Guðmundur Ingi Gunnlaugsson fæddist 14. september 1951. Hann lést 4. júní 2022. Útför Guðmundar Inga fór fram 10. júní 2022.

Þú félagi, vinur, þín för

enduð er

á framandi ströndu að

landi þig ber.

Við syrgjum og gleðjumst hér saman um stund,

en seinna við mætumst á annarri grund.

Þó leið okkar skilji og lund okkar sár

þú læknað það getur og þerrað hvert tár.

Þú bæn okkur kenndir við biðjum þig nú

að breyta þeim harmi í eilífa trú.

(EBV)

Fyrstu kynni mín af Guðmundi Inga voru árið 2011. Ég var þá nýbúinn með Háskólann á Hólum í Hjaltadal og nýráðinn atvinnu- og ferðamálafulltrúi í Rangárþingi og Mýrdal. Gjörsamlega blautur á bak við eyrun í stjórnsýslugeiranum. Ég var heppinn að Guðmundur tók mér svona vel og að hann var andstæðan við mig – rólegur og yfirvegaður. Allt sem hann gerði yfirfór hann og yfirfór aftur. Guðmundur var mér sannarlega stoð og stytta í mínu starfi. Þar sem skrifstofan mín var á Hellu leitaði ég langoftast til hans af þeim sveitarstjórum sem ég vann með ef ég þurfti álit eða ráð.

Guðmundur bjó yfir mikilli visku – hafði unnið í veitingageiranum, rekið vinsælan veitingastað á Selfossi auk þess sem hann kom að hótelstjórnun auk þess að vera sjóaður í sveitarstjórnarmálum.

Margar ferðir átti ég upp á skrifstofu til að hitta Guðmund með eitthvað sem ég þurfti leiðbeiningar við og hann úttalaði sig aldrei um hlutina fyrr en hann var búinn að kynna sér málið frá öllum hliðum.

Leiðir okkar lágu svo síðar saman þegar við báðir vorum bílstjórar hjá Kynnisferðum. Guðmundur byrjaði á eftir mér en mikið svakalega var hann fljótur að ná tökum á starfinu. Alltaf með sitt á hreinu og vissi hvað hann átti að gera.

Guðmundur hafði skoðanir og hann var mjög fylginn sér í þeim. Virkur var hann á Facebook þar sem hann krufði málefni líðandi stundar. Ekki var ég alltaf sammála honum en hann ávann sér traust og virðingu, burtséð frá skoðunum sínum.

Ég kveð þennan samferðamann minn með sorg og veit að hann er kominn á betri stað. Ég sendi ég ástvinum hans mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Eymundur Gunnarsson,

fv. atvinnu- og ferðamálafulltrúi í Rangárþingi og Mýrdal.