Danshöfundur „Allt sem ég geri er dans. Svo er spurning hver útkoman verður,“ segir Sigríður Soffía í nýjasta þætti Dagmála. Sköpun hennar hófst líklega í drullukökubakstri á barnsaldri en hefur nú blómstrað í allar áttir.
Danshöfundur „Allt sem ég geri er dans. Svo er spurning hver útkoman verður,“ segir Sigríður Soffía í nýjasta þætti Dagmála. Sköpun hennar hófst líklega í drullukökubakstri á barnsaldri en hefur nú blómstrað í allar áttir. — Morgunblaðið/Ágúst Óliver
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Danshöfundurinn og listakonan Sigríður Soffía Níelsdóttir hefur marga fjöruna sopið: Flakkað með dansverk um landið, stundað nám við sirkusskóla í Brussel, troðið upp í Frakklandi og víðar í Evrópu og hannað flugeldasýningar í Reykjavík og Barcelona, svo fátt eitt sé nefnt.

Íslenskur líkjör sem hún framleiðir í samstarfi við Foss Distillery og ilmur sem hún skapaði ásamt Lilju Birgisdóttur eru nýjustu verk Sigríðar Soffíu og ganga þau bæði undir vörumerki Eldblóma. Þrátt fyrir að viðfangsefni Sigríðar Soffíu, sem er nýjasti gestur Dagmála , séu fjölbreytt eiga þau sér öll sameiginlega rót: Dansinn.

Í þættinum fer Sigríður Soffía meðal annars yfir ferilinn. Tólf ára byrjaði hún í dansi þegar hún fylgdi vinkonu sinni í djassballett. Aðspurð segir Sigríður Soffía að hún hafi ekki endilega ætlað sér að verða atvinnudansari og ákvað hún að fara í Menntaskólann í Reykjavík vegna þess að hún var áhugasöm um stjarneðlisfræði. Leiðin lá þó ekki í þá grein heldur fór Sigríður Soffía í Listaháskólann eftir útskrift úr MR. Þegar hún var í þann mund að klára námið í LHÍ barst henni afdrifaríkt starfstilboð um að dansa í sýningu hjá Ernu Ómarsdóttur, sem nú starfar sem listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, í Frakklandi.

„Þetta var og er stærsta tækifæri lífs míns. Ég gleymi aldrei símtalinu þegar hún hringdi í mig,“ segir Sigríður Soffía og minnist þess að hún hafi verið í matsal LHÍ þegar símtalið barst.

Hún dansaði með danshópi Ernu, Shalala, í um fjögur ár og ferðaðist með þeim um Evrópu. Á sama tíma dansaði Sigríður Soffía í verki eftir belgískan höfund og söng í óperu í Frakklandi.

„Þetta var allt sem mann dreymir um sem einhvern lítinn bóhem úr LHÍ. Á einhverjum geggjuðum rauðvínsbörum að hlusta á djass, fara á leik- og danssýningar á hverju einasta kvöldi,“ segir Sigríður Soffía um reynsluna. Þó henni hafi liðið vel á meginlandinu, þyrsti hana í að komast til Íslands og breiða út samtímadansinn. Út á land fór hún með sólóverk sem hún sýndi 32 sinnum, þar af einungis þrisvar eða fjórum sinnum í Reykjavík.

„Mér fannst mjög gaman að koma inn á mismunandi staði og setja upp sýningu með tækni og leikmynd og ljósum og öllu,“ segir Sigríður Soffía. Jónas Sen tónlistarmaður var með í för og spilaði lifandi tónlist á flygil undir dansinn.

En Sigríður Soffía hefur reynt fyrir sér á fleiri sviðum listarinnar, til dæmis hefur hún hannað flugeldasýningar, fyrst fyrir menningarnótt Reykjavíkurborgar þrjú ár í röð. Einnig var hún fengin til þess að standa að flugeldasýningu í Barcelona sem var hálftíma löng og um tvær milljónir manna fylgdust með.

Nú hefur Sigríður Soffía hannað verk úr blómum, líkjör og ilmvatn sem allt er sprottið úr þeim innblæstri sem hún hefur fundið í flugeldunum. Hún komst nefnilega að því þegar hún hannaði sýninguna í Barcelona að flugeldar voru upprunalega hannaðir „til að upphefja náttúruna“, en flestir flugeldar eru í grunninn hannaðir til þess að líkjast trjám eða blómum.

„Það sem átti að upphefja náttúruna er núna byrjað að tortíma henni. Nú erum við bara farin að menga svo ógeðslega mikið með ódýrri framleiðslu, ódýrri vöru, hættulegum eiturefnum,“ segir Sigríður Soffía, sem er ekki endilega á þeirri skoðun að banna eigi flugelda yfirhöfuð, frekar eigi að finna jafnvægi í þeim efnum.

Hátt hlutfall af samtímadansi

Eftir að hún uppgötvaði tengingu flugelda við blóm ákvað hún að nota blóm sem flugeldar byggjast á og rækta úr þeim verk sem sett var upp í Hallargarðinum og var þar í tvö sumur. Verkefnið hlóð sífellt utan á sig, til dæmis þegar hún áttaði sig á því að öll blómin mætti borða og væri því hægt að nota í líkjör, „hinn fyrsta íslenska spritz“.

„Það er mjög hátt hlutfall af samtímadansi í þessum drykk vegna þess að [hann er gerður] úr kóreógröfuðum blómum; þannig að við höldum því fram að það sé öruggt að þú munir finna fyrir frumlegum danshreyfingum brjótast út á þriðja glasi,“ segir Sigríður Soffía. Samhliða drykknum var hannaður ilmur og gengur hann, rétt eins og líkjörinn, undir nafninu Eldblóm.

Drykkurinn verður fáanlegur í verslunum ÁTVR í haust en ilmvatnið er uppselt sem stendur.

Eins og farið hefur verið yfir hér er ferill Sigríðar Soffíu afskaplega fjölbreyttur en öll hennar verk tengjast þó dansi.

„Allt sem ég geri kemur frá dansi. Jú, ég er að gera líkjör en þetta er dansdrykkur,“ segir Sigríður Soffía.

Í þættinum nefnir hún t.a.m. að hún hafi hannað flugeldasýningarnar eins og dansverk og að ilmurinn sem hún hannaði ásamt Lilju sé „dansandi“.

„Allt sem ég geri er dans. Svo er spurning hver útkoman verður,“ segir Sigríður Soffía.