Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson „Sjómannalof“: Sjómenn færa björg í bú, bæta kjör og þjóðarhag, flottir bæði fyrr og nú, fagna skulum þeim í dag.

Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Arnfinnsson „Sjómannalof“:

Sjómenn færa björg í bú,

bæta kjör og þjóðarhag,

flottir bæði fyrr og nú,

fagna skulum þeim í dag.

Halda þeir um höfin blá,

hróður landans bera vítt,

reyna mátt við reiðan sjá,

Ránardætur óttast lítt.

Sjómannslífið dýrka og dá

dáðrakkir í hverri raun,

virðingu og vegsemd fá,

verðskulda hin æðstu laun.

Tryggvi Jónsson skrifar:

„Þar sem skrokkurinn er sífellt að kvarta og segist vera orðinn eldri en sálin, þá skottaðist ég til doksa og bar mig aumlega því af slæmri reynslu þá hef ég komist að því að það borgar sig ekki að bera sig mannalega þegar maður á í viðskiptum við þá ágætu menn og konur.

Þeim viðskiptum lauk með myndatöku, blóðprufu og litlum bláum pillum“:

Horfinn þróttur, horfið þrek

heldur bústinn kviður.

Fæturnir sem fúið sprek

fúnar geðið niður.

Grána hærur, gleymast spor

gigtin leiða veldur.

Eldist kallinn, ekkert þor,

orðin næstum geldur.

Lyftist sálin líknar þraut

líkt og sumarylur.

Leiði og drungi líða á braut,

eftir litlar bláar pillur.

Ólafur Stefánsson svaraði með góðum óskum:

Gleði á ný hjá garpi finn

gamla flóir saftin.

Úr pilluglasi pótensinn

piltur fær og kraftinn.

Magnús Geir Guðmundsson kvað:

Það eflaust er sagt með sann,

seint ég betur að gái

að alltaf hún elti mann,

Elli kerling og nái!

Ingunn Björnsdóttir svaraði:

Gleðstu við þá góðu frétt

að göfugt man þig elti.

þótt aðrar konur, alveg rétt,

þér ei fyrir sér velti.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is