[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Guðlaug Edda Hannesdóttir hafnaði í 31. sæti í keppni 55 sterkustu þríþrautarkvenna heims á heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut í Leeds á Englandi um helgina. Hún vann sig upp alla keppnina, var í 45. sæti eftir sundið, í 37.

* Guðlaug Edda Hannesdóttir hafnaði í 31. sæti í keppni 55 sterkustu þríþrautarkvenna heims á heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut í Leeds á Englandi um helgina. Hún vann sig upp alla keppnina, var í 45. sæti eftir sundið, í 37. sæti eftir hjólreiðarnar og að lokum í 31. sæti eftir hlaupið þar sem hún náði sínum besta tíma í þríþraut, hljóp fimm kílómetra á 17,30 mínútum. Hún fær fyrir þennan árangur stig inn á nýjan úrtökulista fyrir Ólympíuleikana 2024.

* Giorgio Chiellini , fyrirliði ítölsku Evrópumeistaranna í knattspyrnu á síðasta ári, hefur samið við Los Angeles FC til ársloka 2023 en félagið staðfesti þetta í gær. Chiellini er 37 ára og kvaddi Juventus í vor eftir átján ár þar og lék kveðjulandsleik sinn með Ítalíu á dögunum þegar liðið mætti Argentínu á Wembley. Chiellini lék samtals 561 mótsleik með Juventus og 117 landsleiki fyrir Ítalíu.

*Írski körfuboltamaðurinn Taiwo Badmus sem lék með Tindastóli á síðasta keppnistímabili hefur samið að nýju við Skagfirðinga um að leika áfram með þeim næsta vetur.

Badmus, sem er 28 ára gamall framherji og landsliðsmaður Írlands, fæddur í London, var í stóru hlutverki hjá Tindastóli í vetur þegar liðið komst í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn en mátti sætta sig við ósigur gegn Val í oddaleik.