara í hönd verð ég áfram væntanlega mest í Vestmannaeyjum, en einnig eftir atvikum á Suðurlandi. Staðsetning skiptir reyndar ekki sama máli nú og áður, því störf og verkefni eru oft afgreidd í tölvu og síma. Nokkrar vikur eru síðan fyrst var nefnt að ég bætti Suðurlandinu við mig í nokkra mánuði og þeirri beiðni ráðuneytisins svaraði ég játandi. Frá fyrri tíð þekki ég flest í starfsemi þess embættis og geng því að flestu vísu myndi ég ætla,“ segir Grímur.

Höfuðstöðvar embættis Lögreglustjórans á Suðurlandi eru á Hvolsvelli og yfirmaður embættisins er þar. Mestur þungi starfseminnar er þó á lögreglustöðinni á Selfossi, en þaðan er meðal annars sinnt löggæslu á vinsælum ferðamannastöðum í uppsveitum Árnessýslu. Varðsvæði embættisins nær frá Selvogi og austur í Lón – og auk lögreglustöðvarinnar eru slíkar á Hvolsvelli, í Vík, á Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði. sbs@mbl.is